Fjáraukalög 2002

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 14:38:04 (1705)

2002-11-26 14:38:04# 128. lþ. 36.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[14:38]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Fjáraukalögin verða nú að líkindum með 10,5--11 milljarða kr. viðbót við fjárlög fyrir árið 2002. Niðurstaða fjárlagaársins 2002 er því miklu verri en gert var ráð fyrir við afgreiðsu fjárlaga í desember. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að útgjöld stofnana geta breyst á heilu ári sem og tekjuöflun og útgjöld ríkisins.

Hin afar stutta ræða hv. formanns fjárln., þar sem afgreiddur var 1,5 milljarður á mínútu, bendir hins vegar til þess að margt eigi eftir að breytast milli 2. og 3. umr. og eigi hafi tekið því að hans mati að eyða mörgum orðum eða skýringum á málið sem við erum nú að ræða. Við sem hins vegar vitum ekki um það sem e.t.v. kann að vera í pípunum að þessu leyti hljótum því að ræða málið út frá þeim gögnum og upplýsingum sem við höfum í fjáraukalagafrv. og brtt. meiri hlutans, ásamt þeim öðrum álitum sem hér hefur verið gerð grein fyrir af hálfu minni hlutans.

Umframútgjöld þessa árs virðast að stórum hluta stafa af miklum kostnaði á sjúkrahúsum og í sjúkratryggingum. Í þessu frv. til fjáraukalaga er lögð til viðbót upp á 1.200 millj. kr. vegna Landspítala -- háskólasjúkrahúss og í viðbótartillögum meiri hlutans er gerð tillaga um rúman milljarð til viðbótar, alls um 2,3 milljarða. Þessi vandi Landspítala -- háskólasjúkrahúss er reyndar til staðar ár eftir ár. Að sjálfsögðu má af ýmsum skiljanlegum ástæðum gera ráð fyrir að kostnaður við þjónustu við sjúklinga fari vaxandi milli ára. Fjöldi aðgerða fer vaxandi og ný og betri tækni kostar mikið fé. Þjóðin eldist og hærri aldri fylgir oft meiri þjónusta. Þetta vitum við sjálfsagt öll. Við vitum hins vegar ekki hvernig kostnaður skiptist eða í hvaða aðgerðum hann er flokkaður niður. Ef þessi vandi á ekki að koma okkur aftur og ítrekað á óvart verður sem fyrst að taka upp kostnaðargreiningu á tæknivæddustu sjúkrahúsum okkar. Þess vegna vaknar spurning um hvar við séum á vegi stödd með þessi mál.

Ég mælist til þess við hæstv. fjmrh. eða heilbrrh. að gera í stuttu máli grein fyrir því hvernig kortleggja eigi þennan vanda á næstu árum, en hann virðist vera viðvarandi og koma upp við hverja fjárlagagerðina á fætur annarri.

Til viðbótar þessu fer um 1 milljarður kr. í sjúkratryggingar. Alls hljóða því viðbótartillögur meiri hlutans upp á 3,2 milljarða kr. Útgjöld til Atvinnuleysistryggingasjóðs munu þurfa að aukast vegna þess að atvinnuleysi fer vaxandi og er vaxandi vandamál víða. Kostnaður vegna fæðingarorlofs mun enn fara vaxandi og fjárhagsvandi framhaldsskólanna er víða mikill. Um hann segir m.a. svo í áliti 2. minni hluta, með leyfi forseta:

,,Fjárlaganefnd er kunnugt um fjárhagsvanda margra stofnana sem þó fá ekki úrlausn sinna mála samkvæmt þessu frumvarpi. Sérstaklega má þar nefna marga framhaldsskóla sem sitja uppi með skuldir frá fyrri árum og eiga í miklum fjárhagserfiðleikum. Ljóst er að framkvæmdarvaldið hefur verið uppteknara við að einkavæða skólakerfið og fella rekstur framhaldsskólanna inn í miðstýrð reiknilíkön en að efla og þróa skólastarfið sjálft, ákvarða stöðu þess og markmið og þá menntun sem skólarnir eiga að veita. Skólastjórnendur og Félag framhaldsskólakennara hafa bent á grundvallarskekkjur í þeirri reiknireglu sem beitt er við skiptingu fjármagns á skólana ...``

Síðar segir í nefndaráliti 2. minni hluta, með leyfi forseta:

,,Í lok ársins 2001 var rekstur 22 menntastofnana umfram fjárheimildir og var samanlagður vandi þeirra um 900 millj. kr. Þegar skoðaðir eru einstakir framhaldsskólar má sjá að fjárhagsvandi margra þeirra er mikill. Uppsafnaður fjárhagsvandi Menntaskólans í Kópavogi var í árslok 2001 162,7 millj. kr., Fjölbrautaskólans í Breiðholti 74,7 millj. kr., Fjölbrautaskólans í Ármúla 69,2 millj. kr., Fjölbrautaskóla Vesturlands 60,3 millj. kr. ...``

Vandi framhaldsskólana er því vel þekktur en á honum er ekki tekið í þessu fjáraukalagafrv.

