Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 18:17:18 (1789)

2002-11-27 18:17:18# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[18:17]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég held að það væri mjög áhugavert að fá að heyra aðeins um 3,3 milljarðana.

En hv. þm. gerði orð fréttamanns Ríkisútvarpsins að sínum í ræðu sinni hér og tekur fram að níu af ellefu nefndarmönnum í fjárln. séu af landsbyggðinni og að verið sé að dreifa fjárveitingum út í kjördæmin. Það er þá væntanlega ekki verið að dreifa út í kjördæmin fjárveitingum sem fara til Reykjavíkur. Það er væntanlega ekki þannig. Reykjavík telst þá ekki kjördæmi í því samhengi.

Hv. þm. hefur talað afar mikið og oft um safnasjóðinn og að verkefni eigi að vera þar. En þá verður væntanlega að fara yfir þann lagaramma sem gildir um safnasjóðinn þannig að þessi verkefni muni eiga heima innan þess lagaramma. Ég get verið alveg fullkomlega sátt við það ef menn fara í þá vinnu, en það breytir því ekki að fara þarf yfir lagarammann í kringum safnasjóðinn og ekki fullyrða hér að öll þessi verkefni eigi þar heima. Það er bara ekki svo. Þannig að það léttir nú töluvert á vinnu okkar í fjárln. þegar svo er komið.

Og að tala um fagleg vinnubrögð, þingmaðurinn talar um að þetta séu mjög ófagleg vinnubrögð í fjárln. Ætlar hv. þm. að halda því fram að sú vinna sem lögð hefur verið í áætlanagerð fyrir Síldarminjasafnið á Siglufirði, Galdrasýninguna á Ströndum, Sögusetrið á Hvolsvelli, Samgönguminjasafnið á Skógum og Kjarvalsstofu í Borgarfirði eystra, sé ófaglega unnin? Ég skal lána hv. þm. skýrslurnar sem liggja að baki þeirri vinnu og þeim undirbúningi sem þar er fyrir hendi.