Fjáraukalög 2002

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 13:33:19 (1751)

2002-11-27 13:33:19# 128. lþ. 37.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., JB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[13:33]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er verið að ganga til atkvæðagreiðslu um breytingar á frv. til fjáraukalaga þessa árs. Meginhluti þeirra breytinga sem hér eru lagðar til er til kominn annars vegar vegna vöntunar á fjármagni sem var svo sem fyrirsjáanlegt við gerð fjárlaga á sl. ári og hins vegar vegna ákvarðana sem framkvæmdarvaldið hefur þegar tekið um fjárútlát á þessu ári. Það er því ljóst að hér er fyrst og fremst verið að bæta úr af hálfu framkvæmdarvaldsins fyrir það sem á hefur skort við fjárlagagerð af hálfu meiri hlutans og framkvæmd fjárlaga. Það er því eðlilegt að ríkisstjórnin og meiri hluti hennar á Alþingi beri ábyrgð á þeirri afgreiðslu sem hér er því að þetta er að sönnu hluti af framkvæmdinni á fjárlögunum.

Því er samt ekki að leyna að ég hefði viljað sjá ríkja meiri jöfnuð á milli einstakra liða sem þarna er verið að leggja til, svo sem um sjúkrahús á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Margar af þeim tillögum sem hér er verið að greiða atkvæði um eru til bóta og ágætar en með vísan til þess að hér er fyrst og fremst verið að ljúka framkvæmd fjárlaga á ábyrgð meiri hluta ríkisstjórnarinnar situr þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hjá við þessa atkvæðagreiðslu.