Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 16:09:13 (1781)

2002-11-27 16:09:13# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[16:09]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Undirtektir mínar við málflutning hv. þm. lutu sérstaklega að almennum þáttum sem fram komu í máli hans. Ég var ekki að taka undir að fjárln. eða þingið ætti að koma að málunum fyrr. Mér finnst sjálfsagt að velta því fyrir sér en þykir ekki slæmur bragur á þessu, að fjárlagagerðin sé alfarið á höndum ríkisstjórnarinnar, hún leggi síðan fram tillögur sínar á sína ábyrgð og síðan komi fjárln. og þingið að þessu eins og við gerum núna.

Ég var hins vegar að taka undir það sérstaklega, þau sjónarmið, að það sé eðlilegt að römmunum sé áfram haldið í samstarfi fjárln. og ríkisstjórnar eftir að fjárlagafrv. er komið fram. Ég tel að það mundi hjálpa bæði ríkisstjórn og ráðherrum. Varðandi þátttöku þingsins á fyrri stigum fjárlagagerðarinnar hef ég hins vegar efasemdir.

Ég tel að önnur mál sem hv. þm. kom að, umræður um tekjuöflun milli 2. og 3. umr. og um hagdeild þingsins, séu athyglisverðar hugmyndir. Ég vil segja það í þessu stutta andsvari að ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé lausn á vinnuaðstöðu okkar hvað varðar fjármálalegar upplýsingar að koma okkur upp hagdeild. Þingmaðurinn kom auk þess inn á framhaldsskóla og sjúkraflutninga. Allt eru þetta mikilsverð mál sem ég vil fá tækifæri til að koma að síðar.