Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 18:38:45 (1795)

2002-11-27 18:38:45# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[18:38]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði að Seðlabankinn hefði sýnt ýtrustu íhaldssemi í lækkun vaxta en bankinn hefur lækkað vexti hratt og örugglega á síðustu mánuðum og eru þeir komnir núna í 6,3%. Það segir sig sjálft að almennir bankavextir lækka í kjölfarið. Það segir sig sjálft. Ég hef hins vegar ekki gert neina sérstaka úttekt á því hver staðan er núna. Ég hef bara ekki skoðað það.

Hins vegar tek ég undir það með hv. þingmanni að vextir eru allt of háir hér á landi. Þeir hafa verið of háir. Þeir eru of háir og þá þarf að lækka. Þá þarf að lækka hraðar en gert hefur verið.

Varðandi kaupmátt ráðstöfunartekna er það óumdeilt að þær hafa aukist um þriðjung á síðustu átta árum. Fólk hefur þriðjungi meira á milli handanna. Það er rétt að margir eru skuldsettir en þá er það vegna þess að fólk hefur tekið ákvarðanir um kaup á ákveðinni vöru eða húsnæði, eitthvað slíkt, og ekki gert sér grein fyrir því um leið og það tekur lán að það þarf að borga það til baka og það með vöxtum.

Ég held að ein mesta kjarabót hér á landi yrði lækkun vaxta. En ég held líka að við eigum að halda áfram þeirri stefnu að auka kaupmátt launa og það hefur verið gert ríkulega á síðustu árum.