Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 17:35:16 (1784)

2002-11-27 17:35:16# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[17:35]

Kolbrún Halldórsdóttir (frh.):

Virðulegi forseti. Ég tek þá til við ræðu mína að nýju þar sem frá var horfið. Ég var að fjalla um safnamálin og ræða um fjárveitingar til Þjóðminjasafnsins og nauðsyn þess að við í þessum þingsal stöndum af myndarskap að baki þeirri grunnsýningu sem kemur til með að verða opnuð með safninu að öllum líkindum 2004, vonandi að vori til, því það er sannarlega margt sem þar vantar á og ekki hefur nándar nærri verið farið að óskum safnsins varðandi fjármuni.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um Þjóðminjasafnið eða grunnsýningu þess. Ég tel mig hafa gert nægilega vel grein fyrir því atriði en sný mér þá að safnasjóði. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs gerum tillögu á þskj. 479 um að safnasjóðurinn fái auknar fjárveitingar frá hinu opinbera, þ.e. að nú leggjum við til hans samtals 90 millj. kr. en ekki 58 millj. eins og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Við leggjum til 32 millj. kr. hækkun.

Rökstuðningur okkar er sá að með nýju safnalögunum hafi fjölgað þeim söfnum sem möguleika eiga á að sækja um styrki í safnasjóðinn og, herra forseti, þau söfn eiga ekki möguleika á að sækja neitt annað. Þeim söfnum er lögum samkvæmt beint í safnasjóðinn. Það er auðvitað ekki eðlilegt, herra forseti, að með nýju lögunum verði engar breytingar á framlögum ríkisins til safnasjóðs. Það er algerlega nauðsynlegt að breyting verði þarna á því að með nýju safnalögunum er t.d. náttúrugripasöfnum og listasöfnum heimilað að sækja um framlög í sjóðinn. Þar að auki hefur orðið talsverð fjölgun á byggða- og minjasöfnum sem falla undir reglur sjóðsins um styrki.

Þegar kakan er jafnlítil og raun ber vitni verður hver styrkur sem veittur er hlutfallslega miklu minni en hann var fyrir þess vegna bara þremur árum síðan þannig að það gefur augaleið að hér er um gífurlega skerðingu að ræða á framlögum ríkisins til safna. Hér er því sannarlega þörf á að gera bragarbót því að safnasjóðurinn sem lýtur lagalegri forsjá og faglegri úthlutunarstjórn þarf að geta staðið undir nafni samkvæmt þessum nýju og ég vil meina metnaðarfullu lögum. Það er algerlega forkastanlegt ef við á hinu háa Alþingi ætlum á árdögum þessara nýju laga að kippa rekstrargrundvelli undan minjasöfnunum vítt og breitt um landið. Það er sannarlega ekki í samræmi við markmið laganna.

Herra forseti. Það má geta þess að fyrir liggja umsóknir vegna næsta árs í safnasjóðinn frá 40 söfnum sem hafa rétt á styrkjum úr safnasjóði. Þar að auki eru beiðnir um 75 verkefnastyrki. Í heildina má segja að upphæðirnar sem sótt er um séu hátt á annað hundrað millj. kr. Það er upphæðin sem verið er að sækja um í þennan sjóð sem samkvæmt fjárlögum er einungis 58 millj. Það sér hvert mannsbarn að þessi kaka er allt of lítil og gerir ekkert nálægt því að sinna þeim þörfum sem þarna eru til staðar jafnvel þó svo úthlutunarnefnd Alþingis hafi verið ötul í að veita styrki fram hjá safnasjóðnum eins og við höfum gagnrýnt í þessum sal í dag.

