Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 18:25:56 (1793)

2002-11-27 18:25:56# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[18:25]

Ásta Möller:

Herra forseti. Hér er fjárlagafrv. til 2. umr. á hinu háa Alþingi. Þar sem ég tók sæti í fjárln. síðasta vor tek ég nú í fyrsta sinn þátt í störfum nefndarinnar og það hefur verið mjög lærdómsríkt.

Herra forseti. Í gærkvöldi leit ég yfir umræðu sem fór hér fram við 2. umr. fjárlagafrv. fyrir réttu ári. Þar hafði framsögu fyrir 1. minni hluta fjárln. hv. þm. Einar Már Sigurðarson sem talaði hér fyrr í dag. Í tvennum skilningi er áhugavert að fara yfir ræðu hv. þm. Annars vegar til að sjá þá jákvæðu þróun sem hefur orðið í efnahagsmálum á þessu ári og að hún hafi í öllu fylgt spám forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar og hins vegar að ræðan sýnir hve Samfylkingin er hörmulega spámannlega vaxin í efnahagsmálum. Það eitt og sér hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir kjósendur ætli þeir sér að veita flokknum brautargengi í kosningunum næsta vor.

Með leyfi forseta langar mig að drepa á nokkur atriði í ræðu hv. þm. um stöðu efnahagsmála eins og hann skynjaði hana fyrir réttu ári. Ég vil reyndar minna á að við vorum þá að glíma við eftirleik árásanna á New York og Washington og við vorum rétt að byrja að rétta úr kútnum eftir stutta niðursveiflu í hagkerfinu. Hv. 4. þm. Austurlands segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin virðist nú hafa misst tök á stjórn efnahagsmála. Þetta birtist í miklu gengisfalli íslensku krónunnar undanfarin missiri, hárri og vaxandi verðbólgu, svimháum vöxtum sem leggjast þungt á fyrirtæki og fjölskyldur, gríðarlegum erlendum skuldum þjóðarbúsins og viðskiptahalla sem erfitt er að ná niður. Yfirlýsingar hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar um stöðu mála eru misvísandi og ótrúverðugar.`` Sagði hv. þm. og síðan lýsir hann viðbrögðum ríkisstjórnarinnar sem óðagoti, ráðleysi og pati.

En hvernig er staðan núna ári síðar? Hv. þm. hlýtur að vera miður sín yfir hve illa rangt hann hafði fyrir sér fyrir ári um tök ríkisstjórnarinnar á efnahagsmálum. Staðreynd málsins er sú að staða efnahagsmála er í meira jafnvægi nú um stundir en verið hefur um langt árabil. Verðbólgan er 2,4% í stað um 8% fyrir um ári síðan. Er nú verðbólgan nálægt verðbólgumarkmiðum Seðlabankans. Kaupmáttur heimilanna, sem er besti mælikvarði á stöðu heimilanna í landinu, hefur aukist um nær þriðjung á síðustu átta árum. Heimilin í landinu hafa sem sagt þriðjungi hærri upphæð milli handanna til ráðstöfunar en fyrir átta árum.

Síðar í ræðu sinni segir hv. 4. þm. Austfirðinga um viðskiptahallann:

,,Gríðarlegur viðskiptahalli er undirrót gengisfalls krónunnar og þar með vaxandi verðbólgu og svimhárra vaxta. Ríkisstjórnin hefur ítrekað vakið vonir um að viðskiptahallinn minnkaði hratt á næstu árum. Samfylkingin`` --- segir hv. þm. Austurl. --- ,,hefur hins vegar bent á að gríðarleg skuldasöfnun þjóðarbúsins erlendis vegna þenslu af völdum ríkisstjórnarinnar vinni gegn hraðri minnkun viðskiptahallans. Af því tilefni er rétt að rifja upp að Þjóðhagsstofnun hefur einmitt bent á að sífellt auknar vaxtagreiðslur af erlendum skuldum leiddu til að halli á jöfnuði þáttatekna ykist umtalsvert. Þar af leiðandi yrði mun erfiðara að minnka viðskiptahallann en ella. Þetta virðist nú vera að rætast`` sagði hv. þm.

