Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 14:22:49 (1767)

2002-11-27 14:22:49# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[14:22]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vona nú að hin mikla næmni hv. þm. valdi honum ekki andvökum, úr því að hann er með ræðurnar mínar allar í kollinum. (SvH: Jú.) Ég var einmitt að vona að svo væri ekki, en ég samhryggist honum með það. Það hlýtur að vera mjög erfitt fyrir hv. þm. að vera með ræðurnar mínar allar í kollinum. Ég get ekkert að þessu gert nema benda honum á að hlusta ekki, það er eina ráðið úr því hann lærir þetta allt utan að. En ég ætla ekki að hætta að tala. Ég ætla ekki að hætta að halda þessar ræður. Ég ætla ekki að hætta því þó að menn eigi við þessi vandræði að búa að læra þær utan að. Það er nauðsynlegt að brýna fyrir mönnum sýknt og heilagt að jafnvægi í búskap ríkisins og ábyrg fjármálapólitík er grundvöllur alls annars í þjóðfélaginu.