Framkvæmd þjóðlendulaganna

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 15:16:16 (1681)

2002-11-20 15:16:16# 128. lþ. 34.9 fundur 299. mál: #A framkvæmd þjóðlendulaganna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[15:16]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ætli ég verði ekki að lesa spurningarnar sjálfur fyrir þingmanninn sem lá svo mikið á hjarta að hann kom ekki spurningum sínum að hér í fyrirspurnatíma en það er nýmæli eftir því sem ég best veit.

Þingmaðurinn spyr: ,,Hvernig hyggst ríkisvaldið tryggja fjármuni til þess að sveitarfélög og einstaklingar verði fjárhagslega skaðlaus vegna þeirrar vinnu og málareksturs sem þau hafa þurft og þurfa að kosta til í framhaldi af lagasetningu Alþingis um þjóðlendur?``

Þessi spurning er villandi og segir ekki alla söguna.

Samkvæmt ákvæði 17. gr. þjóðlendulaga, nr. 58/1998, eins og þeim var breytt með 7. gr. laga nr. 65/2000, skal nauðsynlegur kostnaður vegna hagsmunagæslu fyrir óbyggðanefnd greiddur úr ríkissjóði. Óbyggðanefnd skal sjálf úrskurða um kröfur aðila af þessu tilefni.

Í athugasemdum við 7. gr. er þetta skýrt nánar. Bendi ég þingmanninum á þær skýringar.

Við mat á því hvort um nauðsynlegan kostnað hafi verið að ræða, er nefndinni samkvæmt framangreindu heimilt að líta til þess hvort aðstoð lögmanna og annarra sérfræðinga hafi verið samnýtt af aðilum með svipaða og samrýmanlega hagsmuni. Nefndinni er jafnframt skylt að líta til þess hvað telja megi sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í viðkomandi máli. Þannig er í lögunum kveðið á um að óbyggðanefndin leggi með tilteknum hætti mat á málskostnað og hún samþykki þess vegna ekki sjálfkrafa hvern þann málskostnaðarreikning sem farið kann að vera fram á.

Ákvörðun um málskostnað kemur fram í úrskurði óbyggðanefndar. Sé úrskurðaður lægri málskostnaður en málsaðili hefur verið krafinn um vegna vinnu lögmanns eða annarra við málið verður að sjálfsögðu til einhver mismunur. Og á því geta verið tilteknar skýringar sem ástæðulaust er að rekja hér, en það er þó fyrst og fremst vegna þess að ekki er um nauðsynlegan kostnað að ræða samkvæmt mati nefndarinnar, eða þá að hann er umfram það sem nefndin telur sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í málinu. Ber þá að hafa í huga að í nefndinni eru reyndir dómarar og lögfræðingar sem þekkja til þess frá dómstólum hvernig mat er lagt á slíkan kostað.

Í öðru lagi spurði þingmaðurinn: ,,Hve mikið hefur verið greitt til einstaklinga og sveitarfélaga vegna málarekstrar sem þau hafa orðið að standa í á grundvelli þjóðlendulaganna?``

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað frá óbyggðanefnd var úrskurðaður málskostnaður ásamt greiddum útlögðum kostnaði í Árnessýslu samtals rétt tæplega 10,5 millj. kr. Til samanburðar má geta þess að greiddur kostnaður vegna hagsmunagæslu ríkisins á árunum 1999--2002 vegna kröfulýsingar í Árnessýslu, Austur- og Vestur-Skaftafellssýslum og Rangárvallasýslu, auk málflutnings í Árnessýslu og hluta Vestur-Skaftafellssýslu, var samtals rúmar 11,7 millj. kr.

Síðan spyr þingmaðurinn í þriðja lagi: ,,Hvers vegna ákvað ráðherra að kæra úrskurð óbyggðanefndar sem hann hafði áður lýst fyllsta trausti á?``

Þetta er það sem hann eyddi tíma sínum í hér í upphafi ræðutíma síns. Reyndar er þetta nú ekki nákvæmlega orðað frekar en fyrri hluti fyrirspurnarinnar.

Ég ákvað það sem sá ráðherra sem ber ábyrgð á þessu máli að hagnýta mér ákvæði þjóðlendulaganna um að fara með álitaefni fyrir dómstóla. Það hafa reyndar fjögur sveitarfélög líka gert og höfðu ákveðið áður en niðurstaða ríkisstjórnar í því máli lá fyrir. En sú ákvörðun að bera úrskurð óbyggðanefndar undir dómstóla, eða að áfrýja dómi héraðsdóms til Hæstaréttar, hefur ekkert með það að gera hvort menn bera traust til viðkomandi stofnana. Menn áfrýja t.d. ekki dómi héraðsdóms til Hæstaréttar á þeirri forsendu að menn treysti ekki héraðsdómstólum. Meginástæðan er sú að nauðsynlegt er að dómstólar taki strax afstöðu til álitamála sem voru til umfjöllunar hjá óbyggðanefnd til að skapa fordæmi.

Það eru mikilsverðir opinberir hagsmunir því samfara að dómstólar verði strax í upphafi látnir skera úr um helstu lögfræðileg álitaefni. Þá yrðu niðurstöður dómstóla bindandi fordæmi fyrir óbyggðanefnd í síðari málum fyrir nefndinni. Með því yrði einnig komið í veg fyrir hugsanlegt misræmi milli úrskurðar óbyggðanefndar og dóma Hæstaréttar sem seinna kynnu að verða kveðnir upp vegna sambærilegra álitaefna.

Þess vegna var það álit ráðuneytisins sem byggðist m.a. á mati ríkislögmanns að í máli því er tók til Biskupstungnaafréttar og efstu landa í Biskupstungnahreppi reyni á nánast öll þau lögfræðilegu álitamál er upp hafa komið sem líkleg eru til að hafa fordæmisgildi í síðari málum fyrir óbyggðanefnd. Þess vegna var ákveðið að fara í þennan málarekstur eins og þingmanninum er auðvitað vel kunnugt um.

Ég vil hins vegar benda honum á það að í Morgunblaðinu í morgun á baksíðu segir formaður óbyggðanefndar sjálfur eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Kristján segir það mikilvægt að láta reyna á meginsjónarmið í úrskurðum nefndarinnar fyrir dómstólum.``

Hann virðist ekki hafa þá meira traust, samkvæmt túlkun þingmannsins, á sínum eigin vinnubrögðum, sínum eigin úrskurðum en það að hann vill sjálfur að þeir fari fyrir dómstóla. Ég held að þetta hljóti nú aðeins að skýra málið, hv. þm.