Þess má geta, herra forseti, að safnafólk hefur sýnt mikla samstöðu og einingu varðandi safnasjóðinn og það fyrirkomulag sem hefur verið komið á. Nauðsynlegt er að við í þessum sal sjáum til þess að viðurkennd söfn um allt land fái óskerta styrki þrátt fyrir að fleiri söfn sæki um en verið hefur. Það má því biðja hv. formann fjárln., af því að ég var með spurningar til hans áðan, um rökstuðning fyrir því hvers vegna hér er ekki betur tekið á en raun ber vitni. Ætlar hv. formaður nefndarinnar að standa fyrir því að rekstrarmöguleikar safna vítt og breitt um landið verði rýrðir, eða hvað? Er ekki rétt að við skoðum þetta milli 2. og 3. umr. því að ég held að hér sé mjög alvarlegt mál á ferðinni sem auðvelt verði að gera bragarbót á.

Þá er ég komin að 3. tölul. í þessari brtt. sem ég nú fjalla um. Hann lýtur sömuleiðis að menningararfi okkar. Sú brtt. á við lið 02-969 Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður. Hér er um að ræða Endurbótasjóð menningarstofnana og sá liður þessa háa fjárlagaliðar sem ég vil gera brtt. við lýtur að húsasafni Þjóðminjasafnsins. Húsasafn Þjóðminjasafnsins er eitt af þessum merkilegu söfnum okkar Íslendinga. Í því eru 44 eða 45 hús sem eru, má segja, merkilegustu minjar okkar á því sviði, á sviði húsa og húsagerðarlistar. Það er nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því að safnið hefur t.d. innan sinna vébanda alla hina ómetanlegu torfbæi vítt og breitt um landið sem þurfa gífurlega mikið viðhald. Þessu viðhaldi er sinnt af fólki vítt og breitt um landið í heimabyggð. Þarna er um það að ræða að styðja við varðveislu gamals handverks og því minna sem húsasafnið fær til sín því minni möguleikar eru á því að handverksmenn í héraði hafi vinnu við að endurgera torfbæina yfir sumartímann. Við verðum að átta okkur á því að meðan við skerðum fjármuni til húsasafnsins þá erum við um leið að skerða möguleika fólks á að búa úti á landsbyggðinni, skerða möguleika þeirra sem hafa unnið við gamalt handverk og hafa af mikilli natni og fyrirhyggju varðveitt gamalt handverk. Við erum að koma í veg fyrir að þetta fólk geti nýtt krafta sína og sömuleiðis að koma í veg fyrir að þetta fólk geti látið sína kunnáttu ganga áfram til niðja landsins. Hér er líka, herra forseti, að mínu mati um afskaplega vandmeðfarið mál að ræða. Margt hangir á spýtunni og alveg nauðsynlegt er að við gerum okkur grein fyrir því hvað við erum að skerða með því að láta ekki meiri fjármuni til húsasafnsins en raun ber vitni.

Húsasafnið fékk árið 2001 á fjárlögum 65 millj. kr. Það var skert í fyrra, þ.e. á yfirstandandi ári, um 15 millj. þannig að húsasafnið fær á yfirstandandi ári eingöngu 50 millj. Skerðingin gengur ekki til baka samkvæmt fjárlagafrv. ársins í ár. Einungis 5 millj. er bætt við þessar 50. En til þess að húsin komist bara á viðhaldsstig þarf að gera ákveðið átak og það átak stendur yfir. Þetta átak er fólgið í því að húsin eyðist ekki hraðar en fólki tekst að halda þeim við. Um 30 millj. kr. vantar til þessa átaks þannig að við leggjum til í þessari brtt., herra forseti, að húsasafn Þjóðminjasafnsins fái 85 millj. kr. í heildina á fjárlögum næsta árs.

