Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 14:20:32 (1765)

2002-11-27 14:20:32# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[14:20]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ríkissjóður er í mjög miklu jafnvægi á Íslandi. Hann er í jafnvægi sem allar þjóðir Evrópu vildu státa af. Ég var að benda á að við erum gæfumenn að því leyti. Sannarlega höfum við aukið útgjöldin en telur stjórnarandstaðan það af hinu góða eða af hinu vonda? Telur hún að við hefðum ekki átt að auka útgjöldin? Telur hún að við hefðum átt að auka útgjöldin enn meira?

Við höfum verið að hækka laun ríkisstarfsmanna. Við höfum verið að bæta lífeyriskjör þeirra. Við höfum verið að auka við velferðarkerfið. Við höfum aldrei farið í meiri framkvæmdir í vegagerð o.s.frv. Ég veit ekki hvort stjórnarandstaðan telur þetta óheppilegt eða heppilegt. Ég geri mér bara ekki grein fyrir því.

Ég hefði heldur, herra forseti, talið æskilegra fyrir minn smekk að við hefðum ekki aukið útgjöldin eins mikið og við gerðum. Við stæðum enn betur í dag.