Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 16:13:35 (1783)

2002-11-27 16:13:35# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[16:13]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Við lifum á viðsjárverðum tímum. Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar ríður húsum og fyrrverandi áhugamaður um umhverfisvernd, hv. formaður fjárln., lemur hælum og heldur því fram í ræðu sinni að allar forsendur efnahagslífs þjóðarinnar muni breytast verði af áætluðum stóriðjuframkvæmdum fyrir austan, fyrir vestan, fyrir sunnan og mögulega fyrir norðan.

Herra forseti. Ég vil vekja athygli þingheims á því að stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar er óskrifað blað. Verði af henni eins og áform eru um vitum við ekkert út í hvaða efnahagsástand við stefnum. Það kom skýrt fram í ræðu hv. formanns fjárln. Það liggur ekkert arðsemismat fyrir varðandi stóriðjuframkvæmdirnar. Það liggur ekkert plan fyrir um efnahagslegar mótvægisaðgerðir. Það kom líka fram í ræðu hv. þm. Margt annað er óljóst. Það eru engar kröfur um auðlindagjald eða skaðabætur vegna skaða á náttúru Íslands og heldur engar upplýsingar um áhættu af verkefninu, hvorki út frá náttúrufarslegum sjónarmiðum eða efnahagslegum sjónarmiðum.

[16:15]

Það að ríkisstjórnin skuli halda þjóðinni í helgreipum þessarar stefnu örfáum dögum fyrir afgreiðslu fjárlaga og það að hún getur ekkert sagt þjóðinni eða þingheimi um hvað verður hér, hvernig efnahagsástand verður hér ef af öllum þessum plönum verður, er auðvitað til háborinnar skammar. Þessu er ekki hægt að líkja við nokkurn skapaðan hlut annan en rússneska rúllettu og það er skömm að því að hv. formaður fjárln. skuli leyfa sér að opinbera í ræðu sinni áðan alla fáviskuna og heimskuna sem að baki þessu liggur.

Hér er búið að ræða vítt og breitt, herra forseti, um einstaka liði í fjárlagafrv. ásamt með því að farið hefur verið vítt og breitt yfir sviðið og fjallað um vinnulag og heildræna stefnu. Það er aldrei of oft farið yfir það hvernig vinnulagið í þessum málum er, og gagnrýni á vinnulagið hefur verið afar hávær í þessum sal síðustu ár. Nú upplýsir hv. formaður fjárln. okkur um það að hann ætli að beita sér fyrir því, bara strax eftir áramótin eftir því sem manni skildist, að teknar verði upp viðræður um það hvort ekki megi skoða vinnulagið og færa t.d. úthlutanir til ýmissa smærri verkefna, sem undanfarið hafa verið bornar undir fagnefndirnar, til betri vegar og kannski faglegri umfjöllunar en verið hefur. Þetta mátti skilja af orðum hv. þingmanns.

Og ég fagna því. Ég hef verið ein þeirra sem hafa talað fyrir öflugu menningarstarfi á vegum hins opinbera. En ég hef líka verið ein þeirra sem tala fyrir því að fjármögnun á því starfi sé fagleg, og að öll úthlutun, hvort sem hún er til safna-, mennta- eða menningarmála eða lista eða hvers sem vera skal, sé á faglegum grunni. Ég tel okkur eiga í kerfi okkar módel sem við getum fylgt í þeim efnum og mér hefur fundist fjárln. brjóta það módel með því að vera með þessar tilviljanakenndu úthlutanir sem hún hefur verið hávært gagnrýnd fyrir, bæði í þessum sal og annars staðar. Jafnvel í Farskóla safnmanna sem haldinn var á Höfn í Hornafirði í haust var ríkisstjórnin gagnrýnd afar harkalega fyrir þessa tilviljanakenndu úthlutunarstefnu fjárln., og skyldi maður ætla að safnamenn hefðu mestan skilning allra á því að söfn þyrftu á auknum fjármunum að halda. En safnamenn gera þá kröfu, samkvæmt umræðum Farskóla safnmanna, að úthlutun til safna sé fagleg. Gagnrýnin frá safnamönnum gengur fyrst og fremst út á það að með breytingunum á þjóðminjalögunum, þegar safnasjóður var stofnaður, vilji safnamenn fá úthlutanir til safnanna í gegnum safnasjóðinn, ekki í gegnum einhvern tilviljanakenndan sjóð fjárln.

