Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 13:41:21 (1753)

2002-11-27 13:41:21# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[13:41]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Hér eru til umræðu fjárlög ársins 2003. Það á öllum að vera kunnugt og vita það allir að það er fátt nauðsynlegra einni þjóð en að passa upp á ríkisútgjöldin sín. Það hefur alltaf legið fyrir og sagan hefur alltaf sýnt að þær þjóðir sem misst hafa tökin á opinberum fjármunum sínum hafa misst tökin á flestöllum hlutum þar á eftir þannig að umræðan um ríkisfjármálin er mjög alvarlegur hlutur. Það ber að taka þau alvarlega. Það er líka einmitt ábyrgðarhluti stjórnarandstöðunnar að ræða um ríkisfjármálin og koma þar með jákvæða, eðlilega og hlutlæga gagnrýni.

Mér finnst það þess vegna dálítið áhyggjuefni hvað mér gengur illa að átta mig á því hvað það er sem stjórnarandstaðan gagnrýnir helst. Mér gengur það mjög illa en það er nauðsynlegt að fá það fram og mjög nauðsynlegt að menn átti sig á því hvar ágreiningurinn sé. Hvernig viljum við standa að þessum málum? Hvað er það sem helst er að og hvernig getum við gert betur?

Ég hef velt töluvert mikið fyrir mér þeirri miklu gagnrýni sem hefur komið fram á undanförnum missirum og árum á skattamál. Umræðan hefur verið langháværust þegar hún hefur snúist um viðhorfin til skattanna, hverjir eigi að borga þá og hver viðmiðunin eigi að vera. Skattleysismörkin verða þá alltaf helsta umræðuefnið og helsti ásteytingarsteinninn. Hver eiga skattleysismörkin að vera?

Gagnrýni hefur komið fram, mjög mikil og mjög sterk frá ýmsum hagsmunaaðilum og frá öllum stjórnarandstöðuflokkunum. Menn hafa gert það að umræðuefni að ríkisvaldið sé að taka til sín meiri tekjur með því að hækka ekki meira skattleysismörkin. Það er ástæða, herra forseti, til að staldra við og fara yfir þessa hluti. Það er alveg ljóst að á tímum sem okkar, eins og við höfum lifað undanfarin sjö, átta ár þegar efnahagslífið hefur verið að stækka, hefur aldrei staðið annað til en að ríkisvaldið mundi hlutfallslega auka sinn hlut jafnt. Annað hefur aldrei staðið til. Það hefur aldrei verið gefin út nein yfirlýsing um annað, aldrei, og ástæðurnar eru mjög augljósar. Í fyrsta lagi að skuldir ríkisins eru gríðarlegar frá óreiðuárunum þannig að nóg er til að borga niður. Það hefur verið gert. Það má gagnrýna að ekki hafi verið gert meira af því. Ég get alveg tekið undir þá gagnrýni. Það væri æskilegt að við hefðum á umliðnum árum getað borgað meira niður af skuldum ríkisins en gert hefur verið. Það er alveg rétt. Í öðru lagi er ástæða sú að það hefur aldrei verið pólitískur vilji þeirrar ríkisstjórnar sem situr hér að draga á nokkurn hátt úr velferðarkerfinu á Íslandi. Það hefur verið aukið. Jafnframt því sem þjóðarbúið vex höfum við aukið velferðarkerfið, og íslenska velferðarkerfið er eitt það besta og fremsta í heiminum. Það er það að allra dómi. Auðvitað og eðlilega geta menn gagnrýnt það og sagt að það ætti að vera meira, það ætti að vera betra, það ætti vera hærra, stærra o.s.frv. Það er alltaf hægt að segja það og má alltaf segja það og má alltaf finna fyrir því rök. Staðreyndirnar eru þó þær að kjör allra Íslendinga hafa verið að batna í átta ár og er þar enginn undanskilinn, enginn.

