Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 18:19:29 (1790)

2002-11-27 18:19:29# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[18:19]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fellur í sömu gildru og sá sem var í andsvari hér á undan, þ.e. að gera mér upp skoðanir. Ég hef aldrei sagt að söfnin sem um ræðir séu ekki rekin á faglegum grunni. Ég er að gagnrýna nefndarmenn í fjárln. fyrir að fara ekki að hinum löglegu leiðum sem við höfum samþykkt.

Hv. þm. veit mætavel að vorið 2001 samþykktum við ný lög um safnamál. Þá var farið ofan í lagarammann svo um munaði á mjög vandvirkan hátt af menntmn. Og menntmn. var hjartanlega sammála í afgreiðslu á málinu.

Ég ætla að benda hv. þm. á að hæstv. fyrrv. menntmrh., Björn Bjarnason, deilir skoðunum mínum í þessu efni. Það kom fram í ræðu hans í fjárlagaumræðunni á síðasta þingi. Það kom líka fram í kröftugri ræðu hv. þm. Björns Bjarnasonar í Farskóla safnmanna á Höfn í Hornafirði í haust. Hér talaði áðan Árni Ragnar Árnason, hv. þm. Sjálfstfl. Hann deilir þessum sjónarmiðum mínum og Björns Bjarnasonar.

Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir rangtúlkar því orð mín og misskilur mig vísvitandi þegar hún ætlar að fá mig til að munnhöggvast við sig um einstök söfn. Ég er ekki að fjalla um einstök söfn. Öll þau söfn sem hv. þm. nefndi eru sannarlega góðra gjalda verð og örugglega öll þau söfn sem fjárln. er að úthluta til.

En hver segir að þau söfn hefðu ekki fengið fjármuni í gegnum safnasjóðinn ef hann hefði fjármuni til að veita til þessara safna? Ég hef sjálf staðið í bréfaskiptum við safnamenn vítt og breitt um landið og ég veit að það sem ég tala fyrir hér á gífurlega mikinn hljómgrunn meðal safnamanna.