Atvinnu- og dvalarleyfi útlendinga

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 11:28:59 (1829)

2002-11-28 11:28:59# 128. lþ. 38.7 fundur 262. mál: #A atvinnu- og dvalarleyfi útlendinga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[11:28]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um að besti kosturinn sé að sameina þetta verkefni undir einu ráðuneyti. Eins og ég sagði áðan lít ég svo á að rétt væri að hafa það undir hatti félmrn. En við höfum valið næstbesta kostinn sem gengur út af fyrir sig ágætlega og hefur ekki skapast neitt vandræðaástand.

Sá farvegur sem við höfum valið við veitingu atvinnuleyfa hefur nýst vel, þ.e. það eru ekki nema sumir sem þurfa atvinnuleyfi hér, sem sagt borgarar sem eru utan Evrópska efnahagssvæðisins. Erlendir íbúar Evrópska efnahagssvæðisins hafa sama rétt á Íslandi og við sjálf og geta hvenær sem þeim sýnist komið hingað og leitað sér að vinnu. Hins vegar eru þeir sem eru utan Evrópska efnahagssvæðisins skyldugir að fá atvinnuleyfi áður en þeir hefja störf, þ.e. atvinnurekandinn fær leyfið en ekki starfsmaðurinn. Ég tel að það sé mjög mikilvægt því að annars væri hætta á því að starfsmaðurinn lenti í reiðuleysi og hugsanlega atvinnuleysi.