Einelti á vinnustað

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 11:03:05 (1818)

2002-11-28 11:03:05# 128. lþ. 38.5 fundur 139. mál: #A einelti á vinnustað# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[11:03]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það fór eins og mig grunaði að þær athuganir sem þegar hafa verið gerðar sýna að niðurstöðurnar eru mjög svipaðar og þegar gerðar hafa verið heildarúttektir á vinnustöðum annars staðar á Norðurlöndunum enda í sjálfu sér engin ástæða til að ætla annað.

Það þarf fyrir það fyrsta að gera heildarúttekt á einelti á vinnustöðum. Það þarf að gera könnun þannig að tölur liggi fyrir svo að hægt sé að taka á og leita leiða til úrbóta. Eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan þarf að nota leiðir eins og þá sem hefur verið farin í Noregi, sem er sérstaklega til fyrirmyndar, leita sambærilegra leiða hér á landi, og einnig að koma upplýsingum á vinnustað til starfsmanna um það hverjir möguleikar þeirra séu. Komið hefur í ljós, t.d. hjá VR sem gerði könnun á þessu og hefur verið með töluvert gott upplýsingastreymi til starfsmanna, að mjög fáir vita hver réttur þeirra er og hvernig þeir geta fylgt því eftir ef þeir verða fyrir áreitni eða einelti á vinnustað. En vissulega ber þeim sem stýra hverjum vinnustað að sjá til þess að starfsumhverfið sé í lagi.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi trú á því að aukin samkeppni meðal þeirra sem vinna á sama stað geti leitt af sér einelti og hvort skoðun hans sé sú að þær breytingar sem gerðar voru á kjarasamningum BSRB þegar þeir voru færðir meira inn í stofnanasamninga og umbunargreiðslur teknar upp geti hugsanlega hafa orðið til þess að einelti á vinnustöðum hafi aukist.