Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 18:21:23 (1791)

2002-11-27 18:21:23# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[18:21]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef átt tal við bæði núv. menntmrh. og embættismenn í menntmrn. og þeir eru mér algjörlega sammála um að lagaramminn um safnasjóð er ekki nægilega góður vegna þess að hann dekkar ekki þau verkefni sem við erum að tala um hér. (KolH: Ha?) Þannig að yfir þetta verður að fara.

Ég hvet hv. þm. til að kynna sér þá vinnu sem liggur að baki einstökum verkefnum sem við förum ofan í í fjárln. eftir umsóknum þegar menn eru búnir að leggja mikla vinnu, mikla undirbúningsvinnu í einstök verkefni.

Ég tók sem dæmi Tækniminjasafn Austurlands. Hér liggja fyrir þrjár skýrslur um það verkefni. Það er safnastefna, safnmunastefna, sýningarstefna, það er vinna Sögusmiðjunnar og fleiri skýrslur sem liggja hér að baki. Og í þeim vinnuhópi sem undirbjó þetta eiga sæti Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, Guðný Zoëga, minjavörður Austurlands, Óðinn Gunnar Óðinsson, Þróunarstofu Austurlands, Aðalheiður Borgþórsdóttir, ferða- og menningarfulltrúi Seyðisfjarðarkaupstaðar, og Pétur Kristjánsson þjóðfræðingur, forstöðumaður Tækniminjasafnsins. Þarna vil ég fullyrða að faglega sé unnið með þessu góða fólki sem kemur m.a. af Þjóðminjasafninu, þjóðminjavörður sjálfur í þessa undirbúningsvinnu og sækir um þetta fjármagn.

Ég vil líka nefna skýrslu eftir Pál Baldursson um gamla kaupfélagshúsið á Breiðdalsvík. Þar á að stofna Stofu dr. Stefáns Einarssonar. Þarna er mjög vel unnið og mjög faglega unnið. Og fjárln. tekur þessi erindi, eins og önnur erindi til umfjöllunar.