Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 18:13:33 (1787)

2002-11-27 18:13:33# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[18:13]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér á óvart að hv. þm. skuli ekki gera sér grein fyrir því hversu mikill útgjaldaauki það væri fyrir ríkissjóð ef við færum að öllum þessum tillögum. Það kemur í ljós í lauslegri samantekt að hér er um 3,3 milljarða að ræða ef farið væri eftir þessum tillögum. Þetta er auðvitað lausleg samantekt en miðað við það sem við höfum verið að taka hér saman er þetta um 3,3 milljarðar og þá þarf nú tekjur til, það þarf aldeilis tekjur til.

Mér finnst ákveðinn tvískinnungur í því að þegar verið er að tala um tilviljanakenndar fjárveitingar fjárln. spyr hv. þm. líka hvort fjárln. sé tilbúin að hanna sýningu fyrir Þjóðminjasafnið. Fyrst er sagt: Þið eruð óhæft fólk til þess að verja peningum í ákveðna hluti. Svo erum við spurð: Eruð þið tilbúin að hanna sýningu fyrir Þjóðminjasafnið? Að sjálfsögðu erum við ekki tilbúin til þess að hanna sýningu fyrir Þjóðminjasafnið. Ég bendi líka á að það er margt hárrétt sem hv. þm. sagði um Þjóðminjasafnið. Við eigum auðvitað að leggja metnað okkar í það en Þjóðminjasafnið starfar víðar en á höfuðborgarsvæðinu, t.d. á Skógum undir Eyjafjöllum og þangað koma 35.000 gestir á ári hverju. Og þangað hefur fjárln. á tilviljanakenndan hátt ætlað t.d. 7 millj. í ár til Samgöngusafns Íslands. Á þennan stað, eins og ég sagði áðan, koma 35.000 manns árlega. Heldur hv. þm. að þetta skipti ekki svæði eins og Rangárvallasýslu og menningartengda ferðaþjónustu miklu máli, gríðarlega miklu máli? Sem betur fer er Þjóðminjasafnið í gríðarlega góðu samstarfi við t.d. safnið á Skógum.

Við megum passa okkur á að stilla ekki hlutunum svona upp, við eigum að gleðjast yfir því sem vel er gert. Og mig langar til þess að spyrja hv. þingmann um það hvernig hún ætlar að ná í þessa 3,3 milljarða sem tillögur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs gera ráð fyrir. Hvernig ætlið þið að ná í tekjurnar?