Þjóðminjalög

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 15:32:43 (1720)

2002-11-26 15:32:43# 128. lþ. 36.3 fundur 382. mál: #A þjóðminjalög# (verkaskipting, minjaverðir o.fl.) frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[15:32]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ástæða er til að fagna því að þetta frv. hefur verið lagt fram. Ég tek undir þau orð og fullyrði að menntmn. mun að sjálfsögðu hraða mjög störfum við að koma frv. í gegnum þingið því þetta eru ákveðnar lagfæringar á þeirri vinnu sem fram fór hér árið 2001 þegar allir þessir miklu bálkar voru til meðferðar og ákveðnir gallar hafa komið fram á. Hér er augljóslega verið að taka á þeim og ég held að nefndin þurfi ekki mjög langan tíma til að fara yfir málið.

Hins vegar vakti það athygli mína þegar hæstv. ráðherra var í andsvari áðan að hann tiltók, sem rétt er auðvitað, að nú fari fram mikið endurnýjunarstarf í Þjóðminjasafninu og vissulega var tími til þess kominn, og jafnframt sagði hæstv. ráðherra að nú sæjum við fyrir endann á þeim framkvæmdum. Því er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort búið sé að gera nýja áætlun um það hvenær Þjóðminjasafnið verði opnað. Gerðar hafa verið nokkrar áætlanir og jafnvel verið nefndar nokkrar dagsetningar. Ég held ég muni það rétt að í skýringartexta við fjárlög ársins í ár hafi verið gert ráð fyrir að Þjóðminjasafnið yrði opnað árið 2002.

Ég tel því óhjákvæmilegt við þessar aðstæður að spyrja hæstv. menntmrh. hvort fyrir liggi nýjar áætlanir og hvenær áætlað sé að Þjóðminjasafnið opni.