Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 14:56:14 (1772)

2002-11-27 14:56:14# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[14:56]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Í dag fer fram 2. umr. um fjárlög ríkisins, en fjárln. hefur fjallað um frv. til fjárlaga á milli umræðna frá því í október, farið yfir helstu forsendur fjárlagagerðarinnar, farið yfir stofnanir ríkisins og allt það sem tilheyrir fjárlagagerðinni.

Helstu efnahagsforsendur fjárlagafrv. er jafnvægi í hagkerfinu. Það er til þess að gera lág verðbólga í landinu og ber að þakka stjórnvöldum og forsvarsmönnum ASÍ fyrir mjög samstillt átak í þeim efnum. Lítið atvinnuleysi er til þess að gera á Íslandi og segja má að jafnvægi sé í efnahagslífinu. Viðskiptahalli er á undanhaldi, en hann hefur verið viðvarandi um margra ára skeið á Íslandi og þetta eru atriði sem skipta mjög miklu máli. Hagvöxtur kemur til með að aukast og menn eru að spá. Til dæmis spáir OECD nýju hagvaxtarskeiði á Íslandi og þá skiptir auðvitað mjög miklu máli hvernig við stöndum að málum varðandi framkvæmdir, stóriðju og ýmislegt fleira. Það skiptir máli þegar fjallað er um hagvöxt. Verðbólga er á viðráðanlegu stigi á Íslandi, en hún er einn sá draugur sem lengi hefur fylgt okkur í þessum efnum.

Störf fjárln. eru auðvitað mjög fjölbreytt. Þau eru fróðleg fyrir okkur sem sitjum í fjárln. og þau eru um margt mjög skemmtileg. Hér er um gríðarlega mikla vinnu að ræða. Jafnvel er talað um að um 70% af nefndarstarfi þingsins fari einmitt fram í fjárln.

Mjög gott samstarf er með nefndarmönnum og má í raun og veru segja hvar í flokki sem þeir standa og fyrir það ber að þakka. Auðvitað greinir okkur oft á um ákveðin efni, en þegar við horfum á þetta í breiðu ljósi, þá má segja að samkomulag og samstarf í nefndinni sé gott.

Ég vil einnig benda á að starfsmenn Alþingis vinna í rauninni oft og tíðum þrekvirki í þessum efnum. Tækninni fleygir fram. Upplýsingakerfið verður fullkomnara og fullkomnara sem flýtir mjög fyrir störfum nefndarinnar. Á þessu hefur í raun orðið geysileg breyting á síðustu árum sem leiðir til tímasparnaðar, enda höldum við nánast ár eftir ár tímaáætlun hvað þetta varðar, en það er einmitt gert ráð fyrir að 3. og síðasta umræða um fjárlögin fari fram 6. des. nk.

Líkja má starfi fjárln. við að koma saman flóknu púsluspili, sem er jafnvel hægt að púsla á fleiri en einn veg.

[15:00]

Ég velti því líka oft fyrir mér í störfum okkar í fjárln. hvernig Íslendingar hugsa. Við erum í raun mjög eyðslusöm þjóð. Ég velti því einnig fyrir mér hvort við gætum kennt fólki meðferð peninga, kannski strax í leikskóla og haldið síðan áfram í grunnskóla og síðar í framhaldsskólum. Við getum velt því fyrir okkur hvernig peningar verða til, hvernig verðmætasköpun verður til, hvað það þýðir að taka lán o.s.frv. Það kerfi sem við búum við á Íslandi er í raun eyðslukerfi og það er mjög sorglegt þegar ungt fólk sem er að taka sín fyrstu skref út í lífið verður strax gjaldþrota vegna þess að það kann ekki að fara með það frelsi sem felst í notkun greiðslukorta, felst í því að taka bílalán, felst í því að nýta sér léttgreiðslur og hvað þetta heitir nú allt saman. Mjög margt ungt fólk tekur einnig námslán þegar það er að búa sig undir lífið og er í skóla.

Ég er mjög hlynntur frelsi. En frelsinu fylgir ábyrgð. Ábyrgð banka og lánastofnana í þessum efnum er gríðarlega mikil. Í sumum tilfellum er eins og bankarnir verði ábyrgðarlausir ef hægt er að skaffa ábyrgð þriðja aðila. Þess finnast mjög mörg sorgleg dæmi að ungt fólk hafi fengið foreldra eða jafnvel afa og ömmu til þess að skrifa upp á víxla og lán en geti síðan ekki staðið í skilum og þá lendir ábyrgðin á þessum þriðja aðila.

