Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 18:11:44 (1786)

2002-11-27 18:11:44# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[18:11]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki með töluna um heildarútgjaldaaukann fyrir hv. þingmann en hins vegar get ég frætt hann um það að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur ævinlega sagt að í skattstefnu ríkisstjórnarinnar sé þannig haldið á málum að það sé vísvitandi verið að taka of litla skatta í okkar sameiginlegu samneyslu. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur þorað að leggja fram tillögur þess efnis að þeir sem eiga meira undir sér heldur en aðrir eigi að greiða hærri skatta en þeir sem hafa minna umleikis. Við vitum alveg hvernig við ætlum að fjármagna þær tillögur sem við erum með.

En bara til þess að forðast allan misskilning, herra forseti, var ég ekki í ræðu minni að gera orð fréttamanns Ríkisútvarpsins að mínum. Í upphafi ræðu minnar gat ég um frétt sem flutt var í Ríkisútvarpinu í hádeginu í dag og spurði hvernig hv. formanni fjárln. liði undir því að heyra frétt af þessu tagi, (Gripið fram í: Hann er stoltur af því.) hvort hann væri stoltur af því, þar sem verið væri að ásaka fjárln. um að vera með kjördæmapot og að menn væru að hygla sínum kjördæmum umfram önnur. (Gripið fram í.) Þetta var því ekki mín skoðun, herra forseti, sem ég var að tala fyrir í þessum hluta ræðu minnar. Ég vitnaði í frétt Ríkisútvarpsins og í henni er líka getið um það, í nákvæmlega þessu sama samhengi, að í fjárln. séu níu landsbyggðarþingmenn en tveir frá Reykjavíkurborg. Ég vil því einungis segja: Ég sagði ekkert um mína skoðun um þetta tiltekna atriði. Þetta var tilvitnun í frétt Ríkisútvarpsins frá því í hádeginu í dag.