Heimsþing Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 13:37:28 (1688)

2002-11-26 13:37:28# 128. lþ. 36.91 fundur 257#B heimsþing Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[13:37]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er rétt að ég hafi ekki beðið um það fyrr en nú að umræðu um skýrslu umhvrh. verði flýtt. En ég er fyrst og fremst að kvarta undan því að hæstv. forsrh. skuli ekki hafa sinnt beiðni minni sem legið hefur fyrir á skrifstofu hæstv. forseta í sex vikur. Nú er ég að bjóðast til að draga þá beiðni til baka gegn því að skýrsla umhvrh. fari á dagskrá hið allra fyrsta. Ég vona að hæstv. forseti hafi heyrt þá ósk mína og svari henni hið fyrsta því að þetta mál er búið að bíða hér síðan þing var sett. Þingmenn þyrstir að fá að ræða þetta við hæstv. ráðherra og það er ekki rétt hjá hæstv. forseta að málið heyri frekar undir umhvrh. en forsrh. vegna þess að þátttaka okkar á þinginu í Jóhannesarborg var á forræði forsrn. Og það var hæstv. forsrh. sem fór fyrir sendinefnd Íslands þó að hæstv. umhvrh. hafi að sjálfsögðu átt þar mjög virkan þátt og hlutdeild að sendinefndinni.

Herra forseti. Ég óska eftir því hér og nú að fram fari umræða um skýrslu hæstv. umhvrh. og að því gefnu að slík umræða fari fram dreg ég til baka umræðubeiðni mína við hæstv. forsrh. og ég ætla að leitast við að fyrirgefa honum að hafa hunsað mig í sex vikur.