Rannsóknir á sumarexemi

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 11:56:27 (1840)

2002-11-28 11:56:27# 128. lþ. 38.10 fundur 318. mál: #A rannsóknir á sumarexemi# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi JHall
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[11:56]

Fyrirspyrjandi (Jónas Hallgrímsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 345 getur að líta fyrirspurn til hæstv. landbrh. um rannsókn á svonefndu sumarexemi í íslenskum hrossum. Líklega hefur engin stétt í landinu þurft að þola meiri breytingar á högum sínum undanfarna áratugi en bændastéttin. Margir hlýddu kalli tímans, breyttu búháttum og hófu mótvægisaðgerðir til að tryggja afkomu og búsetu. M.a. var hafin markviss ræktun, uppeldi og sala hins einstaka íslenska hrossastofns og að þessu sinni var hlutskipti hans annað og betra en púl og erfiði í erlendum kolanámum. Telja verður að í seinni tíð hafi engin ein aðgerð til landkynningar virkað skjótar, betur og víðar en íslenski gæðingurinn. Sú ákvörðun og áhætta að leggja í kostnað og markaðsátak íslenska reiðhestsins erlendis orkar heldur ekki tvímælis, enda talið að hagur bænda og annarra sem kom málið mest við hafi batnað, a.m.k. fyrst í stað.

Adam var þó ekki lengi í paradís því að brátt mátti heyra háværar viðvaranir um mikla vá. Íslenski hesturinn, sem um aldir hafði verið í einangrun heimahaga, stóð nú allt í einu berskjaldaður gegn ofnæmi vegna mýflugna af ættkvíslinni culicoides með tilheyrandi óþægindum og sársauka fyrir menn og hesta. Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa. Gífurlegur samdráttur hefur orðið í útflutningi og birtist hann m.a. í svari hæstv. landbrh. á þskj. 243 við fyrirspurn hv. þm. Gísla S. Einarssonar um útflutning hrossa. Með leyfi forseta kemur þar fram að flest urðu útflutt hross á árinu 1996. Þá voru þau 2.480 en hefur síðan farið hríðfækkandi. Þau voru í fyrra 1.765 og það sem af er þessu ári hafa 1.418 hross verið flutt út. Þau gætu hugsanlega farið í 1.500. Þetta er hin nöturlega staðreynd.

Kunnugir fullyrða að ástæðan sé hið illvíga sumarexem í íslenskfæddum hrossum sem jafnframt er óverulegt vandamál í sama hrossastofni þegar hrossin eru fædd og upp alin á erlendri grundu.

Virðulegur forseti. Öllum sem til þekkja er ljós áhugi og röggsamleg framganga hæstv. landbrh. í þessu máli. Þess vegna er spurt:

1. Hvernig miðar vinnu samstarfshóps innlendra og erlendra vísindamanna sem settur var á stofn til að vinna að rannsóknum og lækningu á sumarexemi í íslenskum hestum?

2. Hve miklu fé hefur verið varið til þessara rannsókna? Svar óskast sundurliðað eftir löndum.

3. Hvaða líkur telja vísindamenn á að bólusetning við sjúkdómnum eða lækning finnist?

4. Hvenær má vænta þess að endanlegar niðurstöður starfshópsins liggi fyrir?