Samningur Vegagerðarinnar og Samskipa um rekstur Herjólfs

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 11:43:09 (1835)

2002-11-28 11:43:09# 128. lþ. 38.9 fundur 292. mál: #A samningur Vegagerðarinnar og Samskipa um rekstur Herjólfs# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi LB
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[11:43]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. um samning Vegagerðarinnar og Samskipa um rekstur Herjólfs, þ.e. breytingar sem gerðar voru á upphaflegum samningi og viðbót við hann. Samningur þessi kveður m.a. á um fleiri ferðir milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar og fyrir það ber að þakka því að þetta er meginsamgönguæð Vestmanneyinga og skiptir því miklu máli að þeir hlutir séu í góðu lagi. En það skiptir líka miklu máli að bæjarstjórn Vestmannaeyja og fleiri aðilar hafi aðgang að þessum samningi og geti komið að honum. Þess vegna hefur vakið sérstaka athygli mína og fleiri sem að þessu hafa komið hvílík leynd hvílir yfir þeim samningi og ekki síst í ljósi þess að í viðbótarsamningi, viðaukasamningi um rekstur Herjólfs sem gerður var 8. febr. 2002 kemur fram að samningi um Herjólf sem þá var í gildi verði ekki breytt nema aflað sé samþykkis bæjarstjórnar. Þrátt fyrir þetta ákvæði hefur ekki tekist að fá þennan samning til skoðunar og þrátt fyrir að bæjarstjórn Vestmannaeyja hafi fjallað um að fá samninginn hefur ekki tekist að fá hann. Bæjarráð hefur fjallað um hann og eins hefur bæjarstjóra verið falið að afla samningsins en það hefur ekki tekist. Margvísleg mál eru í samningnum, ekki bara um fjölda ferða, sem bæjarstjórn hefði viljað koma að fyrst og fremst vegna þess að þetta er meginsamgönguæð Vestmanneyinga. Það sem skiptir miklu máli er til að mynda hvernig nýting á bílaþilfari er. Samskipsmenn geta nú nýtt 50% af því plássi sem þarna er undir vöruflutninga og það þætti mörgum örugglega mjög sérstætt ef það væri t.d. þannig með Reykjanesbrautina að menn gætu ekki keyrt um hana sökum þess að svo miklir vöruflutningar væru í dag. En þannig hefur það oft og tíðum verið með þá sem vilja fara með bíla til og frá Eyjum að þeir hafa ekki komist vegna vöruflutninga. Þess vegna skiptir þetta miklu máli.

Fleiri atriði eru þarna inni eins og nýting á skipinu. Einnig er kveðið á um afslátt á hafnargjöldum. Þess vegna eru margvísleg atriði sem lúta að bæjarstjórn Vestmannaeyja. Því beini ég eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. ráðherra:

Hver er aðild bæjarstjórnar Vestmannaeyja að samningi Vegagerðarinnar og Samskipa um rekstur farþega-, bíla- og vöruflutningaferjunnar Herjólfs?

Það er einfaldlega þannig að fyrir samfélag eins og Vestmannaeyjar þá getur það aldrei nokkurn tíma afsalað sér þeim rétti að geta skipt sér af hvernig meginsamgönguæð þeirra er háttað og hvernig henni er stjórnað. Því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. samgrh. hvernig hann telji að aðild bæjarstjórnar Vestmannaeyja verði best komið í þessum efnum.