Við í Frjálslynda flokknum tökum einnig undir áhyggjur um að ekki skuli tekið á fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins. Í áliti 2. minni hluta segir m.a., með leyfi forseta:

,,Annar minni hluti telur óhjákvæmilegt að taka á fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins með markvissum hætti á næstu árum. Ríkisútvarpið er ein mikilvægasta menningarstofnun þjóðarinnar og er ekki sæmandi að kreppa svo að henni fjárhagslega að hún geti ekki sómasamlega gegnt hlutverki sínu.``

Þarna held ég að sé vikið að mjög mikilvægu máli. Ég vil vekja athygli á því að við í Frjálslynda flokknum höfum m.a. flutt mál um hvernig við teljum að taka eigi á vanda Ríkisútvarpsins.

Herra forseti. Við umræðuna um fjárlög fyrr í haust og reyndar síðar við umræðu um fjáraukalögin beindi ég nokkrum spurningum til hæstv. fjmrh. (Gripið fram í: Hann er að hugsa enn þá.) Já, vera kann, hv. þm., að fjmrh. sé enn þá að hugsa.

Ég fékk mjög skýr svör frá hæstv. fjmrh. þegar ég ítrekaði þessar spurningar mínar við umræðu um fjáraukalagafrv. En vegna þess að við ræðum fjárlögin á morgun vil ég vekja athygli hæstv. fjmrh. á því að þrátt fyrir að hann hafi svarað skilmerkilega þessum spurningum mínum sem sneru að erlendum skuldum ríkisins og hvernig þær hefðu breyst m.a. vegna gengisþróunar eða vaxtareiknings á erlendum lánum og vegna annarra aðstæðna sem breyst hafa okkur í vil, þá spyr ég hvað sé mikilla skýringa þar að vænta á þeim 30 milljörðum sem komu fram í fylgiriti með fjárlagafrv. og hvað heildarskuldir ríkisins hafi lækkað.

[14:45]

Ég vek athygli á því, herra forseti, að þrátt fyrir að hæstv. fjmrh. hafi tekið þessum spurningum vel og lofað að koma á framfæri upplýsingum um málið hafa þær ekki enn borist mér. Þær hafa heldur ekki borist fjárln., ég hef kannað það og þar kannast enginn við að þessi svör hafi borist. Ég vek því athygli hæstv. fjmrh. á þessum spurningum og óska eftir því að svör við þeim liggi fyrir áður en við förum í fjárlagaumræðuna á morgun.

Stefna ríkisstjórnarinnar í byggðamálum hefur valdið og mun að óbreyttu áfram valda frekari byggðaröskun, og sennilega vaxandi atvinnuleysi. Enn þá er fólk sem sagt að flytja af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Stjórnarflokkarnir hafa í þessari umræðu og fyrr í haust oft og tíðum talað um að hér ríkti góðæri og menn stæðu að því að halda hér stöðugri og góðri atvinnu og tryggja góða framtíð. Ég hygg að kannski megi draga þá ályktun af því að fólk er enn þá að flytja af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins að það telji að hér hljóti góðærið að vera. Hér standa menn í því að skiptast á hlutabréfum og veifa pappírum hver framan í annan, eignast hlut í þessu fyrirtækinu einn daginn og hinu næsta dag og skipta síðan upp á milli sín þeim eignum sem ríkið er að selja. Það er svo sem ekki óeðlilegt að fólk dragi þá ályktun úti á landsbyggðinni, þar sem vegið hefur verið að undirstöðu byggða, að hér ríki góðæri. Það sem vegið hefur að undirstöðu byggðanna og væri hægt að ræða um í löngu máli er m.a. sölukerfi kvótans, það mikla ranglæti sem því fylgir sem stefnir atvinnuöryggi fólks og eignastöðu í hættu.

Herra forseti, ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri að þessu sinni en vonast til þess að þegar upp verði staðið næsta vor þurfi þessi ríkisstjórn ekki að mæla fyrir fleiri fjárlagafrv.