Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 11:08:43 (1732)

2002-11-27 11:08:43# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[11:08]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að í þessari 2. umr. fjárlaga er gert ráð fyrir því að fjalla að mestu um gjaldahlið frv. Tekjuhlið frv. bíður 3. umr. en þá kemur endurskoðuð tekjuáætlun frá ríkisstjórninni. Tekjuáætlun verður síðan endurskoðuð í heild í fjárln. þannig að tekjuhlið fjárlaga kemur þá til umræðu sem og efnahagsstjórn og efnahagsáætlun næsta árs.

Það sem vekur athygli varðandi gjaldahliðina sem hér er lögð fram og þær tillögur sem meiri hlutinn leggur fram er hve slælega er tekið á afar mikilvægum málaflokkum sem ljóst er að taka verður á. Ég nefni þar heilbrigðiskerfið og heilbrigðisstofnanirnar. Það er gott og eðlilegt að taka þurfi á rekstrarvanda Landspítala -- háskólasjúkrahúss í Reykjavík þó að við vildum að það hefði gengið betur og þyrfti ekki að koma með viðbætur hér við 2. umr.

En ég vil vekja athygli á því að fjöldamörg önnur sjúkrahús og heilsugæslustöðvar úti um land búa líka við verulegan fjárskort, skort á rekstrarfé til þess að standa undir starfsemi sinni. Þeim eru ekki gerð nein viðhlítandi skil. Ég spyr því hv. formann fjárln.: Er það ætlunin að láta það standa svo eða mun þetta mál, mál sjúkrahúsanna, verða tekið aftur upp í fjárln. milli 2. og 3. umr.?

Ég vil einnig nefna framhaldsskólana. Það liggja fyrir upplýsingar um miklar skuldir þeirra sem þeir hafa borið með sér milli ára um nokkurt skeið. Auk þess sárvantar þá rekstrarfé en á því er ekki tekið í þessu frv. Er þess að vænta milli 2. og 3. umr.?