Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 14:26:09 (1770)

2002-11-27 14:26:09# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[14:26]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér við 2. umr. fjárlaga hafa menn dregið það fram að vöxtur hefur verið í velferðarkerfinu hjá okkur Íslendingum á undanförnum árum. Við viljum hafa Ísland velferðarríki og við ætlum að hafa það þannig. Við eigum jafnframt að vera gagnrýnin á þau rekstrarform sem notast er við í velferðarkerfinu. Við eigum að spyrja hvernig skattpeningar borgaranna nýtist sem best og hvernig þeim sé best varið til að veita sem besta þjónustu. Við eigum að nýta okkur kosti einkareksturins þar sem það hentar og þeirra spurninga verðum við að spyrja við hverja einustu fjárlagagerð.

Það eru margar spurningar sem við í fjárln. þurfum að leita svara við þegar við förum yfir fjárlagafrv. Í yfirferð ráðuneytanna eru dregin fram þau vandamál og þau verkefni sem ríkiskerfið stendur frammi fyrir. Víða eru þau nokkuð stór en þegar á allt er litið eru heilsugæslukerfi okkar, sjúkrahúskerfið og velferðarkerfi okkar varðandi málefni fatlaðra, á býsna góðri leið. Við eigum hins vegar eftir að skoða betur kosti þess að færa meira af þeim fjármunum þeim sem við leggjum til þessara verkefna í einkarekstur. Ég held að það verði viðvarandi verkefni hjá okkur sem við verðum að skoða á næstu árum.

Ég vildi aðeins fara yfir það sem við skoðuðum í félmn. varðandi málefni fatlaðra. Þar höfum við staðið frammi fyrir verkefnum varðandi vistunarmál á höfuðborgarsvæðinu. Við skoðuðum það fyrir síðustu fjárlagagerð og erum að skoða það núna. Það kom fram í vinnu nefndarinnar að starfshópur skilaði skýrslu um styttingu biðlista eftir þjónustu svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á árinu 2000 og eftir þeirri skýrslu hefur verið farið.

Vistunarvandinn hefur verið sérstaklega mikill í Reykjavík og Reykjanesi. Tillögur nefndarinnar voru að rýmum í sambýlum yrði fjölgað um alls 80. Það svarar til 15--16 sambýla. Í öðru lagi var gert ráð fyrir að árlega yrði 5,2 milljónum varið til að eyða biðlistum eftir frekari liðveislu hér á höfuðborgarsvæðinu og að rýmum í dagþjónustu í Reykjavík og Reykjanesi yrði fjölgað um alls 40.

Í frv. til fjárlaga núna árið 2003 nemur heildarframlag til málefna fatlaðra 5,2 milljörðum. Það framlag hækkar um 393 milljónir frá fjárlögum ársins 2002. Að einhverju leyti má rekja þetta til þess að verið er að færa 83 milljónir frá Landspítala -- háskólasjúkrahúsi vegna flutnings íbúa á Kópavogshæli í sambýli á höfuðborgarsvæðinu. En þar er einmitt áformað að taka á leigu hús til að sinna þessari þjónustu, sambýli og dagvistun.

[14:30]

Í minnisblaði sem við í nefndinni fengum frá félmrn. um aðgerðir ráðuneytisins til samræmis við skýrsluna kemur fram að 53 ný rými í Reykjavík og á Reykjanesi hafa bæst við frá því skýrslan var lögð fram og gert er ráð fyrir 15 nýjum rýmum á næsta ári.

Það er augljóst og það kom fram að nefndin er ánægð með það að gripið hefur verið til þess ráðs að vinna eftir þessari skýrslu og eyða biðlistum eftir tillögum hennar. En það kemur jafnframt fram og er augljóst að á hverjum tíma verður að leggja söðugt mat á húsnæðis- og þjónustuþörf fatlaðra. Það eru sífellt breytingar á þörfinni. Menn hafa nýjar áherslur í þessum málaflokki sem nauðsynlegt er að meta á hverjum tíma og leggja fyrir tillögur samkvæmt því.

Við skoðuðum annað sérstaklega í félmn. og það var málefni Íslenskrar ættleiðingar. Nú hefur Íslensk ættleiðing fengið löggildingu frá dómsmrn. Það var því mat nefndarinnar að ástæða væri til að færa fjárveitingar frá félmrn. til dómsmrn. þannig að hægt væri að gera þjónustusamning við Íslenska ættleiðingu.

Við skoðuðum einnig mál Geðhjálpar og Blindrafélagsins þar sem fram kemur að bæði þessi samtök fá fjárveitingar bæði frá félmrn. og heilbrrn. Það er ástæða til þess að skoða og samræma sérstaklega hvernig fjárveitingum er varið til þessara málaflokka í velferðarkerfinu hjá okkur.

