Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 15:22:23 (1773)

2002-11-27 15:22:23# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[15:22]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í ræðu hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar kom fram að gott samstarf væri í fjárln. Ekki ætla ég að neita því. Ég tel að það sé með ágætum. En þó er það svo að það hefði nú mátt vera betri viðvera á þessu framboðskosningahausti þingmanna í hv. nefnd. Ég verð að segja það þó að fólki líki það illa.

En ég vil spyrja hv. þm. Ísólf Gylfa Pálmason hvort hann sé sáttur við framkvæmdina á fjárlagagerðinni, hvort hún sé í lagi þegar hlutirnir ganga þannig fyrir sig að það sem fjárln. setur inn vegna stofnana sem er grunnþáttur rekstrar þá sé ár eftir ár af hálfu ráðuneytanna klippt af og ætlast til þess að fjárln. sinni þeim verkefnum. Ég get nefnt málefni fatlaðra í því sambandi. Þar er hver fjárveitingin eða hver fjárlagatillagan á fætur annarri klippt af í tillögugerð ríkisstjórnar, síðan verður fjárln. að setja það inn. Og það er eitt af því sem menn jafnvel eru að kalla því leiða nafni gæluverkefni. Það eru slíkir hlutir m.a. sem mér líka ekki í fjárlagavinnunni.

Hv. þm. kom víða við í ræðu sinni eða spjalli --- þetta var nánast spjall á notalegum nótum um hvernig þessi mál fara fram í fjárln. --- og nefndi m.a. kennslu í meðferð fjármuna. Sá sem hér stendur hefur flutt þáltill. um að það verði tekið upp sem sérþáttur en það er reyndar komið inn í kennslugreinar í grunnskóla og heitir ,,lífsleikni``. Það sem ég held að vanti þar á er sérkennsla til þeirra sem stunda þá kennslu, til kennara, til að koma þessu máli virkilega vel til skila.

Í þriðja lagi varðandi atvinnumál þá erum við að upplifa viðsjárverða tíma, þ.e. atvinnuleysi er að aukast á næstu mánuðum og er orðið yfir 4% í sumum byggðarlögum. Hvaða ráð sér hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason helst til að bæta þar úr og hvernig ættum við að mæta þeirri hörmung sem er að skella yfir okkur í formi gjaldþrota sem eru að gerast hjá fjölskyldum sem eru að missa atvinnu?