Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 20:34:46 (1801)

2002-11-27 20:34:46# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[20:34]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að gera að umræðuefni orð sem féllu hér í dag, fyrst hjá hv. formanni fjárln. og síðan aftur hjá hv. þm. Ástu Möller, þegar rætt var um vexti.

Hér var rætt um að vextir hefðu lækkað og Seðlabankinn hefði lækkað stýrivexti. Allt er það rétt og ekki fór hv. formaður fjárln. með neitt rangt í því. Mér fannst hins vegar framsetning hv. þm. Ástu Möller nokkuð snúin, a.m.k. miðað við hvernig ég hef skilið þær upplýsingar sem hér hafa legið fyrir. Það vill svo til að hér liggur frammi þingskjal, svar við fyrirspurn hv. þm. Hjálmars Árnasonar um stýrivexti og vexti bankanna, þskj. 426. Þegar það er skoðað grannt og hvernig vaxtapólitíkin í þessu landi hefur verið kemur í ljós að stýrivextir Seðlabankans hafa lækkað. Þeir eru 1. nóv. komnir niður í 6,8%. Þá skyldi maður auðvitað ætla að bankakerfið sem hér hefur verið svo mikið til umræðu á undanförnum árum og missirum vegna þess að menn vildu selja það eða skipta því upp og finna því trygga og réttlita kaupendur, hefði fylgt Seðlabankanum eftir. En því er ekki að heilsa, því miður. Hæstu vextir bankanna á óverðtryggðum skuldabréfum eru enn þá yfir 15%, þessir venjulegu vextir sem venjulegur maður þarf að borga.

Bankarnir láta bíða eftir sér þó að stýrivextir Seðlabankans séu komnir niður í 6,8% og hafi lækkað verulega á undanförnum mánuðum. Þeir voru þegar hæst var 11,4% og hafa sem sagt lækkað um 7,20%. Þeim breytingum hefur ekki verið fylgt eftir í vaxtakjörum bankanna. Auk þessa eykst vaxtamunurinn. Ef maður ber saman tvö tímabil sést að vaxtamunur bankanna er verulegur. Ef við förum fjögur ár aftur í tímann og berum saman 1. janúar 1999 og 1. nóvember sl. hafa bankarnir á þessu tímabili aukið vaxtamun sinn á kjörvöxtum um frá 1,95%, Íslandsbanki; 2,40%, Búnaðarbanki og 2,35%, Landsbanki. Þannig hafa bankarnir aukið inntekt sína í prósentuvís af fjármunum sem þeir hafa lánað út. (GE: Það er gróði hjá þeim.)

Það er sem sagt ekki nóg að Seðlabankinn lækki stýrivexti þegar bankarnir sjá sér hag í að fylgja ekki á eftir, heldur auka inntekt sína af vöxtunum. Hið sama á við um hæstu vexti. Þar er Íslandsbanki lægstur, vaxtabil hans hefur aukist um 1,95%, en vaxtabil Búnaðarbankans um 2,40% og Landsbankans um 2,35.

Staðan er einfaldlega sú að þrátt fyrir vaxtalækkun Seðlabankans og að vissulega hafi orðið vaxtalækkun nokkur hjá bönkunum, því í apríl 2001 voru hæstu vextir bankanna um 19% og hafa sem sagt lækkað frá þeim tíma um 4%, hafa þeir tekið meira til sín að meðaltali, rúm 2% til viðbótar í vaxtamun. Þannig skil ég a.m.k. þessar upplýsingar.

Umræðan sem fór fram í dag um að hér nyti fólk betri kjara vegna lækkandi vaxta hljómaði því hálfundarlega. Það hefur vissulega átt sér stað vaxtalækkun, en bankarnir eru samt að taka til sín meira, því miður.

Maður veltir auðvitað fyrir sér hlutafélagavæðingu bankanna þegar svo er komið að bankarnir fylgja ekki eftir þeim vaxtakjörum sem þeir geta fengið heldur velta þeim áfram að hluta til yfir á þá sem taka hjá þeim lánin og taka meira til sín. Það hefur mikið verið talað um að með hlutafélagavæðingu bankanna mundu bankarnir fara í samkeppni, standa sig betur, veita betri kjör og keppa um viðskiptavinina. Þessi keppni hjá bönkunum snýst sýnist mér fyrst og fremst um hagnað þeirra sjálfra. Ég get ekki lesið annað út úr þessu, herra forseti.

