Atvinnu- og dvalarleyfi útlendinga

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 11:27:13 (1828)

2002-11-28 11:27:13# 128. lþ. 38.7 fundur 262. mál: #A atvinnu- og dvalarleyfi útlendinga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[11:27]

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin sem voru að mínu mati mjög greinargóð og skýr. Það var ágætt að fá fram álit hæstv. félmrh. á því hvar þessi málaflokkur eigi heima. Ég ætla ekki að karpa um það við hann hvernig nákvæmlega eigi að setja þessi mál niður.

Ég vil hins vegar benda á það sem m.a. kom fram á fundi Lögfræðingafélagsins í Svartsengi ekki alls fyrir löngu, þá kom skýrt fram að dvalarleyfin eru fleiri. Það eru gefin út fleiri dvalarleyfi en atvinnuleyfi. Það hlutfall er að aukast. Eins hefur verið bent á hitt, að við útgáfu dvalarleyfa skipta tengsl útlendingaeftirlitsins við Schengen-svæði afar miklu máli, að þeir sem gefa út dvalarleyfi og atvinnuleyfi geri sér grein fyrir mikilvægi Schengen-svæðisins eins og þeir sem koma inn á það svæði.

Ég vil undirstrika að það er gott samráð á milli Útlendingaeftirlitsins og Vinnumálastofnunar. Engu að síður ítreka ég að mikil krafa er um það á meðal þeirra sem að þessum málum koma að þessi málefni fari undir einn og sama hattinn. Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að segja nákvæmlega hvar það á að vera. Ég vonast hins vegar til að þeir ráðherrar sem eiga hér hlut að máli setjist niður og ræði hvernig því fyrirkomulagi yrði best háttað.