Samningur Vegagerðarinnar og Samskipa um rekstur Herjólfs

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 11:46:30 (1836)

2002-11-28 11:46:30# 128. lþ. 38.9 fundur 292. mál: #A samningur Vegagerðarinnar og Samskipa um rekstur Herjólfs# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[11:46]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson spyr: ,,Hver er aðild bæjarstjórnar Vestmannaeyja að samningi Vegagerðarinnar og Samskipa um rekstur farþega-, bíla- og vöruflutningaferjunnar Herjólfs?``

Svar mitt er þetta: Þegar unnið var að gerð útboðsgagna vegna reksturs Herjólfs á árinu 2000 fékk bæjarstjórn Vestmannaeyja gögnin til umsagnar en var að öðru leyti ekki aðili að útboðs- eða samningsferlinu. Í þjónustusamningnum við Samskip hf. er hins vegar í fjórum tilvikum tilgreint að bæjarstjórn Vestmannaeyja skuli koma að málum varðandi samninginn, þ.e. ef breyta á tímaáætlun eða gjaldskrá, fjölga ferðum og varðandi það hvernig leysa skuli fjarveru Herjólfs vegna slipptöku. En engin ákvæði eru í samningnum þess efnis að hann skuli borinn undir bæjarstjórn Vestmannaeyja til staðfestingar eða samþykktar.

Á öllum framangreindum atriðum var tekið í þríhliða samningi milli bæjarstjórnar Vestmannaeyja, Vegagerðar og Samskipa sem undirritaður var 8. febrúar 2002 og var í framhaldi af þeim samningi gerður viðauki við þjónustusamninginn milli Vegagerðar og Samskipa.

Í vor sem leið skipaði ég starfshóp til þess að fjalla um samgöngur til Vestmannaeyja með þarfir fólks og atvinnulífs í huga. Í hópnum eru m.a. tveir bæjarfulltrúar frá Vestmannaeyjum, auk þess fulltrúi Samtaka atvinnulífsins og fleiri.

Í áfangaskýrslu sem starfshópurinn skilaði mér 12. ágúst sl. gerði hópurinn m.a. tillögur um að fjölga ferðum í vetrar\-áætlun Herjólfs um þrjár á viku. Ég ákvað að fara eftir þessum tillögum og var í framhaldi af því gerður viðaukasamningur milli Vegagerðar og Samskipa um fjölgun ferða í samræmi við tillögur starfshópsins. Þessi breyting á ferðatíðni var borin formlega undir bæjarstjórn Vestmannaeyja og fleiri aðila með bréfi ráðuneytisins, dags. 20. ágúst 2002. Mjög var knúið á um af hálfu Vestmanneyinga að frá þessum málum yrði gengið sem fyrst og hv. þingmenn þekkja það mætavel að um þetta urðu heilmiklar umræður. En forsenda þess m.a. að hægt var að gera þessar breytingar og stórauka þjónustuna var útboðið á Herjólfi sem leiddi til lægri kostnaðar og skapaði okkur það svigrúm sem við höfum nýtt síðan til þess að auka þjónustu við Vestmanneyinga og aðra sem þurfa á flutningum á milli lands og Eyja að halda.

Þetta vildi ég að kæmi fram í svari mínu. En aðalatriði málsins er að samningurinn og aðdragandi hans gerir ráð fyrir tilteknum samráðsferlum við forsvarsmenn Vestmannaeyjabæjar og það hef ég skýrt í svari mínu.