Ég vildi draga þetta inn í umræðuna vegna þeirrar umræðu sem fram fór í dag um vexti og vaxtakjör og hve giftudrjúg stýring hefði verið á fjármálum þessa lands. Talað var um að Seðlabankinn hefði verið passlega íhaldssamur. Það kann að vera rétt. Ég dreg ekki í efa að Seðlabankinn hafi verið passlega íhaldssamur varðandi stýrivextina. Mér finnst hins vegar skrýtið að bankarnir hafi ekki fylgt á eftir með betri vaxtakjörum.

Ég vil líka koma örlítið inn á umræðu sem fram fór um að 20% stofnana fylgdu ekki fjárheimildum. Þar var vitnað þar til úttektar á ríkisreikningi. Það á auðvitað ekki að ganga þannig fyrir sig og eðlilegt að fjárln. taki það til sérstakrar skoðunar.

Hér hefur verið rætt um Landspítala -- háskólasjúkrahús og þá miklu fjármuni sem fara í þann málaflokk. Ég ræddi það örlítið þegar við vorum að ræða um fjáraukalögin og ætla ekki að endurtaka það. Ég vil þó segja að ekki verður hjá því komist að útgjöld á hátæknisjúkrahúsum munu fara vaxandi. Þar er veitt betri þjónusta. Þar eru dýrari tæki og aðgerðum fjölgar, samanlagt mun þetta kosta meira.

Hvað sem því líður er mjög æskilegt að halda uppi virku aðhaldi varðandi meðferð fjármuna í heilbrigðiskerfinu. Okkur ber auðvitað skylda til að reyna að nýta allt okkar fjármagn sem best, jafnt í heilbrigðiskerfinu sem annars staðar.

Herra forseti. Ég er 1. flm. að brtt. á þskj. 486 og ásamt mér stendur hv. þm. Jón Bjarnason tillögunni. Breytingartillagan er á þskj. 486 og er við fjárlagalið 07-704 Málefni fatlaðra, Vestfjörðum. Við leggjum til að í málaflokk fatlaðra á Vestfjörðum verði bætt 7 millj. kr. og að málaflokkurinn hækki úr 115,8 millj. í 122,8 millj. Hvers vegna skyldum við vera að leggja þetta til, herra forseti? Það er vegna þess að mér hafa borist spurnir um að það standi til að skera niður þjónustu við fatlaða á Vestfjörðum. Það tel ég í raun og veru alveg gjörsamlega óásættanlegt.

Það er verið að auka við þjónustuna við fatlaða sums staðar á landinu og það er vel, m.a. með samningum við Akureyrarkaupstað og samningum við Norðurland vestra, svo eitthvað sé nefnt, og víða á suðvesturhorni landsins. Þetta má allt lesa um í fjárlögum. Það er jákvætt en á sama tíma finnst mér óásættanlegt, herra forseti, að skera eigi niður þjónustuna á Vestfjörðum. Þess vegna er tillagan lögð fram. Ég hef haft spurnir af því að ef niðurskurðurinn gangi eftir, þ.e. fáist ekki þessir viðbótarfjármunir sem við höfum lagt til, geti farið svo að þjónustan sem veitt er á Hólmavík verði lögð af í einu lagi. Þar eru tvö stöðugildi sem þjónað hafa tveimur til þremur fötluðum einstaklingum.

[20:45]

Við hv. þingmenn erum hér með bréf sem barst til nefndasviðs frá sveitarstjórn Hólmavíkur um uppbyggingu á þjónustu fyrir fatlaða í Strandasýslu. Í því tjá þeir þá skoðun sína að þeir sækist eftir styrk og fjármunum til þess að auka þar þjónustu og byggja upp sambýli. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að mér finnst þessi afgreiðsla fjárln. stinga mjög í stúf að því er þetta varðar á Vestfjörðum. Ég get ekki fallist á þetta. Þess vegna legg ég það til ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni að þarna verði aukið í um 7 millj. kr. Það mundi þýða ef eftir yrði farið --- ég geri mér nú fyllilega von um að menn séu svo sanngjarnir að vilja a.m.k. halda þjónustunni á sama þjónustustigi og hún er. Tillagan gengur ekki lengra en það --- að það gangi þá eftir hér í hv. Alþingi að menn geti fallist á að samþykkja þessa brtt. sem gæti orðið til þess að ástandið yrði óbreytt og þjónustan yrði áfram veitt.