Þá er komið að 4. tölul. brtt. sem fjallar um Ríkisútvarpið. Hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjárln, gerði í stórum dráttum grein í nefndaráliti sínu fyrir afstöðu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í þessum málum. Þar er sérstakur kafli, herra forseti, um Ríkisútvarpið. Ég vil fá að vitna til greinargerðarinnar, en eins og kom fram í máli hv. þm. hefur Ríkisútvarpið átt við mjög mikinn rekstrarvanda að etja á undanförnum árum og hefur verið rekið með tapi allan síðasta áratug að undanskildu einu ári. Það er ljóst að gengið hefur verið gífurlega mikið á eigið fé stofnunarinnar á þessum árum. Árið 1994 var eigið fé Ríkisútvarpsins 2.705 millj. kr. En í lok síðasta árs stendur eigið fé í 584 millj. Þetta er allt of mikil rýrnun, herra forseti, til að við getum látið þar við sitja. Ég verð að segja, herra forseti, að ég sé ekki annað en stefna ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna beggja, Sjálfstfl. og Framsfl., sé beinlínis til þess ætluð að koma Ríkisútvarpinu á kné. Auðvitað hvarflar að manni sú hugsun að þetta sé liður í einkavæðingarmaníu stjórnarflokkanna og að verið sé að knésetja Ríkisútvarpið til þess að auðveldara verði að þvinga það inn í eitthvert annað rekstrarform. Þá er ég að tala um hlutafélagaformið. Og þegar sú breyting eða sú þvingun verður afstaðin, herra forseti, þá er eftirleikurinn auðveldur fyrir Sjálfstfl., þ.e. að selja góssið. Ég lýsi því yfir fyrir hönd þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að við munum aldrei láta slíkt yfir okkur ganga þegjandi og hljóðalaust. Við munum standa hér sólarhringunum saman í ræðustóli og verja Ríkisútvarpið og sú vörn er þegar hafin.

[17:45]

Við höfum áður flutt tillögur af þessu tagi en leggjum núna til að Ríkisútvarpið fái greitt úr ríkissjóði og, herra forseti, ég legg áherslu á að það verði greitt beint úr ríkissjóði en ekki gert með hækkun afnotagjalda. Það verði greitt til eflingar innlendri dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu bæði sjónvarpi og útvarpi 140 millj. kr. og við höfum þá hugmynd, herra forseti, að baki þeirri tölu að 100 millj. yrðu látnar renna óskiptar til dagskrárgerðarinnar, innlendrar dagskrárgerðar sem hefur virkilega átt undir högg að sækja á undanförnum árum og 40 millj. verði síðan settar í að gera átak í því að texta innlent sjónvarpsefni fyrir heyrnardaufa. Það er til skammar, herra forseti, hvernig hefur verið tekið í óskir heyrnarlausra og heyrnarskertra í þeim efnum. Hæstv. menntmrh. sagði fyrir skemmstu, gaf þá yfirlýsingu í fjölmiðlum að það væru nægir fjármunir hjá Ríkisútvarpinu til þess að annast þetta átak og texta sjónvarpsefni fyrir heyrnarlausa, og ef ég man rétt, herra forseti, þá bauðst hann til þess að hjálpa útvarpsstjóra, Markúsi Erni Antonssyni, til að finna þá peninga, taka þá frá rekstri og setja þá í textun innlends sjónvarpsefnis.

Herra forseti. Mér finnst það ekki til fyrirmyndar að hæstv. ráðherra gefi yfirlýsingar af þessu tagi. Hann veit vel að Ríkisútvarpið á í alvarlegum rekstrarerfiðleikum. Ef hæstv. ráðherra og flokkurinn sem styður hann vill í alvöru láta texta sjónvarpsefni fyrir heyrnarlausa, þá á sá ríkisstjórnarflokkur og ráðherrann í broddi fylkingar auðvitað að leggja það til í fjárlögum að veitt verði sérstakt fé til þessa verkefnis. Ég treysti mér til að fullyrða að slík tillaga fengi stuðning hvers einasta manns í þessum sal. En að óbreyttu hjá Ríkisútvarpinu er ekki til það fé sem þarf.

