Þjóðminjalög

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 15:25:57 (1717)

2002-11-26 15:25:57# 128. lþ. 36.3 fundur 382. mál: #A þjóðminjalög# (verkaskipting, minjaverðir o.fl.) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[15:25]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að fram sé komið frv. sem tekur á þeim atriðum sem þetta frv. gerir. Það er ekki langt síðan Alþingi Íslendinga endurskoðaði þjóðminjalögin í heild sinni. Það var veturinn 2000--2001 að menntmn. varði miklum tíma í að vinna við þá nýju löggjöf. Eins og þingmenn muna eflaust var frv. sem lagt var fyrir Alþingi þess eðlis að gert var ráð fyrir því að Þjóðminjasafnið hefði áfram yfirumsjón með fornleifum, eins og hafði verið fram að þeim tíma. En í meðförum nefndarinnar urðu þau tíðindi að ákveðið var að stokka upp málaflokkinn og búa til Fornleifavernd ríkisins. Á lokaspretti þeirrar afgreiðslu verður að viðurkenna að okkur skrikaði fótur.

Ég tel að nefndin hafi unnið þetta mál afar vandvirknislega og farið mjög vel í saumana á því. Ég vil meina að þessi aðgerð hafi verið gerð að mjög yfirveguðu ráði en engu að síður urðu þarna, eins og kemur fram í þessu frv., nokkrir lapsusar undir lokin, enda kannski ekki við öðru að búast þegar um stórmál á borð við þetta var að ræða. Ég fagna því að hér skuli leiðrétt það sem fór úrskeiðis í þeirri afgreiðslu. Sérstaklega vil ég nefna meðferð kirkjugripa í því sambandi. Það var auðvitað bara vitleysa hjá okkur í menntmn. á þeim tíma að setja kirkjugripi undir Fornleifavernd ríkisins. Ég sé því ekki betur en að verið sé að taka til í þessum lagabálki, sem er flókinn og viðamikill. Eftir stuttan yfirlestur á þessu frv. sé ég ekki að hér þurfi að gera miklar athugasemdir.

Þó langar mig til að segja, kannski sérstaklega vegna þess að nú eru þingmenn í önnum við fjárlagaafgreiðslu, að það er auðvitað sorglegt að Fornleifavernd ríkisins skyldi stofnuð á þann hátt sem gert var, þ.e. fjárhagslega. Hún var nánast skorin innan úr Þjóðminjasafninu með því að flytja til örfá stöðugildi, tvö eða þrjú stöðugildi úr Þjóðminajsafninu og setja þau undir hatt Fornleifaverndar ríkisins.

Við sem hér störfum verðum auðvitað að gera okkur grein fyrir því að stofnun á borð við Fornleifavernd ríkisins, sem á að hafa það mikilvæga hlutverk sem hún hefur, verður auðvitað að fá þá fjármuni og svigrúm sem eðlilegt getur talist til þess að geta starfað af metnaði og reisn. Auðvitað á það sama við Þjóðminjasafn Íslands. Maður fær alltaf pínulítinn kinnroða þegar sú eðla stofnun er nefnd í þessum sal. Það er auðvitað þyngra en tárum taki að við skulum ekki hafa átt þess kost að fara í Þjóðminjasafnið og skoða þá muni sem þar eru varðveittir síðustu fimm ár, eða hvað þau eru orðin mörg frá því að húsinu var lokað vegna viðgerða.

Ég vil brýna alþingismenn, nú meðan fjárlagaumræðan er í gangi, að taka málefni Þjóðminjasafnsins og Fornleifaverndar ríkisins upp á sína arma og sjá til að þannig verði staðið að málum að þessar stofnanir geti starfað af þeirri reisn sem þeim ber, sem ég er sannfærð um að þjóðþingið ætlar þeim og hefur alla tíð ætlað þeim.

Varðandi frv. sem hér er ítreka ég einungis að það er gott að það skuli komið fram. Ég held að það geri þá lagabálka sem hér um ræðir betri en okkur tókst að afgreiða frá menntmn. á sínum tíma. Ég lýsi því yfir að ég mun fylgja þessu máli eftir af áhuga í menntmn.