En hvað brennur helst á fólki á Íslandi í dag? Auðvitað er það allt sem tengist heilsu og þjónustu og velferð einstaklinganna. Hvernig stöndum við okkur í þeim efnum? Ef við skoðum það á breiðum grundvelli er óhætt að segja að á Íslandi sé eitt besta heilbrigðiskerfi í heiminum. Ef við veltum fyrir okkur atvinnu og framfærslu þá stöndum við vel að því leytinu til að kaupmáttur hefur aukist á undanförnum árum. Ef við veltum fyrir okkur mennta- og menningarmálum þá stöndum við mjög framarlega í þeim efnum. Hér er mjög mikil fjölbreytni til náms, hvort heldur er til framhaldsnáms eða háskólanáms, og við höfum borið gæfu til þess að færa háskólanámið út á landsbyggðina. Ég nefni sem dæmi Háskólann á Akureyri sem hefur skipt Norðurland gríðarlega miklu máli. Á morgun er verið að taka í notkun nýtt og afar glæsilegt húsnæði við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Sá skóli er í mikilli sókn. Háskóli Íslands er auðvitað kjölfestan í háskólanámi á Íslandi. Kennaraháskóli Íslands sem starfar í höfuðborginni og reyndar á Laugarvatni líka vinnur gott starf. Fleiri háskólastofnanir mætti nefna. Því er óhætt að segja að við stöndum vel hvað menntunarframboð áhrærir.

Þegar við landsbyggðarþingmenn förum af stað og höldum fundi er oft mjög mikið talað um samgöngumál. Það á sjálfsagt bæði við um Suðurland og Austurland. Orðið hefur gríðarleg bylting í samgöngumálum þjóðarinnar á síðustu árum. Ef við horfum bara 30 ár aftur í tímann þá má segja að orðið hafi algjör bylting að þessu leytinu til. Menn velta mjög fyrir sér skiptingu vegafjár og komið er að því að nauðsynlegt er að stokka upp á nýtt. Ef við tökum Suðurland sem dæmi þá eru um 25% af tengivegakerfi landsins einmitt í gamla Suðurlandskjördæminu. Því er mjög nauðsynlegt að skoða þessi mál upp á nýtt og stokka spilin á nýjan leik vegna þess að hringvegurinn er kominn og nú ber að bæta tengivegakerfi á Íslandi.

Ef við skoðum þessi mál öll af sanngirni þá stöndum við í stórum dráttum mjög vel þó að við vitum að við getum auðvitað alltaf gert enn betur. Það hafa orðið stórstígar framfarir á Íslandi á því kjörtímabili sem Framsfl. og Sjálfstfl. hafa verið í ríkisstjórn, bæði á þessu kjörtímabili og einnig því síðasta.

Ef við skoðum fjárlagafrv. sem við fjöllum hér um þá kemur í ljós að við erum nú á milli umræðna að auka útgjöld um 5 milljarða. Það eru auðvitað talsverðir peningar. En hvernig erum við að verja þessum peningum? Stór hluti þessarar upphæðar fer til heilbrigðismála eða tæplega 2 milljarðar. Við verjum af þessum peningum til menntamála u.þ.b. 1 milljarði. Við veitum til félmrn., til Atvinnuleysistryggingasjóðs og fleiri þátta um 450 milljónir. Við verjum einnig til sérstakra verkefna í landbrn., svokallaðra landshlutabundinna skógræktarverkefna, um 84 milljónum.

Á milli umræðna er vinna fjárln. með þeim hætti að til okkar koma forsvarsmenn stofnana, forsvarsmenn sveitarfélaga og ræða við okkur um þau mál sem heitast brenna á þeim hverju sinni. Menn hafa mjög gjarnan rætt t.d. um halla varðandi dagvistarstofnanir og sérstök dagvistargjöld. Milli umræðna höfum við tekið á þeim málum, ekki þó kannski alveg til fullnustu. Þó erum við að vinna að málum í rétta átt, getum við sagt. Menn hafa líka rætt mikið um löggæslu og löggæslukostnað. Við erum að auka útgjöld til þeirra þátta milli umræðna. Menn hafa líka rætt mjög oft við okkur um málefni framhaldsskólanna en það er mál sem brennur mjög á sveitarstjórnarmönnum og við erum einmitt að taka á þeim verkefnum í fjárln. á milli umræðna.