Þá leggjum við til, herra forseti, í b-lið 4. tölul. að settar verði 70 milljónir í að styrkja dreifikerfið. Það vita allir sem í þessum sal sitja að dreifikerfi Ríkisútvarpsins er ekki fullkomið, það er langt frá því að vera fullkomið. Enn þá eru um 80 sveitabæir vítt og breitt um landið sem ekki ná útsendingum sjónvarps og þurfa að búa við skertar útsendingar Ríkisútvarpsins. Auðvitað er þetta forkastanlegt, herra forseti. Það er forkastanlegt að á fjárlögum ríkisins sem við fjöllum hér um skuli ekki vera nægir fjármunir. Ár eftir ár vantar okkur fjármuni til að bæta dreifikerfið þannig að öll þjóðin geti notið útsendinga Ríkisútvarpsins. Það er ekki mikið sem á vantar, herra forseti, kannski er það fyrst og fremst viljinn og þess vegna hvet ég hv. þm. til að huga vel að því hvort ekki mætti fara einhverja leið á borð við þá sem hér er lögð til, að styrkja beint úr ríkissjóði innlenda dagskrárgerð og dreifikerfi Ríkisútvarpsins. Ég er sannfærð um að við gætum öll vel við unað ef sú leið yrði farin.

Herra forseti. Þá kem ég að 5. tölul. brtt. á þskj. 479. Sú tillaga fjallar um umferðaröryggi. Þar leggjum við til, herra forseti, að á fjárlagaliðinn 06-190 Ýmis verkefni, undir dómsmrn., verði settur sérstakur nýr fjárlagaliður 1.74 og hann heiti Umferðaröryggisáætlun.

Herra forseti. Í vor afgreiddum við frá Alþingi Íslendinga þál. um stefnumótun um aukið umferðaröryggi. Ég átti sæti í alþjóðanefnd sem varamaður hv. þm. Ögmundar Jónassonar þegar fjallað var um umferðaröryggisáætlunina og þessa þáltill. í nefndinni. Það var afar fróðlegt og skemmtilegt starf og nefndin vann það vel. Mikill einhugur ríkti í nefndinni við afgreiðslu þess máls, herra forseti, og þann einhug má lesa glöggt út úr nál. nefndarinnar sem finna má á þskj. 1229 frá því í vor, á síðasta löggjafarþingi, og ég vil fá að vitna í þetta nál., með leyfi forseta. Þar segir:

,,Nefndin gerir sér grein fyrir að tillagan um umferðaröryggisáætlun 2002--2012 felur í sér viðamiklar aðgerðir sem munu kalla á aukið fjármagn til umferðarmála. Nefndin telur þó að þær muni leiða til verulegs sparnaðar með fækkun umferðarslysa og leggur því áherslu á nauðsyn þess að fjármagn verði tryggt til framkvæmdar áætlunarinnar. Jafnframt telur nefndin brýnt að gert verði hið fyrsta kostnaðarmat fyrir áætlunina sem lögð verði fyrir allsherjarnefnd strax á næsta þingi.``

Af þessu sést, herra forseti, að það var einlægur vilji samhentrar allshn. síðasta vor að núna í þessari fjárlagagerð yrði sett aukið fé til umferðaröryggisáætlunarinnar. Hún á að gilda árin 2002--2012. Byrjunin í þessari vinnu er sú að gert sé kostnaðarmat fyrir áætlunina. Það eru ekki einu sinni peningar í fjárlagafrv. til að gera kostnaðarmatið. Þetta er auðvitað til háborinnar skammar og ég spyr: Hvar er stuðningur þeirra stjórnarþingmanna sem sátu í allshn. þegar þetta nál. var skrifað? Hvers vegna er ekki gert ráð fyrir fjármunum í umferðaröryggisáætlun í fjárlagafrv.? Gleymdist það bara? Gott og vel. Ef það er raunin, þá hafa hv. þm. stjórnarflokkanna tækifæri til þess að gera bragarbót og greiða þessari brtt. atkvæði til þess að við getum sýnt í verki vilja okkar sem við létum í ljós í nál. allshn. sl. vor.

