Fjáraukalög 2002

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 14:58:01 (1708)

2002-11-26 14:58:01# 128. lþ. 36.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[14:58]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svör hv. formanns fjárln. Þó að ég viti að við erum sammála um ákveðin atriði er það ákaflega dapurlegt fyrir okkur ef við þurfum að búa við það að í rauninni sé verið að brjóta lög, brjóta fjárreiðulög með þeim framgangi sem verið hefur varðandi framhaldsskólana og það er það sem ég var að reyna að varpa ljósi á. Það er í rauninni verið að tyfta framhaldsskólana til að fara að vilja ráðuneytisins með því að ekki er gerður við þá samningur --- svoleiðis les ég málin --- um lausn á vanda þeirra fyrr en skólarnir hegða sér eins og ráðuneytið ætlast til svo ég segi ekki hæstv. menntmrh.

Það er ástæðulaust að spyrja frekar að sinni. Ég mun, virðulegur forseti, fylgja þessum spurningum eftir mjög fast í 3. umr. fjáraukalaga, og ég mun að sjálfsögðu fylgja þessum málefnum mjög fast eftir á morgun við umræðu um fjárlög.