Þetta á einnig við sumardvöl fatlaðra, bæði varðandi Foreldrafélag Öskjuhlíðarskóla og Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra sem rekur sumardvöl í Reykjadal. Þar eru málefni sem þarf að fara sérstaklega í og við bendum þessum ráðuneytum, félmrn. og heilbr.- og trmrn., að fara ofan í málefni dagvistunar fyrir fatlaða.

Hæstv. forseti. Það sem jafnan brennur á og skiptir hvað mestu máli fyrir þá sem á landsbyggðinni búa er hvernig fé er veitt til byggðamála. Það verður að segjast eins og er að þegar litið er til byggðamála hefur margt verið gert á undanförnum árum sem unnið hefur verið samkvæmt þeirri byggðaáætlun sem verið hefur í gildi og nú er nýtekin við. Á undanförnum árum hefur símkostnaður verið jafnaður. Tekið hefur verið á húshitunarkostnaði og námskostnaði framhaldsskólanema.

Það verður að vinna áfram á þeirri braut að jafna búsetuskilyrðin í landinu og þau verkefni sem við höfum til þess að kljást við. Þessi stefna sem hefur fært okkur þó þetta mikið fram á veginn hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar og það kemur fram í fjárlagafrv. að að þessum málum er unnið áfram.

Aðrir hlutir til þess að styrkja búsetu á landsbyggðinni eru þau styrktarkerfi sem snúa að atvinnulífinu. Við horfum sem mest til nýsköpunarverkefna þar sem við treystum því að með nýsköpunarverkefnum verði sá kraftur sem býr í landsbyggðarfólkinu til þess að auka fjölbreytni í atvinnulífinu á landsbyggðinni.

Þegar frumkvöðlar fara af stað með verkefni sem þeir ætla sér að koma áfram á landsbyggðinni til þess að auka fjölbreytnina þá eru komin upp býsna góð styrktarkerfi sem menn geta leitað til. Þar á ég við atvinnuþróunarfélögin sem styðja menn til að þróa verkefni sín til þess að þeim verði síðan sinnt í lánastofnunum. Oft og tíðum hefur þessi starfsemi atvinnuþróunarfélaganna leitt af sér ný og góð verkefni sem hafa haft mikil áhrif.

Við höfum litið til fleiri verkefna til þess að styrkja búsetu. Þá vil ég nefna símenntunarmiðstöðvarnar sem eru ákaflega sterkur þáttur. Það hefur sýnt sig að þær skila mjög miklu til þeirra sem búa á landsbyggðinni varðandi menntunarmál. Símenntunarmiðstöðvarnar hafa komið á háskólamenntun með stuðningi og vilja þeirra háskóla sem helst hafa sinnt landsbyggðinni. Ég vil sérstaklega nefna Háskólann á Akureyri sem er dæmigerð stofnun sem hefur haft gífurlega mikil byggðaáhrif. Háskólinn á Akureyri hefur sinnt fjarkennslu bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum. Fjöldi fólks stundar nú háskólanám í gegnum símenntunarmiðstöðvarnar frá Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands og er þar vert að nefna bæði hjúkrunarnám og leikskólakennaranám sem hefur sýnt sig að skila mjög miklu inn á svæðin í menntunarlegu tilliti.

Þetta eru þau mestu byggðamál og styrking við búsetu á landsbyggðinni sem hægt er að hugsa sér núna vegna þess að menntun er auðvitað það sem við viljum koma til landsmanna. Ef hægt er að gera það með þessum hætti þannig að fólk geti haldið áfram að búa úti á landi en stunda jafnframt háskólanám þá erum við á góðri leið.

Við tókum núna sérstaklega fyrir í fjárln. landshlutabundin skógræktarverkefni. Yfir það var farið hvernig hægt væri að festa þau frekar í sessi því það hefur sýnt sig að þessi verkefni hafa skilað mjög miklu út um sveitir landsins. Þar eru bændur að rækta skóg. Við verðum að líta til þess að þarna er um langtímaverkefni að ræða sem skilar sér á mjög löngum tíma, en mun ótvírætt hafa þau áhrif að styrkja byggðirnar út um sveitir. Það hefur sýnt sig að þar sem skógræktarverkefni eru komin í gang á bújörðum hefur verð jarða hækkað og byggð styrkst.