Nýafstaðið er umferðaröryggisþing, herra forseti, og þar var samþykkt ályktun, harðorð ályktun sem er nánast samhljóða ályktuninni sem samþykkt var á umferðarþingi fyrir tveimur árum. Hvert ætli sé inntakið í þessum ályktunum, herra forseti? Jú, einmitt að það sem helst skortir til að auka á öryggi fólks í umferðinni og til að markmiðið í umferðaröryggismálum geti náð fram að ganga, eru fjármunir. Í ályktun umferðaröryggisþings 1. desember árið 2000, sem ég er með hjá mér, herra forseti, og er nánast orðrétt eins og sú sem samþykkt var á umferðarþinginu fyrir nokkrum dögum, þá segir, með leyfi forseta:

,,Umferðarþing lýsir vonbrigðum sínum yfir því að í fjárlögum fyrir árið 2001`` --- sem þá var, en það stendur vonandi 2003 í þeirri sem nú var samþykkt --- ,,verður nánast ekkert vart við aukna fjármuni til þessarar baráttu. Umferðarþing skorar því á ríkisstjórn og Alþingi að lýsa því nú þegar yfir, að væntanleg 12 ára áætlun muni uppfylla framangreind skilyrði.`` --- Þ.e. um að innihalda fjárhags- og framkvæmdaáætlun.

Herra forseti. Það var umferðarþing, sem er mjög fjölskipað þing, sem samþykkti þessa áætlun fyrir nokkrum dögum sem er samhljóða þeirri sem ég vitnaði hér til.

Herra forseti. Þá er komið að umhverfismálunum í brtt. á þskj. 479. Í 6. tölul. leggjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs til að aukið verði við styrki til fráveitna sveitarfélaganna. Sannleikurinn um þau mál, herra forseti, er sá að allt of litlum fjármunum hefur verið varið til þessara nauðsynlegu og lögboðnu verkefna að okkar mati á síðustu árum. Sveitarfélögin hafa mörg hver tjáð sig við fjárln. og látið vita af því að þau hafi ekki bolmagn til að fara út í nauðsynlegar bragarbætur í þessum efnum. Þess vegna er alveg með ólíkindum að þingmenn stjórnarflokkanna og jafnvel ráðherrarnir líka skuli segja það upp í opið geðið á okkur hinum, sem erum að reyna að malda eitthvað í móinn, að það séu engin sveitarfélög að sækja um styrki til hins opinbera til að gera úrbætur í frárennslismálum. Sannleikurinn er sá að sveitarfélögin hafa hvað eftir annað látið vita af því að þau hafi ekki bolmagn til að greiða sinn hlut og þess vegna sæki þau ekki um þann lögbundna fjárstuðning sem þau eiga rétt á til ríkisins. Grunnurinn í þessu liggur í því að fráveituframkvæmdir eru gífurlega dýrar og sveitarfélögin hafa ekki bolmagn til þess að greiða sinn hlut. Þess vegna koma ekki umsóknir um stuðning til ríkisins.

Upphæðin sem við leggjum til, herra forseti, gerir svo sem ekki mikið og má segja að hún sé kannski táknræn fremur en nokkuð annað og segi fyrst og fremst það eða lýsi því viðhorfi okkar sem að tillögunni stöndum að hér þurfi að taka málið til umfjöllunar, taka það á dagskrá og skoða það ofan í kjölinn af alvöru en ekki ýta því á undan sér eins og gert hefur verið undir forustu hæstv. umhvrh., vil ég meina.