[13:45]

Stóra spurningin til þeirra sem gagnrýna skattleysismörkin og það að ríkið hefur núna aukið hlut sinn er þessi: Ef við eigum ekki að hafa þessa viðmiðun þegar hagvöxturinn er í gangi í landinu, þegar þjóðarbúið er að stækka, þegar kaupmáttur launanna er að vaxa svo mikið sem raun ber vitni, hvað ætlum við þá að gera þegar hagvöxturinn verður í mínus, þegar þjóðarbúinu hrakar, þegar hagsveiflan gengur niður? Í öllum tilfellum og á öllum tímum vitum við að þetta gengur í bylgjum. Það er enginn sá tími og rennur aldrei upp að hagvöxturinn sé stöðugur upp á við. Einhvern tíma kemur að því að þjóðarbúið fari niður. Við höfum alltaf lent í slíkum sveiflum. Og spurningin er þessi: Við hvað ætla menn þá að miða þegar kaupmátturinn minnkar? Ætla menn þá að miða við verðlagið eða við launavísitöluna? Við þessu fæst aldrei svar frá stjórnarandstöðunni en hún verður að svara þessu. Það er ekki nóg að segja: Við ætlum að draga úr sköttunum þegar vel gengur en við vitum ekki hvað við ætlum að gera þegar það snýst við. Þetta er grundvallaratriði.

Þegar hagvöxtur er mikill, herra forseti, þegar kaupmáttur eykst eykur ríkið sinn hlut hlutfallslega vegna þess að þegar kaupmátturinn minnkar, þegar hagsveiflan fer niður, verður ríkið að vera í stakk búið til þess að minnka sinn hlut, til að verja kaupmátt einstaklinganna, til að verja samkeppnisstöðu fyrirtækjanna. Þetta er grundvallaratriði sem menn verða að skilja og verða að vita hvernig virkar. Það er hlutverk ríkissjóðs að taka á sig þessa sveiflu. Ríkisstjórnin verður að vera tilbúin til þess að verja kaupmáttinn þegar hann fer niður, ekki öfugt.

Ég sé að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, sá frækni skipstjóri, situr hér og hlustar á mig. Ég hef áður notað í samlíkingunni um sveiflujöfnun ríkissjóðs að það er ekki ósvipað veltitönkum á togara. Kerfið tekur inn í sig þegar það fer upp og ýtir sér út til að halda sér í jafnvægi. Þetta er hlutverk ríkissjóðs og þetta er hlutverk sem ríkið hefur umfram sveitarfélög. Sveitarfélögin eru bara bein útgjöld og beinar fjárfestingar, taka ekkert á sig þessar sveiflur. Þess vegna er eðlilegt að ríkið hafi á undanförnum árum aukið hlut sinn.

Í þessum fjárlagaumræðum hef ég stundum og yfirleitt alltaf reynt að fara yfir stöðu ríkissjóðs og bent á það sem ég hef talið vera veikleikamerki ríkissjóðs. Það sem mér hefur fundist hvað einkennilegast er að ég hef aldrei heyrt stjórnarandstöðuna taka undir þessa gagnrýni fyrr en þá kannski áðan þegar hv. þm. Sverrir Hermannsson lýsti því yfir að hann væri mér mjög sammála í umræðunni um heilbrigðismál, og þakka ég fyrir það.

Í mörg ár hef ég alltaf gert að umræðuefni launamál ríkisins. Ég tel þau mesta veikleikann í ríkisrekstrinum og hafa verið allt frá árinu 1997. Ég ætla að segja það hér og nú að það er einn þarfasti hluturinn sem við getum gert í framtíðinni, og verðum að gera svo fljótt sem við getum, að breyta þessu aftur. Hinir ágætu forstjórar ríkisfyrirtækjanna geta ekki staðið að þessum samningagerðum eins og um hnútana er búið. Það verður í mjög mörgum, ef ekki flestum, tilfellum ríkisrekstrarins að miðstýra launum. Það verður að gera það. Hækkun ríkisstarfsmanna umfram aðra má ekki vera. Ríkisstarfsmenn eru jafnháðir afkomu atvinnuveganna og framleiðslugetunni eins og allir aðrir starfsmenn á Íslandi. Þetta verða menn að hafa í huga. Þar að auki vil ég benda á að ríki og sveitarfélög verða að taka saman höndum og starfa saman í samningagerð þannig að við horfum ekki upp á þennan leik ár eftir ár þegar þeir semja hver í sínu lagi, ríkið, síðan sveitarfélögin, svo ríkið og svo aftur sveitarfélögin og þannig koll af kolli. Menn er alltaf að búa til nýjar viðmiðanir og nýtt réttlæti eða óréttlæti eftir því hvernig menn horfa á það.

