Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 14:12:21 (1758)

2002-11-27 14:12:21# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[14:12]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var flott ræða en hún var ekki í miklu samhengi við fjárlögin sem verið er að ræða hér. Satt best að segja er hægt að segja það sem um þessi fjárlög er að segja í einni setningu. Það felst ekki í þeim nokkur stefnumörkun og hefur aldrei verið í nokkrum fjárlögum þessarar ríkisstjórnar. Þetta eru plástrar og bætur. Ríkisstjórnin fleytir sér áfram yfir hvern vanda og tekur aldrei almennilega á.

Ég spyr, virðulegi forseti: Hvar er stuðningur við litlu þekkingar- og sprotafyrirtækin? Hvar eru barnakort Framsóknarflokksins? Hvar er fjölskyldupólitík ríkisstjórnarinnar sem var bara orðin tóm í þáltill.? Það er ekkert að finna hér sem skiptir máli. Barnafólkið er með skattbyrðina. Það sem þessi ríkisstjórn kemur sér saman um er einkavæðingin og gæluverkefni, smápeningar svo sem í hverjum fjárlögum en stinga samt í augun. Þetta er það sem einkennir fjárlögin, virðulegi forseti, og þetta er ekki það sem hv. þm. var að tala um enda er ræða hans í engum tengslum við fjárlögin.