Þá er komið að 7. og síðasta tölulið á þessu þingskjali, sem varðar fjárlagalið 14-401 Náttúrufræðistofnun Íslands. Þannig er mál með vexti, herra forseti, að Náttúrufræðistofnun Íslands á í miklum fjárhagserfiðleikum. Fulltrúar frá stofnuninni komu í heimsókn bæði til fjárln. og umhvn. og nefndunum var sent erindi sem greinir frá þeim vanda sem við er að etja innan stofnunarinnar. Segja má að þetta sé afar greinargott erindi sem lýsir því nákvæmlega hvað það er sem gert hefur það að verkum að stofnunin hefur þurft að grípa til mikils niðurskurðar og jafnvel að fara fram úr fjárlögum eins og gerst hefur nú á síðustu árum. Þar ber hæst vinnu Náttúrufræðistofnunar Íslands við náttúruverndaráætlun, en eins og kunnugt er, herra forseti, á samkvæmt náttúruverndarlögum að leggja náttúruverndaráætlun fyrir það löggjafarþing sem nú situr og ekki bara það því samkvæmt lögum á að leggja hana fram fyrir áramót á þessu þingi.

Gífurlega mikil vinna hefur verið unnin bæði hjá Náttúruvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands við að útbúa þessa náttúruverndaráætlun. Náttúruvernd ríkisins hefur fengið einhverja fjármuni til þess en Náttúrufræðistofnun Íslands nánast enga. En grunnurinn á bak við vinnu Náttúruverndar ríkisins liggur auðvitað í hlutum eins og kortum, rannsóknarniðurstöðum og öðru sem Náttúrufræðistofnun Íslands lætur í té þannig að eðlilegt er að Náttúrufræðistofnun Íslands fái aukna fjármuni vegna vinnunnar við náttúruverndaráætlunina. Ég vil lýsa því yfir hér, herra forseti, að ríkisstjórnin hafi staðið slælega að málum við gerð náttúruverndaráætlunar og mér sýnist vinnubrögðin hér í þessu tilliti lýsa viljanum og afstöðu ríkisstjórnarinnar til náttúruverndaráætlunarinnar. Það er eins og stjórnvöld hafi alls ekki viljað að hún sé gerð með þeim metnaði sem þessar stofnanir vilja að hún sé gerð með. Þær leggja allan sinn metnað í hana en hafa ekki haft árangur sem erfiði að fá þá fjármuni sem nauðsynlegir eru frá hinu opinbera og er bara gert að taka þá út úr öðrum rekstri. Þetta er ekki forsvaranlegt, herra forseti.

Önnur vinna sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur lagt mikið af mörkum við er rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Þar er annað verkefni á ferðinni sem maður skyldi ætla að þyrfti að vinna af miklum metnaði og mikilli alúð en þar er nákvæmlega sama uppi á teningnum, ríkisstjórnin hefur ekki lagt meira í það verkefni en náttúruverndaráætlunina þannig að stofnanirnar hafa verið að leggja fram sinn þátt með því að taka fjármunina frá rekstri. Það er alls ekki forsvaranlegt.

Gerðar hafa verið gífurlega mikilvægar náttúrufarsrannsóknir á hálendinu vegna rammaáætlunarinnar um vatnsaflsvirkjanir og það vita auðvitað allir í þessum sal og ráðherrarnir ekki hvað síst að okkur hefur einmitt skort grunnrannsóknir. Grunnrannsóknir á náttúru Íslands er það sem okkur skortir til að geta gert allar áætlanir um framkvæmdir og allt sem heiti hefur, allt þetta rask uppi á hálendinu. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við það lengur að fara megi í þessa hluti án þess að rannsóknir séu til staðar. Þær þurfa að vera til staðar og þær verða ekki til nema settir séu í þær fjármunir. Á vegum Náttúrufræðistofnunar er búið að vinna að mjög umfangsmiklum rannsóknum á náttúrufari virkjunarsvæða og samanburðarsvæða á hálendinu og góð orð hafa verið um að fjármunir kæmu í þetta en þegar til kastanna kemur virðast þeir ekki vera til staðar. Það er spurning hvort hér lýsi sér líka eiginlegur vilji ríkisstjórnarinnar varðandi rammaáætlunina. Vill ríkisstjórnin ekki að vel sé staðið að málum? Vill ríkisstjórnin ekki að þetta verði áætlun sem mark er á takandi eða hvað? Hvers vegna eru ekki látnir fjármunir í þessa áætlun?

