Fjáraukalög 2002

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 15:03:08 (1711)

2002-11-26 15:03:08# 128. lþ. 36.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[15:03]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frv. til fjáraukalaga. Ég vil aðeins leggja örfá orð í belg og lýsa óánægju minni með ósamstillt vinnubrögð hv. fjárln. hvað varðar þessi fjáraukalög, og gera sérstaklega að umtalsefni þann stóra póst í fjáraukalögunum sem er heilbrigðiskerfið. Hér erum við komin með fjáraukalög sem lúta að því að Landspítali -- háskólasjúkrahús fær 2,3 milljarða aukalega. Ég vildi aðeins nefna í því sambandi að það er beinlínis stórhættulegt, virðulegi forseti, að taka einn þátt í þessu kerfi út fyrir sviga og leysa mál Landspítala -- háskólasjúkrahúss hér um bil með þessum 2,3 milljörðum.

Hv. þm. Gísli S. Einarsson benti á í andsvari áðan að fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri er tilsvarandi, sýnist manni á tölunum, við fjárhagsvanda Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Í frv. fær hins vegar Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri einungis leiðréttingu upp á 108 millj. og engar tillögur um frekari framlög. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson, formann fjárln., hvort hann telji ekki að vinnubrögð af þessu tagi séu beinlínis stórháskaleg fyrir heilbrigðiskerfið.

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefur sett fram mjög greinargóða skýrslu um fjárhagsstöðu sína. Þrátt fyrir þær 108 millj. sem eru í frv. glímir sjúkrahúsið áfram við brýnan vanda upp á 175 millj. kr. sem ætti að vera í fjáraukalögunum. Hér er útlistað mjög gaumgæfilega hvað þetta er. Þetta eru í rauninni umsamin laun, launatengd gjöld, stofnanasamningar og þess háttar sem er að langmestu leyti búið að semja um.

Ef ekki verður tekið heildstætt á þessum málum --- ég tek Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem dæmi eiginlega fyrir landsbyggðarsjúkrahúsin --- hlýtur það að enda með því að þessi svokallaða endastöð sem Landspítalinn -- háskólasjúkrahús sannarlega er eigi við stöðugt meiri vanda að etja vegna ásóknar annars staðar frá inn á það svæði. Þessi hugsun við uppsetningu og lausn á vanda í sjúkrahúsakerfinu er í grundvallaratriðum alröng. Það á að styrkja stofnanir eins og Fjórðungssjúkrahúsð á Akureyri, ekki síst til að sporna við þannig að straumurinn sé ekki allur inn á þessa svokölluðu endastöð hér, Landspítala -- háskólasjúkrahús.

Nú skilst mér að meira fjármagn þyrfti, 400--500 millj., ef leysa ætti vanda Landspítala -- háskólasjúkrahúss eins og beðið er um. Samt er augljóst að vandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri er gríðarlegur. Ef maður setur þetta svo einfalt upp að hlutfallslegur vandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sé um það bil 10% af Landspítala -- háskólasjúkrahúsi er alveg augljóst að verulegar upphæðir vantar til að dekka það dæmi þar.

Uppsafnaður vandi sem þyrfti að vera í fjáraukalögum varðandi t.d. sjúkrahúsið á Húsavík er um 80 millj. kr. og heildarfjárvöntun þar er 105 millj. kr. svo eitthvað sé nefnt.

Virðulegi forseti. Það að leysa ekki hlutina í samhengi eins og ég var að tala um hér er mjög hættuleg stefna. Það leiðir til þess sem menn eru þegar farnir að finna fyrir, að menn missa t.d. starfsfólk vegna þess að betur er gert við það annars staðar í kerfinu. Það er röng og háskaleg stefna, sérstaklega gagnvart landsbyggðarsjúkrahúsunum. Það hefur sýnt sig að sjúkrahúsið á Akureyri hefur ástundað mjög vönduð vinnubrögð hvað rekstur varðar. Þar var t.d. Evróputilskipunin um vinnutíma ekki sett í gang fyrr en fyrirséð var að fjármunir fengjust til að standa straum af þeim útgjöldum sem þar var stofnað til. Ég vil bara fá þetta inn í umræðuna, ég gæti farið út um víðan völl og farið inn í skólakerfið o.s.frv. en þetta er í grundvallaratriðum vinnulag nefndarinnar. Ég kalla eftir því við hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson, formann fjárln., að þessi vinna sé unnin á heildstæðan hátt með mörg markmið að leiðarljósi. Að taka einn þáttinn út fyrir sviga leiðir til gríðarlegra vandamála annars staðar sem síðan leiða til aukinna vandamála þar sem er verið að taka á málinu, þ.e. á stóru sjúkrahúsunum. Hér erum við að tala um heilbrigðispólitík í víðum skilningi og hún er framkvæmd með peningalegum aðgerðum af hálfu ríkisins. Ef þetta verður framkvæmt á þennan hátt og ef við drögum niður starfsemi, t.d. á þessu hátæknisjúkrahúsi, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og það verður alltaf á eftir, koma vandamálin að Landspítala -- háskólasjúkrahúsi eins og menn vita. Hv. þm. hafa kvartað undan því vegna aukinnar fjárþarfar þar að það sé út af því að þetta sjúkrahús er endastöð. Það þyrfti ekki að vera endastöð í þeim mæli sem það er ef málin væru leyst út í hörgul annars staðar í landinu og það með eðlilegum framlögum, a.m.k. hlutfallslega til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri svo dæmi sé tekið.