Það er alveg rétt að á ýmsum sviðum hefur okkur ekki tekist að halda utan um útgjöld ríkisins eins og við hefðum viljað. Það er alveg hárrétt og engin ástæða til að þræta neitt fyrir það, alls engin. Heilbrigðismál hafa komið til umræðu þó nokkuð í þetta skiptið eins og svo oft áður við umræðuna um ríkisfjármálin. Þau eru gríðarlega stór hluti af útgjöldum ríkisins og ef við náum ekki tökum á þeim er hætt við að við náum ekki tökum á ríkisútgjöldunum í heild. Ég, herra forseti, er alveg sannfærður um að við verðum --- og eigum engra kosta völ í því --- að breyta rekstrarformi heilbrigðisstofnananna, mjög margra félagsmálastofnana og helst framhaldsskólanna og háskólanna líka. Það er mjög þarft. Við eigum að leita leiða til þess að ná sem hagkvæmustum rekstri í hvaða einingu sem er. Það er alveg ástæðulaust að láta slík ummæli valda nokkurri tortryggni. Það er algjör pólitísk samstaða um það á Íslandi, svo og að ég ætla í allri Vestur-Evrópu, að standa áfram að samhjálpinni í því formi sem við höfum gert. Við þurfum ekki á nokkurn hátt að yfirgefa samhjálpina þó að við breytum rekstrarforminu, langt í frá. Við verjum núna rúmum 8% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála. Það er mjög hátt hlutfall. Hins vegar eru Íslendingar, einstaklingarnir sjálfir, að borga heldur lægri hlut en í öllum öðrum Evrópuríkjum. Í Evrópuríkjunum öllum borga einstaklingarnir í kringum 2% af vergri landsframleiðslu, á Íslandi er þetta hlutfall 1,3--1,4%. Við borgum því í heildina til heilbrigðismála 9,4% af vergri landsframleiðslu sem er gríðarlega hátt hlutfall. Eigi að síður er það staðreynd að sjúkrahúsin vantar peninga. Með þessu frv. og með fjáraukalagafrv. er verið að mæta þeirri þörf. Það eru gríðarlega miklir peningar og ekkert skrýtið þó að marga svimi þegar þeir horfa á hvað þessar tölur eru ofsalega háar. Við verðum að sjálfsögðu að verða við þessu vegna þess að við getum ekki látið slíkar grundvallarstofnanir sem Landspítala -- háskólasjúkrahús vera í algjöru fjársvelti, það getum við ekki. En við verðum að horfa til þess að ef þær aðgerðir sem við höfum notað á umliðnum árum duga ekki er ekkert eðlilegra en að leita nýrra leiða. Það er ekkert að því að viðurkenna það. Aðferðin til að útdeila peningum er bara eins og hver önnur föt. Þau eru ágæt til að byrja með. Síðan slitna þau og verða ónothæf og ónýt og þá á að henda þeim og fá sér ný. Þannig eigum við að gera það með úthlutun. Þannig eigum við að gera það alltaf og viðurkenna ef eitthvað tekst ekki. Okkur tekst ekki í dag að halda utan um þessa peninga eins og við vildum gera, eins og við höfum margsinnis stigið á stokk og strengt þess heit að nú skyldi þetta standa, það er alveg rétt. Við höfum margsinnis gert það en það hefur ekki gengið eftir. Ég tel það ekki sök forráðamanna heilbrigðisþjónustunnar. Ég tel það ekki sök forstjóra Landspítalans að þetta hefur ekki tekist. Ég er alveg viss um að það góða fólk hefur lagt sig allt fram og unnið mikið þrekvirki við að reka þessar stofnanir. (Gripið fram í.)

