Atvinnuleysisbætur

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 11:10:23 (1821)

2002-11-28 11:10:23# 128. lþ. 38.6 fundur 231. mál: #A atvinnuleysisbætur# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[11:10]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Spurt var hve háar atvinnuleysisbætur yrðu á mánuði miðað við 100% bótarétt ef greiðslur væru miðaðar við taxta fiskvinnslufólks (starfsaldursþrep eftir sjö ár) eins og gert var fram til ársins 1997.

Í lögum um atvinnuleysistryggingar voru atvinnuleysisbætur miðaðar við átta klukkustunda dagvinnu í almennri fiskvinnu. Þessum viðmiðunum var breytt í 26. gr. laga nr. 144/1995. Atvinnuleysisbætur frá þeim tíma hafa tekið mið af almennri launaþróun í landinu. Ef eldra viðmið væri notað væru atvinnuleysisbætur 88.351 kr. á mánuði sem er gildandi taxti almenns fiskvinnslufólks eftir sjö ára starf samkvæmt kauptaxta Starfsgreinasambandsins.

Síðan var spurt hverjar væru heildargreiðslur á ári til atvinnulausra miðað við 100% bótarétt annars vegar ef miðað væri við það viðmið sem gilti fyrir árið 1997 (taxta fiskvinnslufólks, starfsaldursþrep eftir sjö ár) og hins vegar ef miðað væri við hámarksbætur samkvæmt gildandi ákvæði 7. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Svarið er: Ef bótaupphæð væri samkvæmt gildandi taxta almenns fiskvinnslufólks eftir sjö ár væri greiðsla á ári 1 millj. 60 þús. 212 kr. Hins vegar eru gildandi bætur í 12 mánuði samkvæmt gildandi kerfi 885.180 kr.

Þriðja spurningin var hverjar væru heildargreiðslur á mánuði ef atvinnuleysisbætur miðað við 100% bótarétt hefðu tekið mið af breytingu á launavísitölu frá 1997.

Launavísitala 1997 var 148,8 og í september sl. var hún 227,2. Hækkunin var sem sagt 52,7%. Atvinnuleysisbætur í janúar 1997 voru 53.785. Ef atvinnuleysisbæturnar hefðu hækkað samkvæmt launavísitölu hefðu 100% bætur verið 82.123 í september.

Síðan spurði hv. þm. hvort ég væri reiðubúinn að beita mér fyrir því að hækka atvinnuleysisbæturnar og breyta viðmiði þeirra, t.d. að þær hækkuðu í samræmi við launavísitölu, og að hætt yrði að skattleggja þær?

Upphæð atvinnuleysisbóta verður endurskoðuð um næstu áramót eins og venjulega og hækkaðar a.m.k. um meðaltalslaunahækkun í landinu, eða ríflega það.

Hvað varðar skattamálin ætla ég ekki að svara þeirri spurningu því að ég tel að henni ætti að beina til fjmrh.