Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 21:10:22 (1804)

2002-11-27 21:10:22# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[21:10]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Því er við fyrra svar mitt að bæta að á árinu 2001 veiktist krónan mjög mikið eins og kunnugt er og af þeim sökum hækkuðu erlendu skuldirnar verulega. 20% veiking varð á gengi krónunnar og erlendar skuldir hækkuðu þar af leiðandi í krónum talið um á að giska 28 milljarða kr. Það verður að hafa það líka með í reikningnum þegar verið er að fara yfir þetta, það gengur ekki að taka bara eitt ár, það þarf að taka alla sveifluna upp og niður.

Ef maður skoðar þetta í samhengi við þjóðarframleiðsluna hækkuðu skuldirnar vegna veikingar krónunnar um 3,8% en gengu til baka um 2% eins og ég sagði áðan vegna styrkingar krónunnar. Eigi að síður, ef litið er á þetta mál í heild, hafa heildarskuldir, innlendar og erlendar brúttó, lækkað úr 34,5% af landsframleiðslu í 33,6%. Samt hækkuðu nettóskuldirnar vegna gengisbreytinganna á árunum tveimur sem við erum að tala um. Lækkun skuldanna er því ekki hægt að rekja til gengisbreytinga, þvert á móti, heldur til niðurgreiðslna á skuldum, sérstaklega á þessu ári þegar landsframleiðslan, nefnarinn í jöfnunni, er óbreytt að raungildi.

Ég má til með að koma hér að öðru máli, herra forseti, úr því að þingmaðurinn nefndi það. Ég tel að það sé afar villandi að tína til öll gjöld sem innheimt eru af bifreiðum og bílaeigendum í landinu og segja sem svo: Þessir peningar ættu allir að renna til vegamála. Það er ekkert þannig samkvæmt lögum. Það eru ákveðnir markaðir tekjustofnar, þungaskattur og sérstakt bensíngjald, sérstakt vörugjald á bensínið, sem eiga að renna til vegamála. Hin gjöldin eru bara almenn skattheimta til þess að fjármagna m.a. ýmislegt af því sem hv. þm. ber fyrir brjósti og var að tala um. Og staðreyndin er sú að mörkuðu tekjustofnarnir hafa ekki nægt fyrir þeim útgjöldum sem við höfum ákveðið til vegamála og við höfum þurft að bæta við 1.200 millj. af almennum skatttekjum á næsta ári samkvæmt fjárlagafrv.