Eflaust eru mjög góðir og hæfir einstaklingar í allflestum ríkisstofnunum þó að undantekningar séu og þurfi að horfa á það gagnrýnum augum á hverjum tíma. Enginn þarf að óttast að líta undan gagnvart því.

Ríkisstjórnin hefur á undanförnum árum haft það að meginmarkmiði að einkavæða fyrirtækin í samkeppnisgreinunum. Blessunarlega er þátttöku ríkisins í rekstri banka að verða lokið. Það er stórkostlegur áfangi í sögu Íslands þegar við losnum undan því. Við eigum eftir að losa okkur við fleiri fyrirtæki. Í megindráttum hefur þetta þó gengið, að vísu með nokkrum brösum, en þó hefur það gengið og er nú að vera lokið. Viðfangsefni framtíðarinnar fyrir ríkissjóð er að breyta rekstrarformi ríkisfyrirtækjanna, skólanna, heilbrigðisstofnananna, stofnana á vegum félmrn. o.s.frv., ekki hvað síst hinna opinberu vísindastofnana. Það er skelfilegt að ríkið skuli reka vísindastofnanir, það hefur ekkert með slíkan rekstur að gera, bara ekki neitt. Hins vegar er sjálfsagt mál að leggja gríðarlegt fé í vísindarannsóknir. Við eigum ekki að minnka það, við eigum að auka það ef við getum.

Ég get ekki minnst á þessar stofnanir án þess að minnast á stofnun sem heitir Hafrannsóknastofnun Íslands sem núna fær 1,6--1,7 milljarða á fjárlögum til starfsemi sinnar. Þessi stofnun er orðin hreint meinvarp í íslensku efnahagslífi og fátt er brýnna en að leysa hana hreinlega upp. Við getum ekki í byrjun 21. aldar lifað við að það sé ríkiseinokun á vísindum þeirrar náttúru sem fæðir okkur og klæðir, hafinu í kringum landið. Það er lífsnauðsyn fyrir okkur að frjálsar rannsóknir fái að fara fram og ríkið styðji einstaklingana til þess ekki minna en það gerir í dag. Við erum algjörlega bundin þessari einu stofnun sem með kreddum sínum í 30 ár gagnvart þorskveiðunum er á góðri leið með að draga öll sjávarþorp Íslands niður, öll, engin undantekning þar á. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Er hann að tala um Hafrannsóknastofnun?) (Gripið fram í: Kemur ... ýmislegt fleira.) Og þótt það væri fleira, herra forseti, gengur það ekki að við höfum í 30 ár verið að þykjast friða smáfisk með þeim árangri að við veiðum í dag minna en helminginn af því sem við veiddum síðustu 70 ár áður en þessi ósköp byrjuðu. Og á hverju byggist þetta? Þetta byggist ekki á neinu. Síðan komu þessir menn fyrir tveimur árum og þóttust hafa týnt 600 þús. tonnum af þorski. Það er mesta fjárvöntun í Íslandssögunni --- það hefur aldrei gerst áður. Vita menn hvaða upphæð þetta er? Þetta eru svo gríðarlegar fjárhæðir að aldrei í Íslandssögunni hafa slíkir fjármunir horfir. Menn ætla að sitja uppi með þetta og láta þessa menn komast upp með það þó að mjög færir vísindamenn hafi bent á það svo að óyggjandi sé að auðvitað gerðist ekkert annað en að dánartíðnin jókst, fiskurinn dó í stað þess að koma að landi og verða Íslandi og íslensku efnahagslífi til blessunar. Þetta er mesta efnahagsvandamál sem við eigum við að stríða og þetta er meginorsökin fyrir því hve höllum fæti landsbyggðin stendur í dag.