Herra forseti. Ég held ég fari rétt með það að ýmsir þeir samningar sem gerðir hafa verið um þjónustu við fatlaða að undanförnu hafa verið að hækka um 10--18%. En á sama tíma held ég að ég fari rétt með það að verið sé að hækka framlög til þjónustunnar á Vestfjörðum um 3,3%. Mér finnst mörg rök hníga að því að gera þetta og átta mig ekki alveg á því hvernig stendur á því að hv. fulltrúar í fjárln. tóku ekki þetta erindi til greina um málefni fatlaðra á Vestfjörðum.

Herra forseti. Ég vil aðeins víkja að því að hér var minnst á fjármuni sem renna til vegamála. Ég held að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi minnst á það fyrr í dag. Hann ræddi þá vítt og breitt um hagi lands og lýðs. Ég get svo sem verið honum sammála um ýmislegt (Gripið fram í: Um Hafró.) sem hann sagði. Ég hef t.d. hallast að því á undanförnum missirum að það sé mjög óeðlilegt að einhver vísindastofnun hafi einkarétt á því að rannsaka hafið. Ég er honum algjörlega sammála um það sjónarmið og er búinn að setja það fram lengi.

Svona rétt til að rifja það upp þá sendi ég nú þessari virðulegu stofnun, Hafrannsóknastofnun, sérstakan pappír snemmvetrar 1999 um hvaða árangursleysi hefði verið af uppbyggingu fiskstofna hér við land og hvernig tillögurnar hafi farið út og suður um það hvenær menn ættu von á uppbyggingu stofna og hvenær ekki. Ég þóttist sýna þar fram á það, með því að taka fyrir hverja fisktegundina á fætur annarri, að ekki stæði steinn yfir steini í þeim tillöguflutningi. Þetta skjal er til og liggur bæði uppi á Hafrannsóknastofnun og eins hjá hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála. Vel getur verið að ég birti það einhvern tíma. Ég féllst hins vegar á það á þeim tíma þegar ég lagði það fram að birta það ekki vegna þess að menn þóttust þurfa að líta á það og skoða. Þeir sögðu að margt væri í því sem þeir vildu taka til gaumgæfilegrar athugunar og jafnvel fara eftir. Það hefur nú orðið ansi lítið úr því. Í framhaldinu tókst mönnum svo að týna 600 þús. tonnum af þorski á tveimur árum. Ég ætla ekki að rekja þá sögu hérna núna en auðvitað er fullt tilefni til þess að ræða það sérstakalega.

En hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson vék að vegamálunum. Hann minnti réttilega á að fjármagn til vegamála, sem er að mestu leyti tekið af innflutningi bifreiða, þungaskatti eða öðrum gjöldum sem tengjast ökutækjum, þ.e. að þeir fjármunir væru ekki allir notaðir til vegamála. Það er alveg rétt. Vörugjöld af ökutækjum eru um 3,2 milljarðar og vörugjald af bensíni um 7,4 milljarðar. Um 10,50 kr. á hvern lítra renna til ríkissjóðs af þessum 7,4 milljörðum. Það eru þá um 2 milljarðar. Bifreiðagjöldin gefa 3 milljarða og þungaskatturinn gefur 5 milljarða. Samanlagt gefur þetta milli 18 og 19 milljarða í tekjur.

Samkvæmt fjárlagafrv. er áætlað að verja til vegamála um 12,5--12,8 milljörðum. Því er alveg hárrétt að þarna ganga af nokkrir milljarðar, sennilega um 6 milljarðar, sem renna til ríkisins af því fé sem tengist ökutækjum með einhverjum hætti og er innheimt af ríkissjóði. Það má auðvitað finna fyrir því rök að hægt sé að nota meiri fjármuni til vegamála. Ég er sammála þeim mönnum sem hafa haldið því fram að við gerum fátt betra en að bæta samgöngur hér á landi. Ég hef sagt það nokkrum sinnum í þessum ræðustól og flutt um það tillögur að það sem ég kalla almennilega og varanlega vegagerð er að hætta fjallaklifrinu og fara undir fjöllin og yfir firðina þar sem það á við og taka almennilega á í að stytta vegalengdir. Það er mjög auðvelt tæknilega. Það er sennilega tæknilega hægt að stytta t.d. vegalengdina frá Ísafirði úr þeim 436 km sem hún er í dag þegar keyrt er yfir Þorskafjarðarheiði --- hún er hins vegar 480--490 km þegar eknar eru Strandir --- sennilega niður í 380 km gæti ég trúað. Mér kæmi það ekki á óvart ef rétt væri staðið að málum.