[18:00]

Enn má nefna, herra forseti, vinnu Náttúrufræðistofnunar við samvinnuverkefni um áhrif skógræktar á lífríki landsins, svokallaða skógvist. Ég eftirlæt hv. þm. Þuríði Backman að tala fyrir því enda er á brtt. hennar á þskj. 484 gerð tillaga um fjármuni í skógvistarverkefni Náttúrufræðistofnunar.

Sömuleiðis má nefna verkefni sem Náttúrufræðistofnun hefur unnið tengt ofanflóðasjóði. Þegar öllu er á botninn hvolft er fjárhagsstaða stofnunarinnar mjög erfið og nauðsynlegt að nefna í lokin að stofnunin stendur að rekstri sýningarsafns í Reykjavík og ýmiss konar annarri fræðslustarfsemi. Það er lögbundið verkefni stofnunarinnar, og eitt af nokkrum sem virðast ekki fá fjárframlög þrátt fyrir að aðrar stofnanir og aðrir aðilar, sem hafa jafnvel ekki slíka skyldu samkvæmt lögum, fái fjármagn til fræðslu- og safnastarfsemi úr þessum sömu sjóðum. Því leggjum við til, herra forseti, samkvæmt tillögu í 7. tölulið að Náttúrufræðistofnun Íslands fái hækkun á fjárlagaliðnum 14-401 1.02 Setur í Reykjavík, þar verði hækkun upp á 32,8 millj. kr., og sömuleiðis á töluliðnum 6.01 Tæki og búnaður, þar gerum við ráð fyrir 3 millj. kr. hækkun til stofnunarinnar.

Herra forseti. Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir tillögum á þskj. 479 og ætla þá bara í örfáum orðum að gera grein fyrir tillögum okkar sömu þingmanna, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og mín, á brtt. við fjárlagafrv. sem lýtur að Þróunarsamvinnustofnun Íslands, þróunarmálum og alþjóðlegri hjálparstarfsemi.

Herra forseti. Í umræðum síðustu daga um hernað og hernaðarhyggju koma þessir hlutir upp í hugann, þ.e. þróunarsamvinnan okkar og það hversu skammarlega lítið Íslendingar hafa lagt af mörkum til þróunarsamvinnu á undanförnum árum. Það er langt undir því marki sem menn hafa sett sér í samvinnu vestrænna þjóða sem hafa sett sér það markmið að efla þróunarsamvinnu og auka fjármuni sem til þróunarsamvinnunnar eru ætluð. Öll þau lönd sem eru í kringum okkur hafa verið að reyna að taka sig á í þessum efnum en sleifarlagið hér er þvílíkt, herra forseti, að það er skömm að því.

Nú hefur á síðustu dögum verið talað um það að ríkisstjórnin hafi gert samning um 300 millj. kr. framlag til flugfélaganna íslensku til þess að flytja --- ja, sagan segir hergögn og hermenn á stríðstímum. Þetta er eitt af þessum stóru málum sem þjóðin deilir nú um. Auðvitað bregður þjóðinni, hinni herlausu þjóð, þegar ráðamenn hennar eru farnir að draga hana inn í styrjaldarátök á þann hátt sem nú virðist vera raunin, þ.e. að það eigi að fara að nota borgaralegar flugvélar til þess að flytja hergögn á stríðstímum. Fyrir hvern? Við vitum það ekki. Þess vegna viljum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sýna andúð okkar á þessum áformum ríkisstjórnarinnar í verki með því að leggja til þá brtt. við fjárlagafrv. að Þróunarsamvinnustofnun Íslands fái 200 millj. kr. aukið fjárframlag til þróunaraðstoðar og að þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi, þá sérstaklega mannúðarmál og neyðaraðstoð, fái 100 millj. kr. aukið fjárframlag frá íslensku þjóðinni. Hér teljum við vera um mjög öfluga tillögu að ræða, við erum stolt af því að geta lagt hana fram. Við viljum standa vörð um frið í veröldinni og við teljum að þróunarsamvinnan og allt það sem við leggjum af mörkum til mannúðarmála sé til þess ætlað að styrkja frið í heiminum. Við komum aldrei til með að leggja því lið að Íslendingar fari með ófriði gegn öðrum þjóðum, við munum aldrei styðja það að Íslendingar fari í stríð gegn friði. Við teljum þessa brtt. vera af þeim toga að hún geti eflt friðinn í veröldinni.

