Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 14:10:07 (1756)

2002-11-27 14:10:07# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[14:10]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir dapurlegt ef kjósendur hv. þingmanns taka ekkert mark á honum. Hann er búinn að sitja í ríkisstjórn í a.m.k. 12 ár og hefði getað haft áhrif á stefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum, í fiskveiðistjórnarmálum, ef hann hefði haft dug til. En kannski er hv. þm. einungis með þennan málflutning á Vestfjörðum og svo annan málflutning hér þegar kemur inn í ríkisstjórnarflokkana.

Halda þingmenn virkilega, eins og hv. þm. gat hér um, að einkavæðing sjúkrahúsa, skóla og vísindastofnana sé það brýnasta sem brennur á hagsmunum Vestfirðinga og annarra landsbyggðarbúa? Ég mótmæli því. Ég tel einmitt að einkavæðingarstefnan í almannaþjónustunni sé eitt það hættulegasta sem í gangi er gagnvart dreifbýlinu. Og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, fjármálasérfræðingur Sjálfstfl., ætti að beita áhrifum sínum innan Sjálfstfl. og innan þessarar ríkisstjórnar því það er hún og stefna hennar sem er mesti bölvaldur fyrir þá neikvæðu búsetuþróun og atvinnulíf á landsbyggðinni sem við búum við.