Þess vegna spyr ég hv. formann fjárln.: Hvers vegna setur fjárln. ekki aukna fjármuni í safnasjóðinn og af hverju fara allar þessar litlu úthlutanir fjárln. ekki í safnasjóðinn og fá að heyra undir hina sömu faglegu úthlutun eins og þeir sem sækja um í safnasjóðinn þurfa að lúta? Hvers vegna þessi framhjákeyrsla?

Þetta er fullkomlega í ósamræmi við yfirlýsingu hv. formanns fjárln. sem hann gaf í ræðu sinni hér áðan, og ég krefst þess að hv. formaður nefndarinnar skýri þessa stefnu sem lýsir sér í brtt. nefndarinnar og síðan hvernig hún stangast á við þá yfirlýsingu sem hann gaf áðan.

Var hv. formaður nefndarinnar stoltur af því að heyra hádegisfréttirnar? Var hv. formaður stoltur af því að hlusta á fréttamann Ríkisútvarpsins benda fólki á það í fyrstu frétt dagsins að hv. formaður nefndarinnar væri frá Laugarvatni og að eini framhaldsskólinn sem fengi fjármunum úthlutað í gegnum fjárln. á móti stofnkostnaði væri Menntaskólinn á Laugarvatni? Er hv. formaður nefndarinnar stoltur af því að þurfa að hlusta á svona fréttir? Eða getur hann með hreinni samvisku borið af sér að hér sé um nokkur hagsmunatengsl að ræða? Og geta þá aðrir í fjárln. borið það af sér að þeir séu að hygla eða sinna sínum eigin kjördæmum fram hjá öllum faglegum vinnubrögðum?

Ég ítreka, herra forseti, að hér stendur manneskja sem er því hlynnt að miklir fjármunir fari úr ríkiskassanum til lista og menningar en hér stendur líka manneskja sem vill beygja sig undir það faglega úthlutunarkerfi sem við höfum verið að reyna að koma á með samstöðu allra úti í geiranum í safnamálum og meðal listamanna, og það er fjárln. Alþingis sem er að brjóta niður tilraunir okkar til að vera fagleg í þessum efnum. Og það er virkilega ástæða til að gagnrýna það harkalega.

Reyndar virðist svo eins og framsóknarmennirnir séu ekki alveg sammála því að Ísólfur Gylfi Pálmason, hv. þm. Sunnlendinga, vísaði hér algerlega á bug þeirri ásökun að fjárlaganefndarmenn væru að dreifa sporslum til kjördæma sinna. Það verður að segjast eins og er að þegar brtt. fjárln. eru skoðaðar eru þær nokkuð jafndreifðar yfir kjördæmin, og það má líka benda á það að níu af ellefu þingmönnum sem sitja í fjárln. eru landsbyggðarþingmenn og þeir gæta að sínum málum vegna þess að það hefur viðgengist að fjárlaganefndarmennirnir fái sjálfir að annast úthlutanir, og lái þeim hver sem vill. Meðan þetta viðgengst standa þeir auðvitað vörð um sín kjördæmi. En þetta eru ekki vinnubrögð sem á að líða öllu lengur.

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjárln., hefur gert á ákaflega greinargóðan hátt grein fyrir nál. 2. minni hluta fjárln. Svo vil ég einnig geta þess að á borð þingmanna hefur verið dreift nokkrum þingskjölum með brtt. frá hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Í þeim brtt. kennir nokkurra grasa en eðli málsins samkvæmt kem ég til með að einbeita mér að tillögum sem heyra undir mennta- og menningarmál og umhverfismálin enda starfa ég á vettvangi umhvn. Alþingis og menntmn. Á þskj. 479 sem dreift hefur verið eru brtt. við fjárlagafrv. frá mér og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Ég kem til með að gera grein fyrir þeim í ræðu minni ásamt með tillögum sem finna má á þskj. 488 sem varðar Þróunarsamvinnustofnun Íslands, þróunarmál og alþjóðlega hjálparstarfsemi, og þessar brtt. koma til með að verða inntak ræðu minnar.

