Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 15:23:33 (1774)

2002-11-27 15:23:33# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[15:23]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. kom víða við í andsvari sínu og ég þakka honum fyrir að koma hér upp í andsvari. Það er svolítið óþægilegt þegar forseti stýrir fundi með þeim hætti að klippt sé á andsvörin þannig að maður þarf að koma sér í gang á nýjan leik eftir ræðuna. En þetta voru mjög þarfar og á margan hátt athyglisverðar ábendingar sem hv. 5. þm. Vesturl. kom með áðan.

Hann spurði hvort ég væri sáttur við allt sem færi fram varðandi fjárlagagerð hjá okkur. Auðvitað er það þannig, eins og ég sagði, að alltaf má gera betur og það eru ýmsir hlutir sem ég er alls ekki sáttur við. Ég er alls ekki sáttur við það t.d. þegar ráðherrar gera samninga um ákveðna hluti og síðan þegar við fáum fjárlögin til umfjöllunar og meðferðar þá fylgja ekki fjárveitingar þeim samningum. Ég er ákaflega ósáttur við það og þess vegna segi ég að það er mun nær að gera þá ekki þessa samninga vegna þess að samningunum fylgja ákveðnar vonir og væntingar og ef fjármagn vantar, og það kemur fyrir trekk í trekk, það er ekki í einu ráðuneyti heldur er þetta svona í fjölmörgum ráðuneytum, að þegar fjárveitingarnar vantar inn í slíka samninga, þá er það auðvitað mjög slæmt. Margir fulltrúar, t.d. úr ríkiskerfinu, hafa kvartað yfir því að þegar laun hafa hækkað þá hafa fjárveitingar til viðkomandi stofnana ekki hækkað til samræmis og ég er auðvitað ekki sáttur við það.

Áðan kom hv. þm. inn á viðveru manna í fjárln. Auðvitað er það eins og gengur og gerist mismunandi og menn ganga í gegnum ákveðna kosningabaráttu á þessum tíma. Hv. þm. er svo heppinn að í kjördæmi hans er uppstillingarnefnd þannig að hann hefur getað mætt manna best á fundi fjárln. og ber að þakka það.