Herra forseti. Í blaðabunka mínum er bara eitt mál eftir sem mig langaði til að nefna. Mér finnst leiðinlegt til þess að vita, sem ég starfa í menntmn. og hef tekið á móti fulltrúum frá Kvennasögusafni Íslands oftar en einu sinni, að konurnar frá Kvennasögusafninu komi iðulega og óski eftir smánarlega lágum upphæðum til að geta staðið við bakið á Kvennasögusafninu þannig að það þurfi ekki hreinlega að leggja upp laupana. Herra forseti, við sjáum í gögnum frá Kvennasögusafninu sem hlýtur stuðning á hverju ári frá Landsbókasafni Íslands, sem fjármagnar laun og launatengd gjöld forstöðumanns Kvennasögusafnsins, að sú upphæð sem safnið hefur fengið frá Landsbókasafninu hefur hækkað árlega í samræmi við almenna hækkun á fjárlögum en alls ekki í samræmi við breytingar á launum og launatengdum gjöldum forstöðumanns. Og nú er svo komið, herra forseti, að Kvennasögusafnið vantar rúmlega 1 millj. upp á að það geti með fjárveitingunni sem það fær frá Landsbókasafninu greitt laun forstöðumannsins. Þá er ekki verið að tala um öll verkefnin sem Kvennasögusafnið hefur síðan verið að reyna að vinna með þennan forstöðumann í broddi fylkingar.

Stjórn Kvennasögusafnsins hefur undangengin ár sótt um og fengið árlega styrk að upphæð 600 þús. kr. frá fjárln. Alþingis. Sá styrkur hefur verið notaður til að fjármagna hluta af sérverkefnum safnsins en hin síðari ár hefur safnið orðið að nota þessa fjármuni, sem eru veittir til sérverkefna, í það að brúa bilið í launum forstöðumanns. Herra forseti. Mér finnst það smánarblettur á okkur hér á Alþingi ef við getum ekki látið Kvennasögusafnið hafa þá fjármuni sem nauðsynlegir eru til að standa að þessum smáa en gjöfula rekstri. Þetta er rekstur þar sem hagsýnin er látin ráða ríkjum, þetta er lítið safn en bráðnauðsynlegt fyrir okkur, og mér hefði fundist rausn og reisn yfir því ef við hefðum getað afgreitt hærri styrk en brtt. meiri hluta fjárln. gera ráð fyrir. Í þeim má nefnilega lesa að Kvennasögusafninu séu ætlaðar núna, ekki 600 þús. kr. eins og það hefur fengið á undanförnum árum, nei, það er lækkað niður í 500 þús. kr. Ég verð að segja, herra forseti, að mér brá nokkuð við að sjá þessa tillögu og mér líður ekki vel yfir því að þurfa að afgreiða fjárlagafrv. frá Alþingi með þeirri tölu óbreyttri.

Ég hef farið í gegnum þann hluta brtt. frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem lúta fyrst og fremst að umhverfismálum og mennta- og menningarmálum. Hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi okkar í fjárln., var búinn að gera góða grein fyrir tillögum okkar um framhaldsskólana en það er auðvitað mál sem þarf líka að taka til skoðunar við 2. umr., og þá mögulega milli 2. og 3. umr. Með því lýk ég máli mínu.