Ég ætla aðeins að minnast á annan hlut varðandi innheimtu ríkisins á tekjum. Við höfum fjallað mjög um að æskilegt væri að við minnkuðum skatta á Íslandi. Ég hef mjög tekið undir það. Kærir vinir mínir í forustu ungra sjálfstæðismanna hafa sett þetta mjög á oddinn. (Gripið fram í: Og kosnir út á það.) Eiga vonandi eftir að vera hér á þingi sjálfum sér og þjóð sinni til mikils sóma. En ég hef gagnrýnt einn hlut í þessu. Við eigum að byrja á því að minnka ríkisútgjöldin því að þá getum við lækkað skattana, ekki öfugt. (Gripið fram í: Er þetta þá vitleysa ... ?) Ísland er núna í því æskilega jafnvægi sem allar þjóðir heimsins óska sér að vera. Hér ríkir jafnvægi í gerð efnahagslífsins. Hér er stöðug atvinna og jafnvægi í viðskiptum við útlönd. Hér er næstum engin verðbólga, miklu minna atvinnuleysi en í nágrannaríkjunum o.s.frv. Ríkissjóður hefur verið rekinn með afgangi og verður það áfram. Það mun koma í ljós við 3. umr. þessa fjárlagafrv.

[14:00]

Á einu sviði þjóðlífsins ríkir mikið ójafnvægi --- mjög mikið ójafnvægi sem er þjóðfélaginu hættulegt --- það er ójafnvægi í byggðum landsins. Það er það ójafnvægi sem ógnar okkur og mun valda þjóðfélaginu óbærilegum skaða ef við fáum ekkert að gert.

Einn hlutur skiptir að mínu mati höfuðmáli gagnvart byggðum landsins, samkeppnishæfni atvinnulífsins úti á landi. Hún hefur á undanförnum árum orðið fyrir verulegum hnekki vegna tæknibreytinga. Við höfum lagt af strandsiglingar og tekið upp landflutninga í staðinn. Þetta hefur aukið flutningskostnað á Íslandi gríðarlega á undanförnum árum. Og þessi staða veldur því að samkeppnishæfnin er að minnka.

Eins og það er sjálfsagt að ríkisvaldið hafi með höndum þá sveiflujöfnun sem þarf í efnahagslífið verða menn líka að átta sig á því að ef ríkisvaldið getur á það að fórna tekjum sínum fyrir atvinnulífið. Miskunnarlaust, til að tryggja áframhaldandi hagvöxt því þá mun ríkisvaldið fá aftur þá peninga, margfalda, til baka.

Vonandi kemur sú tíð að við getum lækkað skatta á Íslandi. Þá er einn skattur sem er höfuðnauðsyn að gangi fyrir um lækkun, þungaskatturinn. Hann er landsbyggðinni gríðarlega dýr og erfiður. Menn segja: Hvað ætlið þið þá að gera við vegina? Ég segi: Tekjur af umferðinni eru miklu meiri en sem nemur því sem við leggjum í vegagerð. Við skiptum þessum tekjustofnum sem eru teknir af Vegagerðinni í sex hluta. Við köllum suma þeirra markaða tekjustofna sem fara til Vegagerðarinnar, aðrir skattar af umferðinni eru ekki markaðir og fara beint í ríkissjóð. Það er mjög nauðsynlegt að menn átti sig á því að það er langvænlegast til að bæta stöðu landsbyggðarinanr að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækjanna.

Gamla aðferðin sem menn hanga í enn þá, að búa til byggðasjóði, er hin úrelta aðferð. Hún var búin til í gamla daga þegar vextir voru neikvæðir á Íslandi, þá þótti það vera byggðunum til styrktar að geta verið með lánsfé sem var lánað með neikvæðum vöxtum. Þannig var það hugsað í upphafi. Nú er fyrir löngu komin önnur tíð. Það er aðalatriðið að hugsa til stöðu atvinnulífsins, það skiptir öllu máli ef við ætlum að styrkja landsbyggðina og það er lífsnauðsyn fyrir okkur að styrkja hana. Við gætum ekki borið það að hún hryndi saman og við yrðum að einu litlu borgríki. Það yrði slíkt ofboðslegt efnahagstjón, tala nú ekki um það að nógar eru sorgir Íslendinga og mæða út af velferð sinni, þó að ekki bætti við þá upplausn sem af því yrði ef við yrðum að einu borgríki. Hér er um gríðarlega hagsmuni fyrir ríkisvaldið að tefla, að geta gert það á raunhæfan hátt að setja stoðir undir atvinnulífið úti á landi.