Það væri m.a. hægt að gera með því að hætta þeim fíflaskap að reyna að byggja upp t.d. Súðavíkurhlíðina og endurtaka Óshlíðarævintýrið heldur fara þar í gegn og losa sig þar við nokkra tugi kílómetra, sennilega um eina 20--23 km. Þannig væri hægt að halda áfram. Það er líka hægt að þvera firði eins og sýnt hefur sig í Dýrafirði og Gilsfirði, sem er einhver besta vegabót sem gerð hefur verið fyrir Vesturland og Vestfirði, að ég minnist nú ekki á Vestfjarðagöng og Hvalfjarðargöng sem hvor tveggja eru merkileg mannvirki. Það hefur sýnt sig, þó að margir hefðu litla trú á Hvalfjarðargöngunum, að sennilega hefur engin framkvæmd í samgöngulegu tilliti þjónað landsmönnum eins vel og einmitt gerð Hvalfjarðarganganna.

Eftir því sem vegalengdir styttast og vegirnir batna þá færast auðvitað flutningar yfir á vegina. Það þýðir auknar tekjur af ökutækjum. Fjármunir til vegagerðar ættu þá að geta aukist. En það þýðir líka að önnur flutningatækni víkur, t.d. flutningar með skipum. Flutningar með flugvélum munu líka gefa eftir þegar vegalengdir styttast. Þetta vitum við. Það hefur ekki þurft lagaboð til að leggja niður t.d. flugvöllinn á Blönduósi sem farþegaflugvöll eða flugvöllinn í Stykkishólmi. Það gerðist einfaldlega með bættu vegakerfi. Fólkið tók þá ákvörðun sjálft.

Herra forseti. Ég er einnig meðflutningsmaður tillögu um að stofna til framhaldsskóla á Snæfellsnesi. Ég tel að það sé mjög brýnt mál. Ekki er hægt að ætlast til þess að fólk sendi unglinga um langveg til þess að stunda nám fjarri heimili sínu árum saman. Margar hættur eru á vegi ungmenna nú til dags og kem ég aðeins að því hér á eftir þegar ég vík að fíkniefnamálum. Ég tel að þeir 350 unglingar sem núna eru á svæðinu Snæfellsbær, Grundarfjörður, Helgafellssveit, Stykkishólmur og foreldrar þeirra eigi rétt á því að þar verði stofnað til framhaldsskóla. Það verður ekki undan því vikist. Þá er ég ekkert að gera lítið úr því að framhaldsskóli er á Akranesi. En fólk gerir einfaldlega kröfu til þess að hafa framhaldsskóla sem næst sínum byggðakjörnum og það er hægt með bættum og batnandi samgöngum og styttingu vegalengda á norðanverðu Snæfellsnesi. Þá er auðvitað hægt að hafa þar einn framhaldsskóla sem nýtist svæðinu. Ég tel að menn eigi að fara að vinna vel að því og þess vegna er ég meðflutningsmaður tillögu um að lagt verði fé í að hefja undirbúning að gerð og stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi.

Ég tel það óviðunandi framtíð fyrir fjölskyldur og ungmenni á norðanverðu Snæfellsnesi að þurfa enn að una því að þar rísi ekki framhaldsskóli. Ég spái því draga muni til þess að menn sjái það og þingmenn margir ábyggilega, fleiri en þeir sem þessa tillögu flytja. Ég held að ég hafi séð í tillögum Samfylkingarinnar sams konar tillögu um undirbúning að stofnun framhaldsskóla á nesinu. Ég vonast því vissulega til þess að menn séu tilbúnir að vinna að því.

Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson er 1. flutningsmaður að tillögu um kræklingaeldi sem ég er meðflutningsmaður að. Ég tel að sú tillaga sé meira en tímabær. Við leggjum til að lagðar verði 10 milljónir í þróun kræklingaeldis. Í dag eru tveir til þrír aðilar hér á landi komnir nokkuð vel af stað með kræklingaeldið. En hins vegar vantar herslumuninn í að nýta skelina þegar hún er vaxin, þ.e. koma henni fyrst í sérstaka poka til þess að halda henni í eldinu áfram, nýta hana síðan, vinna úr henni og selja hana sem vöru úr landi.

