Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 14:14:29 (1760)

2002-11-27 14:14:29# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[14:14]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði af athygli og hef hlustað á allar ræður þingmannsins í allri fjárlagaumræðu.

Virðulegi forseti. Hvað vitum við um þróunina þegar verður af því stærsta verkefni sem ríkisstjórnin er með og er ekki nefnd í þessum fjárlögum, Kárahnjúkavirkjun og framkvæmdirnar? Hvað vitum við þá um vexti? Hvað vitum við þá um þenslu? Hvað vitum við þá í raun og veru um þennan hagvöxt og viðbrögðin við honum?

Hv. þm. talaði svo fjálglega um það að fækka ríkisverkefnunum og að það væri það sem þessi ríkisstjórn stefndi að, eins og ég benti sjálf á. Ég spyr hv. þm. hvort hann geti bent mér á eitthvert dæmi um það að þjónusta eða útgjöld hafi minnkað við einkavæðingu? Vill hann benda mér á það? Nei, kostnaðurinn flyst frá ríkinu og til þess sem notar, nýtir eða þarf á að halda. Það er staðreyndin.

Auðvitað höfum við búið vel. Við höfum búið við góðan afla. Við höfum búið við mikilvæga markaði. Við höfum sjálf búið í haginn, og ég hef tekið þátt í því, en það er ekki haldið vel á. Það er mismunur á þessu tvennu.