Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 11:04:36 (1729)

2002-11-27 11:04:36# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[11:04]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þær hækkanir sem ég gerði grein fyrir og hv. þm. gerði að umræðuefni eru skýrðar í tillögum meiri hlutans. Ég þykist vita að hann sé sammála mér um að flest þeirra útgjalda komi í góðar þarfir á þeim sviðum sem um er að ræða.

Hvað varðar kurlin sem ekki eru komin til grafar gat ég um það að milli 2. og 3. umr. muni koma fram tillögur um bæði útgjöld og tekjur en á þessu stigi hef ég þær upplýsingar ekki tiltækar þannig að óyggjandi sé en vil láta þann tíma tala því máli þegar það birtist.

Um aðstæður í atvinnulífi og aðgerðir ríkisvaldsins hvað það varðar vitna ég til ræðu minnar sem ég flutti áðan. Meginatriði máls míns var það að ég tel að við þær aðstæður sem nú eru uppi sé eðlilegt að ríkisvaldið haldi uppi starfsemi sinni og bregðist ekki við með því að draga saman útgjöldin nema mjög hóflega á einstökum sviðum en leggi hins vegar sitt af mörkum til þess að efla atvinnuástandið.

Eins og ég gat um mun þetta breytast verulega eftir því hvernig til tekst um framkvæmdir við stóriðju á næsta ári.