Útskriftir fatlaðra af Landspítala -- háskólasjúkrahúsi í Kópavogi

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 10:33:47 (1809)

2002-11-28 10:33:47# 128. lþ. 38.3 fundur 68. mál: #A útskriftir fatlaðra af Landspítala -- háskólasjúkrahúsi í Kópavogi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[10:33]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Í fyrra var lokið við útskrift 42 vistmanna af Kópavogshæli í sambýli. Þá var þessum fyrsta áfanga lokið. Hinn 24. janúar sl. var skrifað undir samkomulag milli félmrh. og heilbr.- og trmrh. um flutning reksturs og þjónustu við íbúa í húsi 15 á lóð Landspítala -- háskólasjúkrahúss í Kópavogi til Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Þjónustan við umrædda heimilismenn og ábyrgð á henni fluttist þá öll til Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi 1. júní 2001. Framkvæmd samningsins sem er í 11 greinum hefur haft margar breytingar í för með sér, bæði fyrir heimilismenn og starfsmenn. Í samningnum er kveðið á um þætti sem snúa m.a. að einstaklingsmálum, starfsmannamálum og samráði við aðstandendur. Samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir að ákvæði hans verði komin til framkvæmda 15. maí 2003. Til að standa sem best að framkvæmdinni var ráðinn sérstakur verkefnisstjóri. Gert er ráð fyrir að 20 íbúar í húsi 15 á lóð Landspítalans flytjist í þessum áfanga og eftir þennan flutning mun ekki lengur boðið upp á búsetu fyrir fatlaða í þessu húsi. Félmrn. hefur í samvinnu við Öryrkjabandalagið leitað að heppilegu húsnæði til starfrækslu á fimm heimilum fyrir væntanlega íbúa. Á vormánuðum 2002 voru keyptar tvær fasteignir, önnur við Skagasel í Reykjavík og hin við Svöluhraun í Hafnarfirði. Þangað eru fluttir níu einstaklingar. Heimilið við Svöluhaun varð fyrst til að hefja starfsemi í þessum útskriftaráfanga og var það opnað formlega 17. október sl.

Þá hefur verið opnað sambýli við Skagasel í Reykjavík og keypt hafa verið hús við Miðskóga á Álftanesi og Erluás í Hafnarfirði. Þess er að vænta að þessi tvö heimili taki til starfa á vordögum 2003. Eftir er að finna húsnæði fyrir eitt heimili í Reykjavík en erfiðlega hefur gengið að finna hentugt húsnæði. Það er þó unnið ósleitilega að því og þá er búið að koma þeim fyrir, þessum 20 sem samkomulagið gerði ráð fyrir.

Í 10. gr. samkomulagsins milli félmrh. og heilbr.- og trmrh. sem undirritað var 24. janúar segir:

,,Stefnt verði að samkomulagi milli félagsmálaráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um búsetu og þjónustu við þá 15--17 fötluðu einstaklinga sem þá verða eftir í húsnæði Landspítala í Kópavogi og talið rétt að flytja þaðan.``

Hér sagði 15--17 en þessi tala mun vera lægri. Það mun vera rétt sem hv. fyrirspyrjandi fór með, þ.e. 12--15 geta hugsanlega flutt á sambýli eða hafa getu til þess að það henti þeim að vera þar.

Félmrn. lítur svo á að nauðsynlegt sé að meta framvindu núverandi samkomulags í lok tímabilsins og fara síðan í skoðun á því hvernig staðið verði að því að finna þeim sem þá verða eftir í húsnæði Landspítalans búsetu við hæfi. Við í ráðuneytinu erum þeirrar skoðunar að það hafi tekist mjög vel til með allan undirbúning og framkvæmd þessa samkomulags, bæði að því er varðar íbúa, foreldra þeirra og aðra aðstandendur, starfsmenn og þá sem að samkomulaginu hafa komið.