Þeir sem að þessu eldi hafa staðið eru ekki einhverjir þeirra gríðarstóra aðila sem hafa staðið hér fyrir samþjöppun í sjávarútvegi á undanförnum árum heldur eru þetta einstaklingar og minni fyrirtæki. Ég tel að það sé mjög gott að það skuli þróast þannig og vil eindregið ýta undir þá þróun að hægt sé að vera með þetta í minni einingum þannig þetta verði búskapur eða ræktun sem nýtist vítt og breitt um landið því að eldið á að geta það eðlis síns vegna. Þetta er eldi sem þarf ekki að bera neina fæðu í. Það þarf eingöngu að finna heppileg skilyrði fyrir skelina til að vaxa.

Þetta hefur verið stundað, eins og ég segi, m.a. í Arnarfirði og við Hrísey. Vöxturinn er í lagi en það vantar hersluátakið til að koma þessu á framleiðslustig. Við leggjum þess vegna til að í þetta verkefni verði settar 10 milljónir og veittir styrkir til þeirra aðila sem núna eru komnir þetta langt og þeim gert kleift að komast yfir á framleiðslustigið þannig að þeir fari að sjá í þessu fjármuni. Þeir fjármunir munu í framtíðinni örugglega skila sér fyllilega til baka til ríkisins.

Vonandi geta fleiri farið í þetta eldi því eins og ég sagði áðan þá háttar örugglega víða svo til að stunda má kræklingaeldi með góðum árangri án þess að um neinn stórrekstur sé að ræða. En þá verða menn auðvitað að hafa einhverjar stöðvar þangað sem þeir geta sent kræklinginn til að hægt sé að koma honum áfram, vinna hann og selja hann á erlendum markaði. Markaðarnir eru mest í nágarannalöndum okkar. Þó að við Íslendingar flytjum nokkuð inn af kræklingi þá er íslenski markaðurinn ekki stór og ekki verður byggt á honum einum. Þess vegna er þetta nú lagt til, herra forseti.

Ég sagði áðan að ég ætlaði að víkja í örstuttu máli að fíkniefnavandanum. Mig langar að gera hann í lokin að örstuttu umræðuefni. Í fyrsta lagi hefur komið í ljós á undanförnum missirum, því miður, að fíkniefnavandinn er að teygja sig til æ yngri ungmenna landsins. Þess vegna held ég að nauðsynlegt sé að fræða jafnvel ung börn um skaðsemi fíkniefna. Það taldi maður nú fyrir nokkrum árum að væri ekki nauðsynlegt. En ég held að það sé orðið mjög nauðsynlegt í dag og að það eigi að byrja meðan börnin eru tiltölulega ung, sex, sjö ára gömul, að fræða þau um fíkniefni og halda þeirri fræðslu áfram upp í gegnum skólann. Ég tel að þannig sé skynsamlega að verki staðið. Það á að reyna að fá börnin til að skilja að betra er að byrja aldrei.

[21:00]

Ég hef kynnst örlítið verkefni sem gefið hefur verið það einkennilega nafn ,,Ég er húsið mitt`` og er til þess að kynna þessa vá fyrir börnum og ungmennum. Ég hefði talið það verðugt verkefni fyrir fjárln. að styrkja nokkuð vel. Ég held að ég hafi séð í fjárlagatillögum meiri hlutans að til þessa verkefnis hafi verið veitt 500 þús. kr. og það er auðvitað góður vísir en það hefði örugglega mátt gera betur í þeim efnum.