Þegar talað er neikvætt um störf fjárln. er stundum talað um gæluverkefni fjárln. Þetta er óskaplega leiðinlegt orð, segi ég. Ég hef sjálfur lent í umræðum við málsmetandi menn hér í þinginu, ráðherra og jafnvel fyrrverandi ráðherra þegar þeir tala um gæluverkefni og að við vinnum ekki faglega að þessu leytinu til. Auðvitað getum við alltaf deilt um hvort fjárln. Alþingis vinnur faglega eða ekki. En mér er til efs að ráðuneytin vinni nokkuð faglegar að þessu leytinu til en við. Það er í raun fáránlegt að nota orð eins og gæluverkefni. Er t.d. menningartengd ferðaþjónusta eitthvert gæluverkefni? Ferðaþjónusta er ört vaxandi atvinnugrein á Íslandi og oft heyrist í þessum þingsölum að við þurfum að gera eitthvað annað, að við þurfum endilega að gera eitthvað annað og að ríkisstjórnin sé ekki að gera neitt annað. En þegar kemur að því að menn skoða fjárlögin og í hvað við erum að verja peningunum þá eru þetta svo sannarlega einhver önnur verkefni. Þessar fjárveitingar hafa skipt mjög miklu máli fyrir sérstök verkefni úti á landsbyggðinni. Við dreifum þessu vítt og breitt um landsbyggðina. Þó þetta séu til þess að gera litlar fjárhæðir þá hefur þetta haft gríðarlega mikil áhrif á ýmiss konar verkefni sem unnið er að. Ég ætla ekkert að vera að tilgreina nein sérstök verkefni. En þegar við ferðumst um landið þá skynjum við að þetta er eitthvað sem skiptir máli. Það skiptir líka miklu máli að varðveita gamlar byggingar sem skipta t.d. byggðarlögin miklu því að hvert byggðarlag á sína sögu. Fjárln. Alþingis hefur einmitt varið peningum til þess að endurbyggja hús vítt og breitt um landið sem hafa mjög mikið gildi fyrir viðkomandi byggðarlög.

Við höfum líka aðstoðað þá sem berjast gegn fíkniefnavá, en oft hefur verið talað um að mesta vá þessarar nýju aldar sé einmitt fíkniefni. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál að þjóðfélag okkar skuli vera með þeim hætti að eiturlyfin séu mesta vá þessarar aldar. Það eru ekki hryðjuverkin. Það eru ekki stríðsglæpir eða eitthvað slíkt. Það eru eiturlyfin. Nú er svo komið að talað er um að nýjasti markhópurinn í þessum efnum séu einmitt grunnskólabörn. Við verðum því að vera mjög vel á verði, þ.e. þingmenn, foreldrar og allir, því að þetta er hræðileg ógn. Fjárln. Alþingis hefur einmitt varið peningum t.d. til Krýsuvíkursamtakanna. Ég heimsótti nýlega Krýsuvíkurskóla, sem var nú lengi í byggingu og stóð síðan auður. En þar er fólk sem er að ná tökum á þessum vandamálum. Allt þetta skiptir máli.

Auðvitað get ég nefnt mörg fleiri dæmi. Ég sá mjög merkilega kvikmynd ekki alls fyrir löngu sem heitir ,,Hættu áður en þú byrjar``. Maríta heita þau samtök sem standa að henni, þ.e. Samhjálp hvítasunnumanna, Lögreglan í Reykjavík og fleiri aðilar. Þetta var mjög sláandi mynd og eins og ég segi þá hefur fjárln. Alþingis einmitt styrkt verkefni, að vísu ekki þetta Maríta-verkefni en mjög mörg verkefni sem þessu tengjast.

Ég nefndi áðan landshlutabundnu skógræktarverkefnin. Þar erum við að taka þátt í umhverfismálum sem skipta landið mjög miklu máli. Við sem sagt bætum við þær upphæðir sem í fjárlagafrv. voru tæplega 84 milljónum sem skiptast á milli landshlutabundinna skógræktarverkefna á Vesturlandi, á Vestfjörðum, --- það verkefni heitir Skjólskógar --- á Norðurlandi, Héraðsskóga, Austurlandsskóga og einnig Suðurlandsskóga. Hér er um framtíðarverkefni að ræða sem skipta okkur miklu máli.