Vil ég þá byrja, herra forseti, á Þjóðminjasafni Íslands. Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslu og starfar á landsvísu. Það má því segja að Þjóðminjasafnið sé algjör grundvöllur og undirstöðusafn fyrir allt safnastarf á landinu. Við vitum öll sem í þessum sal sitjum að Þjóðminjasafn Íslands hefur ekki getað borið höfuðið hátt síðustu árin þar sem húsnæði safnsins hefur verið í endurbyggingu og hefur allur tímarammi þeirrar endurbyggingar riðlast. Það var upplýst hér í þessum sal í gær af hæstv. menntmrh. að sennilega yrði ekki opnað endurbyggt Þjóðminjasafn fyrr en árið 2004.

Það eru auðvitað gífurleg vonbrigði, herra forseti, að við skulum þurfa að upplifa það, þessi litla þjóð sem á jafnmikið og raun ber vitni undir ferðaþjónustu, að við höfum í fimm ár --- og þegar öll kurl verða komin til grafar í sjö ár --- ekki getað boðið erlendum ferðamönnum sem hingað koma inn í Þjóðminjasafn Íslendinga. Það ber auðvitað vott um lítinn metnað stjórnvalda að hafa ekki gert fjárhagsáætlun um þessar endurbætur sem gat staðist. Upphaflega ætluðu menn sér ekki að loka safninu nema í hæsta lagi í tvö ár. Hvað skýrir það að við leyfum okkur að fara fimm ár fram úr þeirri áætlun sem við upphaflega reyndum að setja okkur? Það er fyrir minn smekk, herra forseti, allt of mikið. Við höfum í raun og veru snúið baki við Þjóðminjasafninu þessi ár sem við höfum haldið því lokuðu.

Nú er komið að því að við horfum fram á bjartari daga og við sjáum fram á að Þjóðminjasafnið verði opnað árið 2004. Eins og venjulega skulum við bara fara í Pollýönnuleikinn, brosa og vera full tilhlökkunar að fá innan tveggja ára að njóta Þjóðminjasafnsins í nýjum og bættum húsakynnum. Herra forseti. Ég vakti athygli á því við fjárlagaumræðu á síðasta ári, gott ef ekki árinu þar áður líka, að Þjóðminjasafnið verður ekki opnað með neinni veglegri sýningu nema við setjum fjármuni í hana. Nú hefur það verið upplýst enn eina ferðina af forsvarsmönnum Þjóðminjasafnsins, sem heimsótt hafa bæði fjárln. og menntmn., að hv. fjárln. ætlar ekki að standa þannig við bakið á Þjóðminjasafninu að það geti sagst hafa fjármagn í grunnsýningu fyrir safnið.

Sannleikurinn er sá að í brtt. meiri hluta fjárln. er lagt til að Þjóðminjasafnið fái aukna fjármuni inn á sinn fjárlagalið sem nemur 15 millj. kr. Það er útskýrt á þskj. 464 hvernig eigi að verja þessum peningum. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Lögð er til 9 millj. kr. hækkun á fjárveitingum til fjarvinnsluverkefna á vegum safnsins. Jafnframt er lögð til 6 millj. kr. tímabundin fjárveiting til að vinna að fornleifarannsóknum í Reykholti sem áætlað er að ljúki árið 2003.``