Síðan er annar endi á þessu fíkniefnamáli sem ég vil ræða, vandinn þegar kemur að því að taka á þessum hörðu neytendum, þeim sem eru komnir á kaf í fíkniefni, orðnir brotamenn í þjóðfélaginu og gera nánast allt til þess að ná sér í þá nautn og það eitur sem þeir hafa svo mikla þörf fyrir. Það er auðvitað svo að nokkrir aðilar hér á landi og nokkur samtök eru að berjast með þessum einstaklingum í því að reyna að rétta þá við. Við þekkjum til Krýsuvíkursamtakanna. En mig langar að gera önnur samtök að umræðuefni, eða sambýli eða hvað á að kalla það, og það er Byrgið. Ég tel að þar sé verið að takast á við vanda fólks sem oft og tíðum er mjög illa fyrir komið varðandi eiturlyf og önnur fíkniefni. Það er einnig oft og tíðum fólk sem getur illa gengið laust í þjóðfélaginu og þarf sérhæfða aðstoð. Ég hef trú á því að það sem menn hafa verið að gera í Byrginu vestur á Miðnesheiði sé þjóðfélagi okkar mjög verðmætt. Það er verðmætt að geta látið einstaklingana vera þar sem þeir fá einhverja umsýslu og þjónustu og þar sem haldið er að þeim þeim skoðunum að þeir eigi enga leið til baka aðra en að hætta, hin leiðin leiði bara til dauðans. Þarna er fólk sem er svo illa fyrir komið að það verður ekki betur tekið á því annars staðar en verið er að gera með þessari starfsemi.

Þess vegna er ég dálítið undrandi á þessari skammsýni. Ég beini því til hæstv. fjmrh. og fjárln. að málið verði skoðað upp á nýtt því ég hef ekki fundið neina fjárveitingu til þessara samtaka í fjárlagafrv. og heldur ekki í brtt. meiri hlutans. Ég vonast til þess að þeir sem ráða fjármálum og pólitík í þessu landi, sem er auðvitað ríkisstjórnin, skynji alvarleikann sem felst í fíkniefnavanda fólks sem er komið í harða neyslu og afbrot. Ég hvet því til þess að áður en menn koma hingað aftur til að afgreiða þetta frv. endanlega við 3. umr. verði tekið af fullri einurð á því að fjármagna eða styrkja þau samtök sem hafa sýnt sig geta leyst vanda fólks sem er komið í mikinn og alvarlegan vanda. Ég held að við getum ekki farið miklu betur með fjármuni okkar en svo.

Ég leyfi mér að treysta því að skynsamir og réttsýnir þingmenn sem starfa í fjárln. skoði þetta mál af mikilli kostgæfni, hvernig megi betrumbæta og styðja við þessa viðleitni sem ég hef hér gert að umræðuefni.

Síðan vil ég, herra forseti, í lokin endurtaka spurningar mínar til hæstv. fjmrh. Hann lofaði mér þegar ég spurði hann að því hér síðast að upplýsa mig. Ég er hér með ræðu hans sem ég ætla ekki að lesa. Ég veit, eins og forseti orðaði það í dag, að þingmenn eru langminnugir og þá treysti ég því að ráðherrar séu það líka.

Spurningarnar voru svona, herra forseti:

Hversu mikil er lækkunin á milli áranna 2001 og 2002? Hversu mikið af henni má rekja til gengisbreytinga skuldarinnar? Skuldirnar lækka um 30 milljarða frá árinu 2001 til áætlunar 2002. Hversu mikið af þessum 30 milljörðum er gengisbreyting?

Í annan stað langaði mig líka til að vita hversu mikill hluti af þessari breytingu gæti t.d. tengst vaxtalækkunum á dollara í Bandaríkjunum. Mér þætti gott að fá svar ef hægt er að svara því, það byggist auðvitað á samsetningu skulda okkar.

Í þriðja lagi langar mig til að spyrja --- ég hef ekki fundið svarið en það kann að vera ókunnugleiki minn --- hvort fjmrh. hafi upplýsingar um hvaða meðalvextir eru af heildarlánum ríkissjóðs.

Þessar voru spurningarnar sem ég beindi til fjmrh. fyrst við 1. umr. fjárlaga og síðan vakti ég athygli á þeim í umræðunni um fjáraukalögin. Eins og ég sagði áðan veit ég að ráðherra man að hann lofaði mér að finna þessi svör og ég óska hér með eftir því að þau svör liggi fyrir áður en við förum í gegnum rökræðuna sem mun fylgja málinu við 3. umr. Ég þykist auðvitað vita að þá muni menn halda því fram að skuldir ríkissjóðs hafi lækkað sérstaklega fyrir tilverknað stjórnarflokkanna. Þá vil ég að þessar tölur séu á hreinu þannig að við séum ekki að rífast um staðreyndir, herra forseti. Það er alveg óþarfi, við höfum nóg að rífast um samt.