Fjáraukalög 2002

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 14:35:45 (1704)

2002-11-26 14:35:45# 128. lþ. 36.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[14:35]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason kom einmitt inn á þau atriði sem formaður fjárln. hefði átt að koma inn á, þ.e. að skýra hvers vegna veitt er á fjáraukalögum fé til ákveðinna liða en annarra ekki.

Ég nefndi t.d. að í fjáraukalagafrv. er framlag til Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Þar er hins vegar hvorki framlag til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga né Heilbrigðisstofnunar Austurlands svo áfram sé talið, sem allar búa líka við verulegar uppsafnaðar skuldir og greiðsluvanda. Honum hefði verið í lófa lagið að greina frá því hvers vegna gert var upp á milli þeirra stofnana í þessu tilviki.

Eitt af því sem minnst er á í þessu fjáraukalagafrv. er hækkun til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ríkisstjórnin hefur nú setið að völdum í hartnær átta ár. Erfiðleikarnir við uppbyggingu atvinnulífsins hér hafa fyrst og fremst tengst efnahagsóstjórninni, viðskiptahallanum. Í skjóli hins mikla viðskiptahalla hefur þróast atvinnulíf sem ekki hefur staðið á raunsönnum grunni. Þessu viljum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði breyta. Við viljum byggja upp atvinnulíf á raunsönnum grunni þannig að atvinnuleysi þurfi ekki að stóraukast þó greiðslujöfnuðurinn við útlönd komist í jafnvægi.

Virðulegi forseti. Ég held að ástæða sé til að skerpa heldur betur á vinnubrögðum við gerð fjárlaga á hinu háa Alþingi.