Þessi tvö atriði sem ég nefndi held ég að séu nauðsynlegust og við gætum hrint þeim í framkvæmd strax. Auðvitað getur ríkissjóður gert það strax, það eru hagfræðileg rök fyrir því. Í þeirri stöðu sem við erum í núna, með bara núll í hagvexti, er alveg hægt að réttlæta það að setja ríkissjóð í heilmikinn mínus ef það er til þess að auka framleiðsluna í landinu, bæta stöðu samkeppnisaflanna. Auðvitað er það alveg hægt. Við ætlum ekki að gera það núna. Við ætlum að afgreiða þessi frv. með dálitlum afgangi, ekki miklum enda er þess engin þörf. Í þjóðfélagi þar sem er enginn hagvöxtur er alls engin þörf á því. Við skulum samt minnast þess að við erum gæfuþjóð.

Íslensk ríkisfjármál standa mjög vel. Hættumörkin sem eru notuð erlendis og höfð til viðmiðunar, hjá OECD, Evrópusambandinu og víðar, eru yfirleitt þau --- og þá hringja bjöllurnar, þá blikka ljósin --- þegar halli ríkissjóðs, rekstrarhalli, nær þremur prósentum af vergri þjóðarframleiðslu þessara landa. Þannig er það mjög víða í dag í Evrópu. Þannig er það í Þýskalandi, Frakklandi og víðar. Það samsvaraði því að við afgreiddum hér fjárlög fyrir árið 2003 með 24 þús. millj. kr. halla ef við værum á sama stað stödd og Þjóðverjar og Frakkar. Tuttugu og og fjögurra milljarða halla. (Gripið fram í: Áttu við Hafró?) Þetta er staðan í Evrópu. Svona er hún. Við þetta þurfa þeir að glíma en við erum þeir hamingjumenn að hér hefur ríkt mjög farsæl efnahagsstjórn á annan áratug, svo farsæl að við höfum getað státað okkur af því að minnka þessar skuldir okkar sem söfnuðust upp áður fyrr, svo farsæl að við erum með afgang af ríkissjóðnum, svo farsæl að við sjáum fram á eitt árið í viðbót þar sem kjör fólks batna og kaupmáttur mun aukast, sannarlega kaup og kjör allra, þar með talinna öryrkja og aldraðra.

Það væri mjög æskilegt, herra forseti, eins og ég minntist á í upphafi ræðu minnar, að við gætum áttað okkur hver á afstöðu annars. Ég átta mig ekki nákvæmlega á því hvað stjórnarandstaðan vill gera öðruvísi en við erum að gera. Ég skil ekki alveg hver afstaða hennar er til skattamálanna. Ég veit ekki hvort hún vill hækka þá eða lækka. Ég veit ekki hvort hún vill reka ríkissjóð með meiri afgangi eða minni. Ég veit ekki hvort þau telja það hneykslanlegt að við höfum ekki meiri útgjöld núna en við erum með. Ég veit það ekki, ég geri mér ekki grein fyrir því.

Þetta er alvarleg umræða og við skulum vera viðbúin því og vonast til þess að við getum haldið áfram á þeirri farsældarbraut sem við erum sannarlega á núna, að næstu ár verði í nákvæmlega sama farinu. Þá skiptir ekki máli hvaða ríkisstjórn er, heldur að það sé þverpólitísk samstaða um að reka ríkissjóð af gætni og ábyrgð eins og hefur verið gert á umliðnum árum og þá mun okkur farnast vel á öðrum sviðum.