Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 14:18:07 (1763)

2002-11-27 14:18:07# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[14:18]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það hlýtur að vera vandamál hv. þm. en ekki mitt að hann hafi ekki séð samhengi í ræðu minni. Þegar hún prentast út eftir nokkra daga skal ég koma henni til hans og við skulum sitja saman og lesa hana. Þá skal ég skýra það út sem hefur farið úrskeiðis hjá honum.

Að sjálfsögðu er ekki til neitt eðlilegt hlutfall. Það er ekki hægt að tala um neitt eðlilegt hlutfall sem ríkið ætti að taka til sín undir tilteknum kringumstæðum. Ég var hins vegar að reyna að skýra út að þegar þjóðarbúskapurinn ykist væri að sjálfsögðu ekkert athugavert við að ríkið tæki hluta af því, sérstaklega með tilliti til þess að við erum með gríðarlegar skuldir frá fyrri tímum og ekki nema eðlilegt að við borgum þær þegar vel gengur í efnahagslífinu. Ekki borgum við þær niður þegar illa gengur. Auðvitað gerum við það ekki. Við eigum að borga niður skuldirnar þegar vel gengur vegna þess að við erum ekki fær um það þegar verr stendur á.