Samningur Vegagerðarinnar og Samskipa um rekstur Herjólfs

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 11:51:17 (1838)

2002-11-28 11:51:17# 128. lþ. 38.9 fundur 292. mál: #A samningur Vegagerðarinnar og Samskipa um rekstur Herjólfs# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi LB
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[11:51]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Lítið var á svörum hæstv. ráðherra að græða. Þó kom fram hjá honum að nokkur atriði ber að bera undir bæjarstjórn. En það var ekki gert í þessu tilviki. Til viðbótar er hægt að greina frá því að enginn hefur viljað gangast við því að haft hafi verið við hann samráð sem forsvarsmann bæjarstjórnar Vestmannaeyja í tengslum við þetta tiltekna mál, ekki nokkur einasti maður. Það segist ekki nokkur einasti maður hafa séð þennan samning eða vita hvert efni hans er. Þess vegna er náttúrlega með hreinum ólíkindum að bæjarstjórn og forsvarsmönnum Vestmannaeyjabæjar skuli haldið frá því þegar fjallað er um helsta samgöngutæki Eyjanna og skiptir það þó gríðarlegu máli fyrir búsetu þar. Vestmanneyingar geta aldrei nokkurn tíma afsalað sér rétti til að hafa aðgang að því hvernig ferðatíðni, tímaáætlun, fjölda ferða og fargjöldum er ráðstafað. Þetta mál er með hreinum ólíkindum. Bæjarstjórn í heild sinni, bæjarráð í heild sinni og bæjarstjóri, allir þessir aðilar hafa leitað eftir þessum samningi en aldrei hefur verið hægt að kalla hann fram.

Ég held því að hæstv. ráðherra verði að gera miklu betri grein fyrir þessu. Þar fyrir utan er þarna verið að ráðstafa almannafé. Það er verið að ráðstafa fjármagni úr ríkissjóði. Hæstv. ráðherra hlýtur að þurfa að gera grein fyrir því hvernig því fé er varið. Þetta mál er því enn allt með hreinum ólíkindum. Enginn kannast við að hafa komið að þessu. Ekki er nokkur leið að nálgast þennan samning og breytir þá engu hvort alþingismenn spyrjast fyrir um samninginn eða hvort einstakir bæjarfulltrúar spyrjast fyrir um hann. Þetta er slíkt leyniplagg að engu tali tekur. Síðan er bætt gráu ofan á svart því að í samningnum er kveðið á um sérstakan afslátt af hafnargjöldum í Vestmannaeyjum þannig að Vegagerðin og Samskip hafa samið um framlengingu á afslætti á hafnargjöldum til Vestmannaeyja. Ekki veit ég hvaðan umboð þeirra kemur til þess.