Ég vil upplýsa það hér, herra forseti, að fornleifarannsóknin í Reykholti þarf 8 millj. til þess að hægt sé að ljúka henni. Hún er á lokaspretti og henni verður lokið á næsta ári ef til þess koma fjármunir. Auðvitað áttu að koma fjármunir til þess í frv., og það mun vera viðurkennt að þessi liður hafi dottið út fyrir mistök í fjárlagafrv. Hér er því einungis verið að leiðrétta mistök sem hafa átt sér stað í vinnslu frv. með því að láta 6 millj. kr. í tímabundna fjárveitingu til fornleifarannsóknanna í Reykholti --- en samt á ekki að láta nægilega mikinn pening til þess að hægt verði að klára rannsóknina. Rannsókn sem er á lokastigi fær samt ekki nægilega mikið fé til þess að hægt sé að ljúka henni, jafnvel þó að það sé fullur og yfirlýstur vilji frá hv. fjárln. um að svo skuli gert. Ég vil fá skýringu á því, herra forseti. Hvers vegna á Þjóðminjasafnið að láta sér það lynda að fá 2 millj. kr. of lítið til þess að ljúka rannsóknunum í Reykholti? Það hlýtur að vera einhver pólitísk, eða fagleg, ástæða á bak við það. (ÞBack: Hvar var ...?) Og við skulum þá bara fá þá faglegu ástæðu fram frá hv. þm. sem sitja í fjárln.

Það er gott og blessað að leggja fram aukna fjármuni til fjarvinnsluverkefna á vegum safnsins en það er ekki hægt að una við það, herra forseti, að safnið skuli ekki fá fjármuni til þess að setja í grunnsýninguna sem á að vera stolt okkar í húsinu þegar það opnar. Þjóðminjasafnið sækir um 64,6 millj. kr. í þessa grunnsýningu. Svo þarf húsið, þ.e. byggingin sjálf, á 51,4 millj. að halda til þess að það verði boðlegt hvað varðar innréttingar og annað, þ.e. í heildina er sótt um til safnsins 116 millj. fyrir árið 2003 til þess að hægt verði að opna það. Við þessu á ekki að verða nema að afar litlu leyti, herra forseti. Og það hlýtur að vera ámælisvert að fjárln. skuli ekki ætla sér að sýna meiri reisn þetta árið. Allar fjárhagsáætlanir varðandi þessa sýningu og opnun hússins eru uppi á borðinu og eru mjög vel sundurliðaðar í öllum gögnun nefndarinnar. Ég vil fá að heyra það frá nefndinni: Hvers vegna hefur ekki verið ákveðið að taka betur á í þessum málum en raun ber vitni í brtt. meiri hlutans? Ætlar meiri hlutinn kannski að láta það undir höfuð leggjast að Þjóðminjasafnið geti gefið út veglega sýningarskrá með sýningunni sem mögulega verður opnuð? Eða ætlar fjárln. ekkert að umbuna Þjóðminjasafninu fyrir það að hafa á síðasta ári tekið 40 millj. kr. út úr rekstri sínum til að geta forvarið þá muni sem eiga að fara á sýninguna? Eða ætlar fjárln. ekki að láta gera safnabúðina þannig úr garði að hægt verði að selja erlendum ferðamönnum það sem eðlilegt getur talist að sé selt af minjagripum og slíku í Þjóðminjasafninu? Eða ætlar fjárln. ekki að láta opna Þjóðminjasafnið með sýningarstjóra? Á ekki að vera sýningastjóri yfir sýningunni að mati fjárln.? Ég krefst þess, herra forseti, að við fáum upp faglegar umræður frá nefndinni um hvað það er sem Þjóðminjasafnið á að skera niður af þessari væntanlegu sýningu. Hvernig mundi fjárln. hanna þessa sýningu fyrir 36 millj. sem safninu eru ætlaðar í verkefnið þegar fjárhagsáætlunin liggur fyrir og hljóðar upp á 116 millj. kr.?

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur það til að safninu verði ...

(Forseti (GÁS): Forseti biður hv. þingmann afsökunar en nú er sú stund upprunnin sem frátekin var fyrir fundi þingflokka. Forseti veltir því fyrir sér hvort þetta séu heppileg kaflaskil í ræðu hv. þm.)

Herra forseti. Já, já, hvaða staður sem er væri heppilegur til þess að gera hlé fyrir þingflokksfund. Ég pakka saman í bili en kem að loknum þingflokksfundunum til að klára ræðu mína.