Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 14:24:48 (1769)

2002-11-27 14:24:48# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[14:24]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það liggur fyrir í öllum opinberum gögnum og öllum gögnum frá Hagstofu Íslands, frá Þjóðhagsstofnun Íslands og öllum þeim gögnum sem við þekkjum, að kaupmáttur eldri borgara rýrnaði frá 1987 til 1992. Hann hefur vaxið frá árinu 1994. Hann hefur vaxið jafnt og þétt. Allt annað er ósannindi. Hrein ósannindi. Hann hefði kannski átt að vaxa enn þá meira, það getur vel verið rétt, en hann hefur vaxið öll þessi ár. Hann rýrnaði á árunum 1987 til 1992. En núna er sett í lög, núna höfum við lögfest, að komi til slíkrar niðursveiflu eins og þá var í efnahagslífinu skuli eldri borgarar og öryrkjar ekki verða fyrir skerðingu. Þetta er munurinn á þeirri löggjöf sem núna er og þeirri löggjöf sem var 1987. Þetta er það sem við getum bent á. Þetta eru staðreyndir og yfir þessu skulum við vera stolt.