Hrakspár 4. þm. Austurl. um viðskiptahallann hafa ekki ræst og viðskiptahallinn er þvert á móti á hraðri niðurleið. Hann hefur verið samfelldur frá 1995 en hverfur nú á yfirstandandi ári. Stafar það ekki síst af auknum útflutningstekjum, m.a. af lyfjaframleiðslu og lækningatækjum sem hafa margfaldast á stuttum tíma. Einnig er minnkuðum innflutningi að þakka sem rekja má til aukins aðhalds í fjármálum fyrirtækja og heimila. Viðsnúningur hefur orðið í rekstri heimila og fyrirtækja sem hafa verulega dregið saman útgjöldin og eru að greiða niður skuldir sínar. Jafnframt hefur ríkissjóður lagt mikla áherslu á að greiða niður skuldir sínar í útlöndum. Til marks um það má nefna að vaxtagjöld ríkisins umfram vaxtatekjur hafa lækkað um 4,4 milljarða kr. á síðustu fjórum til fimm árum.

[18:30]

Herra forseti. Hv. þm. talaði einnig um að stýrivextir væru háir, væru um 10,1%, og bætti við, með leyfi forseta:

,,Fátt bendir hins vegar til þess að ríkisstjórninni takist með fjárlögum fyrir árið 2002 að skapa þær aðstæður að Seðlabankinn treysti sér til að lækka vexti.``

En hver er staðan nú? Þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi sýnt ýtrustu íhaldssemi í lækkun vaxta hefur bankinn lækkað vexti hratt og örugglega á síðustu mánuðum og voru þeir lækkaðir í 6,3% fyrr í þessum mánuði og spáð er frekari lækkun. Það er alveg ljóst að svartsýnisspár sem Samfylkingin hélt að landsmönnum fyrir réttu ári voru alrangar. Spár forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar um bætt efnahagsástand hafa hins vegar gengið eftir. Því endurtek ég það sem ég sagði við 1. umr. um fjárlögin að hlutskipti stjórnarandstöðunnar er ekki öfundsvert þegar hún er í þeirri stöðu að þurfa að finna einhverja veikleika á stöðu efnahagsmála.

Herra forseti. Í nýlegri spá OECD um þróun efnahagsmála í aðildarlöndunum fyrir árin 2002--2004 kemur fram að stofnunin er sammála mati fjmrn. í meginatriðum að teknu tilliti til þess að fjmrn. gerir ekki ráð fyrir virkjana- og álversframkvæmdum í spám sínum. Þannig spáir OECD tæplega 1,75% hagvexti á næsta ári og síðan tæplega 4% hagvexti árið 2004. Þá hefur stofnunin spáð um 2,8% verðbólgu á næstu tveimur árum sem er ívið hærra en fjmrn. hefur gert enda gera forsendur fjmrn. ekki ráð fyrir virkjana- og álversframkvæmdum í spám sínum, eins og ég sagði. Þá spáir stofnunin því að vextir muni lækka á næsta ári.

Þessi spá lofar góðu enda er haldið styrkum höndum utan um efnahagsmálin og þeim stýrt með næmni og innsæi eins og dæmin sanna. Allt sem forsrh. og fjmrh. hafa sagt um þróun efnahagsmála á þessu ári og á síðasta ári hefur gengið eftir þvert ofan í hrakspár stjórnarandstöðunnar.

Í nýlegu yfirliti sem birtist í bresku blaði kemur fram að af löndum ESB muni einungis Svíþjóð, Danmörk og Finnland skila tekjuafgangi af ríkissjóði á yfirstandandi og næsta ári. Öll önnur lönd ESB eru í mínus frá -1% til -3,5% og spáin fyrir allt evrusvæðið er rúmlega -2%. Nú eigum við eftir að sjá niðurstöðutölur fjárlaga fyrir næsta ár sem verða ljósar við 3. umr. um fjárlagafrv. En allt stefnir í að við verðum réttu megin við strikið og í hópi þjóða sem sýna bestan árangur, og það er ekki slæmur árangur.

