Framkvæmd þjóðlendulaganna

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 15:23:47 (1683)

2002-11-20 15:23:47# 128. lþ. 34.9 fundur 299. mál: #A framkvæmd þjóðlendulaganna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[15:23]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Látum það nú vera þó að skiptar skoðanir séu um það hvort rétt hafi verið að fara með þessi mál fyrir dómstóla. Ég tel að það hafi verið óhjákvæmilegt til að fá lögfræðilega rétta niðurstöðu samkvæmt úrskurði æðsta dómstóls landsins. Menn geta haft sínar skoðanir á því. Gott og vel.

Að því er varðar kostnaðinn, þá liggur alveg fyrir hvernig þeim málum er háttað. Það liggur alveg skýrt fyrir annars vegar varðandi málskostnað fyrir óbyggðanefnd, sem ég ræddi hér áðan, og hins vegar málskostnað fyrir dómstólum þar sem koma til álita gjafsóknarákvæði einkamálalaga og svo bara venjuleg málsmeðferð fyrir dómstólum þar sem þeir úrskurða sjálfir um málskostnað.

Hins vegar að því er varðar vinnubrögð og vinnuferli óbyggðanefndar núna á meðan beðið er niðurstöðu dómstóla, þá verð ég að segja að ég er að mörgu leyti alveg sammála því hjá hv. þm. að það væri kannski æskilegast að óbyggðanefnd héldi að sér höndum og biði þeirra úrskurða. Það þýðir hins vegar ekkert að tala um það úr þessum sal vegna þess að um er að ræða sjálfstæða stjórnsýslunefnd sem ég hef ekki umboð og vald til að segja fyrir verkum. Hún hefur ákveðna vinnuáætlun sem hún ætlar greinilega að standa við, það kemur líka fram hjá formanni nefndarinnar í Morgunblaðinu í morgun. Ég hefði talið að hyggilegt væri að doka við meðan beðið væri niðurstöðu dómstóla til að flækja ekki málið, til að kalla ekki fram nýjan kostnað og til að fá meginlínu í verkið frá dómstólum, bæði að því er varðar verkefni nefndarinnar sjálfrar og sömuleiðis þá kröfugerð sem óhjákvæmilega verður að hafa til hliðsjónar og taka til endurskoðunar eftir atvikum eftir að komin er niðurstaða frá æðsta dómstóli þjóðarinnar.