Við verjum líka miklum peningum til æskulýðsstarfs. Ég var áðan að ræða um fíkniefnavandamálið, en kannski er besta forvörnin af öllum forvörnum gott og traust æskulýðsstarf. Við verjum peningum til íþróttahreyfingarinnar, ungmennafélagshreyfingarinnar og annarra aðila, og ég er stoltur af því að við getum verið að styrkja verkefni sem þessi. Þess vegna vísa ég algjörlega á bug einhverri umræðu um að fjárln. Alþingis sé að vinna í einhverjum sérstökum gæluverkefnum.

Heilbrigðismál eru ávallt þau mál sem mjög langan tíma fá í umræðu okkar í fjárln. Stundum finnst mér þegar við ræðum t.d. um málefni Landspítalans -- háskólasjúkrahúss að við séum að ræða um það á þeim grunni að það sé einungis sjúkrahús fyrir Reykvíkinga. En að sjálfsögðu er Landspítalinn -- háskólasjúkrahús sjúkrahús allra landsmanna og þar njóta allir landsmenn þeirrar gríðarlega góðu þjónustu sem þar fer fram. Þegar við erum í þessari umræðu og ræðum um höfuðborgina annars vegar og dreifbýlið hins vegar þá eigum við að tala um þessa þætti á jákvæðan hátt því að þetta eru engir pólar. Það er hagur okkar sem í dreifbýlinu búum að vel gangi í höfuðborginni. Á sama hátt eiga höfuðborgarbúar að gleðjast yfir því þegar vel gengur á landsbyggðinni. Við megum aldrei stilla þessari umræðu upp þannig að hér sé um andstæða póla að ræða. Við erum ein þjóð í einu landi.

Ég hef í þáltill. bent á hve nauðsynlegt er að horfa til framtíðar þegar við veltum fyrir okkur breytingum sem eru að verða á aldurshópum á Íslandi, þ.e. þjóðin er sífellt að eldast. Margar aðrar þjóðir hafa undirbúið hagkerfi sitt með tilliti til þess. Frá árinu 1970 til 1995 fjölgaði Íslendingum frá 65 ára og eldri úr 5,9% þjóðarinnar í 11,3%. Í spá sem gerð var um hlutfall þessara aldurshópa til ársins 2030 kemur fram að veruleg fjölgun verður frá árinu 2010 og árið 2030 verður þetta hlutfall orðið um 19% þjóðarinnar. Þessi fjölgun hefur auðvitað mjög miklar þjóðfélagsbreytingar í för með sér og ætla má að kostnaður heilbrigðiskerfisins aukist verulega og útgjöld vegna eftirlauna og lífeyris hækki umtalsvert.

Þá fækkar mjög í hópi vinnandi fólks og nú er svo komið, t.d. víða á Vesturlöndum, að það eru einungis tveir vinnandi menn fyrir hvern eftirlaunaþega. Þetta er mál sem við verðum að skoða og við verðum að gefa gaum. Eins og ég sagði fyrr þá hef ég ásamt félögum mínum, Ólafi Erni Haraldssyni, Hjálmari Árnasyni og Magnúsi Stefánssyni, einmitt lagt fram þáltill. í þessum efnum.

Herra forseti. Það hefur komið fram að um 8% af vergri landsframleiðslu fari til heilbrigðisþjónustu. Menn spyrja sig hvort þessum peningum sé vel eða illa varið. Ég er sannfærður um að þessum peningum er mjög vel varið. Þegar menn ræða um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins þá hef ég ekki séð fyrir mér þá kosti sem í því felast. Við getum líka velt því fyrir okkur, líkt og sumar vestrænar þjóðir hafa gert, að takmarka aðgang fólks að heilbrigðisþjónustu. Þegar fólk kemst á vissan aldur fær það t.d. ekki að gangast undir ýmsar aðgerðir sem gerðar eru hér á landi. Það eru engar aldurstakmarkanir hér. Ég gleðst yfir því að við getum haldið úti slíku kerfi. Ég kæri mig heldur ekki um eitthvert kerfi í heilbrigðisþjónustu þar sem annars vegar er kerfi fyrir ríka og hins vegar kerfi fyrir fátæka.

En þegar á heildina er litið, herra forseti, getum við verið ánægð með að búa á Íslandi. Ég vísa algjörlega á bug öllum fullyrðingum um að fjárln. Alþingis vinni ekki faglega eða að við séum að hygla einhverjum séstökum landsvæðum o.s.frv. Við erum þingmenn allra landsmanna og ég gleðst yfir því og ég er stoltur af því að leggja fram þær tillögur sem hér eru.