Einn mælikvarði á sviði efnahagsmála er viðhorf og mat stjórnenda fyrirtækja til framtíðarþróunar efnahagsmála enda ræður samspil ráðstafana stjórnvalda og trú markaðarins á slíkum ráðstöfunum töluverðu um stöðuna og þróun á hverjum tíma.

Í nýlegu vefriti fjmrn. er birt könnun þess á stöðumati og væntingum stjórnenda 400 veltuhæstu fyrirtækja landsins. Tæplega 70% þeirra töldu að efnahagsástandið yrði betra eftir 12 mánuði en í dag, og 25% til viðbótar töldu að ástandið yrði óbreytt. Einungis tæplega 7% stjórnenda töldu að aðstæður í efnahagslífinu yrðu verri að 12 mánuðum liðnum. Yfir 75% fyrirtækja töldu að hagnaður fyrirtækisins yrði meiri eða svipaður og á yfirstandandi ári en á síðasta ári, og það skapar strax möguleika til launahækkana starfsmanna. Þetta segir sína sögu um stöðu efnahagsmála í landinu og trú stjórnenda stærstu fyrirtækja á áframhaldandi framþróun.

Herra forseti. Varðandi einstaka liði í tillögum meiri hluta fjárln. við 2. umr. fjárlagafrv. vil ég segja eftirfarandi: Ég hlýt að fagna þeirri hækkun sem Landspítali -- háskólasjúkrahús hefur fengið, bæði á fjáraukalögum sem voru til umræðu á hinu háa Alþingi í gær og hækkun á grunni um 700 millj. sem koma fram í fjárlagafrv. við 2. umr. Stjórnendur sjúkrahússins hafa lagt sig fram við að útskýra nákvæmlega í hverju aukinn halli sjúkrahússins liggur. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að gera verður róttækar breytingar á skipulagi heilbrigðiskerfisins, m.a. til að beina þeim sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda á rétt þjónustustig. Það er óviðunandi að Landspítala -- háskólasjúkrahúsi sé gert að taka á sig alla vankanta í þjónustu á öðrum þjónustustigum. Þá þarf að fara fram gagnger endurskoðun á rekstrarfyrirkomulagi í heilbrigðisþjónustu og gera samkomulag við einkaaðila um rekstur einstakra þátta.

Það gleður mig að Samfylkingin sé að breyta stefnu í þessum málum en Samfylkingin hefur hingað til þvertekið fyrir allar hugmyndir um breytt rekstrarform, úr ríkisrekstri í einkarekstur í heilbrigðisþjónustu. Sérstaklega fagna ég einnig stefnubreytingu Alþýðusambands Íslands í þessa veru.

Herra forseti. Ég hlýt einnig að fagna því að tekið er á vanda öldrunarstofnana en ljóst er að fara þarf nánar ofan í rekstur þeirra. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ábyrgð á rekstri öldrunarstofnana eigi að fara á hendur sveitarfélaga enda hefur reynslan sýnt, t.d. í reynslusveitarfélaginu Akureyri sem hefur sameinað félagsþjónustu, öldrunarþjónustu og heilsugæsluþjónustu, að slíkt leiðir til betri nýtingar á fjármagni, betri samhæfingar þjónustu og bættrar þjónustu við aldraða.

Herra forseti. Að lokum bendi ég á að í tillögum meiri hluta fjárln. eru tillögur um að styrkja margvísleg félagasamtök úr ríkissjóði til ýmissar starfsemi og verkefna. Meginstarf flestra þessara samtaka byggist á sjálfboðaliðastarfi og er styrkurinn því mikilvægur stuðningur við tiltekna starfsemi meðal ákveðinna hópa, t.d. sjúklingahópa eða aldurshópa svo sem unglinga og eldra fólks, starfsemi sem ríkið hefur ekki staðið að og í mörgum tilvikum eðlilegt og æskilegt að sé í höndum frjálsra félagasamtaka.

Því hefur verið haldið fram að fyrir hverja krónu sem ríkið setur í slíka starfsemi komi það fjármagn áttfalt til tífalt til baka með sjálfboðaliðastarfi og/eða eigin fjármögnun. Ég tek þetta fram til að benda á mikilvægi stuðnings ríkisins við þessa starfsemi og viðurkenningu á því.

Herra forseti. Ég læt hér staðar numið.