Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 18:09:35 (1785)

2002-11-27 18:09:35# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[18:09]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Þetta var löng og um margt ágæt ræða sem hv. þm. flutti. Það vildi þannig til að við tókum hlé í miðri ræðu hv. þingmanns þannig að það verður að rifja upp ýmislegt sem sagt var. Meðal annars var komið inn á Farskóla safnmanna á Höfn. Það vill þannig til að ég var einmitt staddur á þeirri samkomu og fylgdist með, og það voru deildar meiningar um það hvort við værum að gera rétta hluti í fjárln. eða ekki --- eins og um allt sem við erum að gera.

Það gætir ákveðinnar miðstýringaráráttu í ræðu hv. þm. en við því er ekkert að gera, það er hluti af því að vera í þessari ágætu hreyfingu sem flokkurinn er. Miðstýringaráráttan er mikil. En þveröfugt við hv. þingmann gleðst ég yfir því að Menntaskólinn á Laugarvatni skuli fá fé til þess að bæta t.d. tölvukerfi og annað slíkt. Mér finnst það mjög sérkennilegt, og sömuleiðis fréttaflutningur Ríkisútvarpsins sem er mér mjög kært, að benda á það að hv. formaður fjárln. skuli vera frá Laugarvatni. Ég veit ekki betur en að það séu 35 ár síðan hv. þm. flutti þaðan. Og að vera að tengja þetta saman er út í bláinn. Við styðjum og styrkjum fjölmörg verkefni vítt og breitt um landið, ekki bara á Laugarvatni heldur alls staðar annars staðar líka.

Mér finnst jafnframt mjög sérkennilegt að stilla því þannig upp að það séu níu landsbyggðarþingmenn í fjárln. og tveir Reykjavíkurþingmenn. Ég tala fyrir því að við eigum að tengja saman dreifbýli og þéttbýli, og það er engin andstaða við þetta.

Mig langar til að spyrja hv. þm.: Hefur þingmaðurinn tekið saman þær brtt. sem hún leggur fram? Hver er heildarútgjaldaaukinn þegar hún leggur þessar tillögur allar saman, sem eru um margt ágætar? Hver verður þá heildarútgjaldaaukinn?