Þjóðminjalög

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 15:36:20 (1723)

2002-11-26 15:36:20# 128. lþ. 36.3 fundur 382. mál: #A þjóðminjalög# (verkaskipting, minjaverðir o.fl.) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[15:36]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Af því hér eiga í hlut tveir virtir þingmenn sem eru kunnir fyrir íslenskukunnáttu sína báðir tveir, þá vil ég leggja áherslu á það sem ég sagði að ég bind vonir við að hægt verði að opna Þjóðminjasafnið á árinu 2004, annað sagði ég ekki. Þar sem hv. þm. er talaði hér síðast á sjálfur sæti í fjárln., þá gerir hann sér grein fyrir því að þar eru útgjöldin ákveðin. Og þar sem fyrir liggur annars vegar að ljúka byggingarframkvæmdum, setja upp sýningaraðstöðu og síðan að hanna sýninguna og það er ýmsum fjármögnunarmöguleikum háð fleirum en fjárlögum á Alþingi því safnið á sér styrktaraðila og sækir fé til þeirra til að setja upp sýningar, þá vil ég ekki gefa neinar yfirlýsingar aðrar en þær sem hér hafa komið fram. Við þær yfirlýsingar verður hv. þm. að una og ég veit, af því hann vinnur í fjárln., að hann skilur hversu varfærnislegt orðalagið er.