Við höfum einnig litið til ýmiss konar menningarverkefna og styrkingar íþrótta- og æskulýðsstarfsemi. Nú stendur fyrir dyrum landsmót Ungmennafélags Íslands á Sauðárkróki og þess má sjá merki í brtt. meiri hluta nefndarinnar að þar eru framlög til þess ætluð að menn geti sett þetta landsmót og sinnt því á fullnægjandi hátt. Þetta á við um íþrótta- og æskulýðsstarfsemina almennt. Auðvitað hafa veikari sveitarfélög minni getu en þau sem sterkari eru og fjölmennari til þess að byggja upp íþróttaleikvanga og það að Ungmennafélag Íslands hefur flutt landsmót sín á milli staða hefur orðið til þess að menn hafa sett sérstakan kraft í að styrkja íþróttaleikvanga.

Í fjölmiðlum hefur nú þegar komið fram nokkuð mikil gagnrýni á að fjárln. hefur verið að styrkja ýmis menningarverkefni úti um land. Ég vil segja að sem betur fer er enn þá sá kraftur í íbúum þessa lands að menn hafa sýnt að þeir geta stundað ýmiss konar menningarstarfsemi sem auðvitað er vert að styrkja. Þær þjóðmenningarstofnanir sem við höfum byggt upp hér á landi hafa ekki haft kraft til þess að flytja starfsemi eða sinna menningarverkefnum úti um landið eins og vera ber. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að þeir einkaaðilar sem hafa í sér kraft og dug til þess að sinna ýmsum slíkum verkefnum komi að því. Það á bæði við um menningaruppákomur ýmiss konar og eins björgun menningarverðmæta. Þá er ég að tala um húsnæði sem hefur einhverra hluta vegna ekki verið sinnt í gegnum tíðina. En nú er mikil nauðsyn á að bjarga menningarverðmætum. Verkefni eru út um allt land þar sem menn eru að taka í gagnið menningarverðmæti til þess (Gripið fram í.) að sinna sérstaklega menningartengdri ferðaþjónustu. Það á sem betur fer við um marga landshluta. Ég veit að hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason mun sérstaklega fara yfir þau verkefni sem hann hefur sinnt á Suðurlandi, af því að hann kallar hér fram í ræðu mína.

Ég vil nefna það vegna þessarar gagnrýni sem hefur komið á það að ekki sé nægilega faglega unnið að þessum verkefnum í fjárln., að flestir þeir sem taka sér fyrir hendur þessi verkefni leggja í gífurlega mikla vinnu, undirbúningsvinnu og skipulagsvinnu, áður en þeir sækja um til fjárln. Fólk hefur lagt á sig mikla sjálfboðavinnu og lagt fram fjármagn, bæði sveitarfélög og einstaklingar, til þess að koma þessum verkefnum af stað. Þó ríkisvaldið komi með stuðning af þessu tagi til þess að verkefnin geti haldi áfram þá er það hluti af þeirri menningarstefnu sem við rekum í þessu landi að einkaframtakið í þessum málaflokki geti blómstrað.

Gerður hefur verið menningarsamningur við sveitarfélög á Austurlandi. Ég tel að það sé mjög jákvætt skref. Þar er sérstakur menningarsjóður sem sinnir menningaruppákomum í landshlutanum og þar með sækja þeir aðilar sem standa fyrir slíku t.d. ekki um til ráðuneyta og fjárln. vegna verkefna sinna eins og aðrir landshlutar auðvitað gera. Síðan eru menningarmiðstöðvar reknar í landshlutanum og hefur verið veittur til þeirra stofnstyrkur samkvæmt þessum menningarsamningi. Þarna er komið fram módel sem ég held að aðrir landshlutar muni horfa mjög til og fylgja eftir.

Hæstv. forseti. Ég vil að síðustu nefna það að auðvitað er ánægjulegt að nú hefur nokkuð gengið í því að selja ríkisfyrirtæki sem er okkur afar nauðsynlegt. Það er ekki eðlilegt að ríkið sé með bundið fé í samkeppnisrekstri. Það er algjörlega nauðsynlegt að þessi fyrirtæki verði seld og þeim komið á einkamarkaðinn þannig að féð sem í þeim er bundið geti nýst til annarra mála. Þá erum við sérstaklega að líta til þess að styrkja innviði þjóðfélagsins. Við erum þá að tala um samgöngumál sérstaklega og þar með talið upplýsingaveitukerfi um allt land. Ef þetta land á allt að haldast í byggð verðum við auðvitað að fylgja þeirri þróun sem alls staðar er, þ.e. kröfu um að menn hafi óheftan aðgang og góðan aðgang að upplýsingaveitukerfum samkvæmt því sem gerist nú á tímum.

Hæstv. forseti. Ég vil ljúka þessum orðum með því að segja að það er von mín og ósk að við getum komið sem flestum fyrirtækjum okkar í samkeppnisrekstri á einkamarkað og nýtt féð sem losnar til betri hluta, til að styrkja innviði samfélagsins.