Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 11:56:18 (1746)

2002-11-27 11:56:18# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[11:56]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég hef þaulkynnt mér nál. 1. minni hluta fjárln. og það sem ber hæst þar er akkúrat þessi þáttur, sá refsivöndur sem Samfylkingin vill beita til að halda fjárlögunum í skefjum, þ.e. að benda á að draga þurfi forstöðumenn ríkisstofnana til ábyrgðar. Ég bendi á að úrræði ríkisstjórnarinnar og meiri hluta á Alþingi hefur verið m.a. að bæta í fjáraukalögin, að bæta í fjárlögin. En það sætir gagnrýni í dag, verulegri gagnrýni frá þingmönnum minni hluta Alþingis.

Ég vil benda á að ríkisstjórnin hefur í gegnum tíðina í fyrsta lagi endurskoðað fjárveitingar, hún beitir aðhaldi, hún notar reiknilíkan til að sjá til þess að jafnræði sé beitt milli sambærilegra stofnana. Og síðast en ekki síst hefur hún fært ríkisrekstur yfir til einkaaðila og því ætti að beita í miklu meiri mæli heldur en gert er hingað til.