Atvinnuleysisbætur

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 11:17:31 (1824)

2002-11-28 11:17:31# 128. lþ. 38.6 fundur 231. mál: #A atvinnuleysisbætur# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[11:17]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Vinnumálastofnun hefur reiknað út að hvert prósent í atvinnuleysi á ársvísu kosti í kringum 1 milljarð kr. Atvinnuleysisbætur hafa undanfarin ár hækkað til jafns við meðaltalshækkun lífeyris almannatrygginga. Hefur sú ákvörðun miðast við áramót.

Atvinnuleysisbætur eiga að vera eitthvað lægri en fiskvinnslutaxtinn vegna þess að það þarf að vera hvati til þess að taka vinnu, þ.e. menn eiga að fá launalega umbun, einhverja umbun fyrir að taka vinnu. Það hefur engin ákvörðun verið tekin enn um hækkunarprósentuna á atvinnuleysisbótunum. Hún bíður áramótanna.

Sem betur fer er atvinnuleysi sem við höfum átt við að glíma tímabundið og tiltölulega lítill hópur sem er búinn að vera lengi atvinnulaus, sem betur fer. Við verðum að vona að það dragi úr aukningu atvinnuleysis, sem hefur verið nokkur á undanförnum mánuðum. Atvinnuleysið var næstum því ekkert þannig að öll aukning virkar nokkuð mikil en ég legg áherslu á að von er á hækkun atvinnuleysisbótanna um næstu áramót þó að ég sé ekki tilbúinn að greina nákvæmlega frá því hver hún verður í prósentum.