Fjáraukalög 2002

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 15:12:07 (1713)

2002-11-26 15:12:07# 128. lþ. 36.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[15:12]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni fyrir góðar undirtektir. Við erum í sjálfu sér ekkert ósammála og ég heyri að hann hefur kynnt sér málið vel. En ég er ósammála því að hv. fjárln. taki einn þátt út fyrir sviga af þeim ástæðum sem ég nefndi áðan, einfaldlega vegna þess að þá koma vandamálin fram annars staðar. Það er svo augljóst.

Miðað við hlutfall ætti Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri að vera með í þessu plaggi u.þ.b. 230--240 millj. en er með 108. Ef stöðugt er haldið áfram á þennan hátt og bara reynt að leysa málin í endanum erum við bara ekki á réttri leið með öll þessi mál. Það verður að veita þjónustuna heima fyrir eftir því sem hægt er. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefur alla burði til þess að gera það og er landinu í heild mjög mikilvægt. Þess vegna trúi ég því ekki fyrr en ég tek á því að menn ætli ekki að taka þannig á málum að það sé hægt að vera með eðlilega og hlutfallslega starfsemi þar eins og á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi sem þó er ekki ofalið af þeim framlögum. Mér skilst að 400--500 millj. vanti. Það er þetta sem ég vil koma á framfæri. Og það er engin stjórnsýsla, ekki nokkur, að haga málum þannig að mál séu leyst á þann hátt sem augljóslega leiðir til skriðu, bæði fagfólks og sjúklinga, inn á tilteknar stofnanir. Það er ekki hægt og á ekki að gera þannig. Það er virkilega andstætt öllum sjónarmiðum hvað varðar byggðastefnu. Þarna er allt hægt að gera ef menn fá hlutfallslega möguleika á við það sem gert er annars staðar á landinu.